Fjarvera ráðherra
Miðvikudaginn 25. apríl 1990


     Ingi Björn Albertsson:
    Hæstv. forseti. Það gildir mig einu hvort hv. þm. Jón Baldvin er hér í þingsal eða ekki. Ég ætla ekki að ræða það. Þó að einhverjir aðilar vilji hafa hann viðstaddan þá er það ekki mín ósk. Mér þykir hins vegar rétt að það komi inn í þessa umræðu um tafir á þinghaldi vegna fjarveru ráðherra vegna þess að ég hef orðið áþreifanlega var við það í málflutningi um umhverfismál sem hér hafa nokkuð verið til umræðu í vetur og hafa dregist allverulega á langinn. Þau hafa dregist á langinn fyrst og fremst og fyrst og síðast vegna fjarveru tiltekins ráðherra sem nú er orðinn umhvrh. Hann hefur ekki sjaldnar en fimm sinnum verið fjarverandi þegar þetta mál hefur verið á dagskrá og því orðið að fresta því vegna fjarveru hans. Þar að auki hefur sjálfur flm. þess frv. einnig gert sig sekan um að vera fjarstaddur þegar sú umræða hefur átt að fara fram og þar með tafið framgang þess máls þannig að nú er það komið í öngstræti og allsendis óvíst hver niðurstaðan verður í því máli. Hv. flm. þess máls, sjálfur hæstv. forsrh., hefur, að ég hygg, a.m.k. tvisvar sinnum verið fjarstaddur þá umræðu.
    Þetta taldi ég rétt að kæmi fram í umræðum um töf á framgangi mála á þinginu og hvers vegna tafir verða, þar sem þær verða fyrst og síðast vegna fjarvista ráðherra.
    Ég vil hins vegar segja, vegna orða hv. 5. þm. Norðurl. v. Jóns Sæmundar Sigurjónssonar, að ég tel fyrstu skyldu ráðherra að sinna þinginu og mæta hér til þingstarfa. Hins vegar amast enginn út í ráðherra ef þeir hafa fjarvistarleyfi og ég held að enginn hafi gert það. Þannig að ég tel að hann hafi ekki farið alveg með rétt mál í þeim efnum.
    Hæstv. forseti. Ég taldi rétt að ítreka þá töf sem hefur orðið á málefnum umhvrn. og hvers vegna hún hefur orðið þar sem hér hefur verið rætt almennt um tafir á framgangi þingmála.