Fjarvera ráðherra
Miðvikudaginn 25. apríl 1990


     Friðrik Sophusson:
    Virðulegur forseti. Ég skal ekki vera langorður. Það kemur nú senn að því að hæstv. utanrrh. kemur ef Akraborgin er á réttum tíma, kl. er nú tvær mínútur gengin í fjögur. Ég vil aðeins minna á það, sem hæstv. forseti sagði rétt áðan, að það væru 19 stjórnarliðar í húsinu. Ég tel að þeir séu 26 eða 27 í deildinni og 19 stjórnarliðar þurfa þess vegna á hjálp stjórnarandstöðunnar að halda þegar leitað er afbrigða eða koma þarf málum áfram, en allir vita að stjfrv. njóta forgangs á dagskrá. Þetta hefur margoft komið fram í þingstörfum í vetur og margoft verið bent á þetta atriði og væri í sjálfu sér ekkert við það að athuga ef stjórnarliðar væru viðstaddir þegar hv. þm. stjórnarandstöðunnar þurfa að flytja frv. og koma sínum málum fram, venjulega á kvöldin eða á nóttunni, málum sem mörg hver eru þess eðlis að eðlilegt væri að hæstv. ráðherrar létu í ljós skoðanir hæstv. ríkisstjórnar á þeim. Ég minnist þess fyrir skömmu þegar nokkur slík mál voru til umræðu, þar á meðal nokkur mál sem ég hef flutt hér í hv. deild, þá voru tveir stjórnarliðar mættir, annars vegar hæstv. forseti sem var hér að sinna embættisskyldum og hæstv. skrifari deildarinnar. Engir aðrir úr deildinni af hálfu stjórnarliðsins voru mættir, að sjálfsögðu ekki nokkur ráðherra, enda raða þeir tíma sínum í annarri forgangsröð en flestir aðrir þingmenn. Þetta var á kvöldfundi rétt fyrir páska.
    Þetta mál sem hér er til umræðu er til 2. umr. Það er verið að fást við þetta mál á milli tveggja minni hl. nefndar. Annar minni hl. leggur til að frv. verði samþykkt, hinn minni hl. að málinu verði vísað til ríkisstjórnarinnar. Við vitum --- og ég er talsmaður 2. minni hl. --- að verði það ofan á að senda málið til ríkisstjórnarinnar viljum við fá að vita hvað það þýði og þurfum að eiga orðastað við hæstv. utanrrh. um það því hann hefur áður fjallað um þetta mál og breytir engu þótt hann styðji þann texta sem kemur fram í áliti 1. minni hl.
    Það er ekki einungis þetta sem er að. Það er eðlilegt að hér sé aðeins fjallað um þingsköp. Þannig er að hv. þm., jafnt óbreyttir sem og hæstv. ráðherrar, skulu leita leyfis ef þeir eru fjarverandi. Þá getur auðvitað hæstv. forseti hagað dagskrá fundarins samkvæmt því. Þess vegna er ástæða til að spyrjast fyrir um hvort hæstv. utanrrh. hafi slíkt leyfi og hafi boðað það. Það hefði auðveldað mjög starf fundarins í dag ef vitað hefði verið að hæstv. utanrrh. væri við skyldustörf sín uppi á Akranesi.