Húsnæðisstofnun ríkisins
Miðvikudaginn 25. apríl 1990


     Geir H. Haarde:
    Herra forseti. Það er eðlilegt að taka hér fyrir næsta mál á dagskrá þegar svo stendur á sem raun ber vitni varðandi 3. dagskrármálið. Ég vil, áður en ég byrja á efnislegri umfjöllun um þetta dagskrármál, óska eftir því að ég fái að gera hlé á ræðu minni um þetta dagskrármál til þess að geta lokið næsta máli á undan ef svo skyldi nú fara að hæstv. utanrrh. birtist hér í salnum, þannig að við gætum öll sameinast um að koma því máli út af dagskránni með eðlilegum hætti. ( Forseti: Forseti mun taka það til athugunar þegar og ef hæstv. utanrrh. kemur til þingfundar.)
    Já, herra forseti, ég þakka fyrir það. Hér er til umræðu frv. til laga um breytingar á Húsnæðisstofnun ríkisins, þ.e. þeim þætti þeirra laga sem snýr að verkefnum, viðfangsefnum og skipulagi Byggingarsjóðs verkamanna og því fyrirkomulagi sem að honum lýtur í tengslum við verkamannabústaði.
    Það mun hafa verið svo að frv. hafi verið undirbúið í sérstakri nefnd sem félmrh. skipaði til þess að gera úttekt á hinu svokallaða félagslega húsnæðiskerfi. Það orð skýtur upp kollinum hvað eftir annað, bæði í skýrslu nefndarinnar og í frv. ráðherra, allt skal þetta vera mjög ,,félagslegt`` en það mun vera þýðing á danska orðinu ,,social`` og er hér ofnotað í stórum stíl að mínum dómi.
    Nefndin, sem vann þá vinnu sem liggur að baki frv., var skipuð ýmsum valinkunnum einstaklingum, þar á meðal fulltrúum stjórnarflokkanna og fulltrúum ýmissa samtaka svo sem Sambands ísl. sveitarfélaga og fleiri slíkra samtaka. Hins vegar var stjórnarandstöðu ekki gefinn kostur á að tilnefna í þessa nefnd þó svo að ritari nefndarinnar sé kunnur stuðningsmaður og aðili að Samtökum um kvennalista. Samtök um kvennalista fengu sem sagt beint eða óbeint að tilnefna ritarann í þetta starf, en stærsti stjórnarandstöðuflokkurinn fékk ekki einu sinni tækifæri til þess að hafna því, ef hann hefði ekki haft áhuga á því að vera með. Hann fékk ekki kost á því að taka þátt í þessu starfi þó svo að ekki verði að teljast óeðlilegt að þar sem til eru nefndir fulltrúar frá hinum og þessum almannasamtökum séu jafnframt í slíkri nefnd fulltrúar frá öllum stjórnmálaflokkum, ekki aðeins stjórnarflokkunum. ( Gripið fram í: Akraborgin er komin.) --- Akraborgin er komin, já. Ég þakka samgrh. fyrir þá ábendingu. Honum er vafalaust hugstætt og hugstæðara heldur en hæstv. sitjandi forseta deildarinnar hvenær skipin koma og fara frá Skaga og hingað í Hólminn.
    Ég óska nú eftir því, herra forseti, að fá að gera hlé á minni ræðu fyrst hæstv. utanrrh. er kominn eins og kallaður til þess að hjálpa oss þingdeildarmönnum óbreyttum að afgreiða 3. dagskrármálið. Mætti ég þá beina þeim tilmælum til forseta. ( Forseti: Forseta er ljúft að verða við því þó að vissulega sé ekki æskilegt að hafa mikinn ruglanda á dagskrá. En það er af ástæðum sem fram hafa komið og ég ætla að heimila hv. ræðumanni að gera hlé á ræðu sinni. Umræðu um 4. dagskrármálið er frestað um sinn.)