Málefni aldraðra
Miðvikudaginn 25. apríl 1990


     Geir H. Haarde (frh.) :
    Herra forseti. Ég vil á ný flytja forseta þakkir fyrir þessi liðlegheit í sambandi við dagskrá. Ég tel að þau greiði fyrir því að mál gangi hér fram með eðlilegum hætti. Þó að það sé rétt að leiðinlegt sé að hafa ruglandi í dagskrá er enn þá leiðinlegra að hafa ruglandi í málflutningi eða afstöðu til mála. Það tengist reyndar óneitanlega því sem ég vildi spyrja hæstv. utanrrh. um, því það verður ekki annað séð en hans annars ágæti flokkur hafi gert sig sekan um margvíslega ruglandi í þessu máli sem nú kemur til 2. umr. og sem vonandi þarf nú ekki að taka fyrir oftar við 2. umr. hér í þessari hv. þingdeild. Ég vænti þess að oss auðnist nú að ljúka umræðu um þetta mál og að hæstv. utanrrh. geti þá þessa máls vegna og mín vegna sinnt sínum skyldum ótruflaður af þessu máli, hvort sem það er uppi á Akranesi eða annars staðar. Ég vona að það takist að ljúka afgreiðslu þessa máls við 2. umr. nú í dag.
    Það er orðið nokkuð langt um liðið síðan hæstv. utanrrh. hlýddi á fyrri hluta þessarar ræðu, það eru nokkrar vikur síðan. Umræðu um þetta mál var frestað með góðu samkomulagi milli mín og aðalforseta deildarinnar. Síðan frestaði ég, sem starfandi forseti, umræðu um málið í nokkur skipti til þess að greiða fyrir framgangi annarra mála. Málið var síðan tekið fyrir í gær lítillega og síðan aðeins fyrr á þessum fundi.
    Það er rétt að rifja eilítið upp hvaða mál er hér á ferðinni því að hv. 5. þm. Norðurl. v. lýsti því hér réttilega áðan að þetta mál er svo óvenjulega í pottinn búið að hv. 17. þm. Reykv., sem hér stendur, hefur samið bæði nál. 1. og 2. minni hl. nefndarinnar. Það er vissulega rétt. Í bæði þessi nál. hefur verið sóttur rökstuðningur úr grg. frv. sjálfs og sá rökstuðningur er m.a. fenginn úr nál. sem sá sem hér stendur lagði fram á síðasta vori. Þetta mál er þess vegna svo óvenjulegt að báðir minni hl. eru sammála um rökin í málinu. Það er enginn meiri hl. í þessari nefnd vegna þess að fulltrúi Alþb. skrifar ekki upp á neitt nál. Í 1. minni hl. eru tveir fulltrúar frá Framsfl. og einn frá Alþfl. en í 2. minni hl. eru tveir fulltrúar Sjálfstfl. og fulltrúi Kvennalistans. En það er fleira óvenjulegt við þetta mál. Ég vil nota tækifærið og endurtaka þakkir mínar til hv. 5. þm. Norðurl. v. fyrir að hafa sem starfandi formaður í fjh.- og viðskn. afgreitt málið úr nefndinni. Það tel ég vera nokkuð óvenjulega afgreiðslu um svona mál og er ekki sannfærður um að hv. formaður nefndarinnar hefði beitt sér fyrir sams konar afgreiðslu. En hann var sem kunnugt er ekki á Alþingi og hafði hér varamann þegar þetta mál var afgreitt hinn 26. mars sl. Varamaður hans skrifar einmitt undir nál. ásamt hv. 5. þm. Norðurl. v. og hv. 10. þm. Reykv.
    Rétt til upprifjunar á efnisatriðum þessa máls vil ég í stuttu máli láta koma fram að þegar staðgreiðsla skatta var hér upp tekin með lögum árið 1987 var samtímis ákveðið með góðu samkomulagi hér á hinu háa Alþingi að fella niður ýmis smágjöld og skatta

sem innheimtir höfðu verið sérstaklega. Þess í
stað var gert ráð fyrir þeirri tekjuöflun í innheimtuhlutfalli staðgreiðslu og það hækkað sem því nam. Ekki er vitað til þess að þeir aðilar sem þarna hafa notið tekna, t.d. sóknir landsins, kirkjugarðar landsins eða Framkvæmdasjóður aldraðra, hafi borið skarðan hlut frá borði vegna þessa, alls ekki. Það hafa engar slíkar kvartanir komið fram. Fyrsta almenna athugasemdin í þessu máli er því sú að endurupptaka sérstaks gjalds í Framkvæmdasjóð aldraðra sé ósamrýmanleg þeim markmiðum sem menn settu sér þegar upp var tekið staðgreiðslukerfi skatta. Vegna hvers? Vegna þess að nýr nefskattur sem allir verða að greiða gerir það að verkum að enginn skattgreiðandi, ekki einn einasti, verður nokkurn tíma kvitt, verður nokkurn tíma skuldlaus við gjaldheimtuna, eins og markmiðið er með staðgreiðslukerfinu að sem flestir verði. Að auki kallar þetta gjald á flóknara innheimtufyrirkomulag og þar af leiðandi meiri kostnað.
    Því er svo við að bæta að þegar þetta gjald var að nýju flutt inn í sali þingsins með frv. í fyrra þá var ekki gert ráð fyrir því að innheimtuhlutfall staðgreiðslunnar lækkaði á móti. Hér var sem sagt um að ræða hreina hækkun skatta, hreina viðbót í skattheimtu sem samkvæmt fjárlögum þessa árs er talin nema 230 millj. kr. En að sjálfsögðu eru aðrar 230 millj. kr. inni í staðgreiðslukerfi skatta, inni í innheimtunni, sem ætlaðar eru til þessa verkefnis. Það liggur því fyrir að ríkið aflar 460 millj. kr. á þessu ári, ef þetta gjald kemur til framkvæmda, eins og ráð er fyrir gert, nú í sumar, en ætlar ekki að skila í Framkvæmdasjóð aldraðra nema innan við 200 millj., að mig minnir 197 samkvæmt því fjáraukalagafrv. sem nú liggur fyrir.
    Þannig að hér er tvöfalt svínarí á ferðinni ef forseti fyrirgefur mér slíkt orðbragð. Bæði er verið að grafa undan staðgreiðslukerfi skatta og stunda opinbera fjárplógsstarfsemi í nafni málefnis sem allir vilja styðja, en peningunum síðan stungið í vasann hjá hæstv. fjmrh., í ríkissjóð, að verulegu leyti. Af 460 millj. kr., sem innheimtar eru, renna innan við 200 í málefnið sjálft. Hvers konar framkoma er þetta við þá sem þarna eiga hlut að máli, við gamla fólkið, að segja skattborgurum landsins: Hafið ekki áhyggjur af því þó
þið borgið 460 millj. í skatta. Þetta rennur allt í gott málefni. Þetta rennur allt til Framkvæmdasjóðs aldraðra sem er að byggja íbúðir fyrir gamalt fólk. Ég hygg að fáir telji eftir sér að greiða skatta til slíks málefnis. En rangindin eru svo þau að þessir peningar renna ekki nema að litlum hluta í það málefni. Fjármunirnir renna að stærstum hluta til beint í ríkissjóð.
    Þetta mál ræddum við nokkuð ítarlega hér á síðasta vori, á síðustu dögum þingsins, þegar hinum svokallaða nefskatti var á nýjan leik smyglað inn í lögin um málefni aldraðra þar sem slíkt málefni á að sjálfsögðu ekki heima. Vegna þess að skattheimta sem þessi á ekki heima í einhverjum sérhæfðum lögum,

hvort sem þau eru um málefni aldraðra eða annað því um líkt. Slík skattheimta á heima í skattalögum og hvergi annars staðar. Þess vegna lagði ég til að þetta mál færi til fjh.- og viðskn. þegar það kom fyrir hér í haust en ekki til heilbr.- og trn., eins og heildarlöggjöfin gerði á sínum tíma. Enda segir hv. 2. þm. Vestf. Ólafur Þ. Þórðarson, sem er gjörkunnugur stjórnskipan og stjórnarháttum í landinu, svo í ræðu sinni um þetta málefni í fyrra, með leyfi forseta:
    ,,Ég var fjarverandi afgreiðslu þingflokks Framsfl. á þessu máli og satt best að segja undrar mig að maður geti átt von á því að í lögum til heilbrigðismála séu bæði tekin fyrir fjáraukalög og skattalög og virðist þá fátt sem mönnum dettur ekki í hug að setja saman í lagatexta.`` Síðan bætti hann því við, virðulegi forseti, að hann treysti sér ekki til að standa að þeirri ákvörðun að gerbreyta grunni staðgreiðslukerfisins og gera það með því að taka upp þennan nefskatt. Hann stóð með þeim sem hér stendur og sjálfstæðismönnum og kvennalistakonum í þeirri atkvæðagreiðslu sem fram fór um þetta mál í fyrra og gerir það væntanlega nú einnig.
    Í fyrra var þessu máli smyglað með lymskulegum hætti inn í frv. um málefni aldraðra, löggjöfina sem þá var til heildarendurskoðuanr. Þá stóð svo á að láta átti þennan skatt koma til framkvæmda á síðasta ári. Lögin voru til umfjöllunar í maí og skatturinn átti að koma til framkvæmda og álagningar í byrjun ágúst, án þess að nokkur maður tæki eftir því. Og reyndar var það svo að ýmsir tóku ekkert eftir þessu og málið var komið hér í gegnum Ed., eins og menn muna væntanlega.
    Í fyrra leyfði ég mér að beina nokkrum fyrirspurnum til hæstv. utanrrh. um þetta mál og hann svaraði þeim skýrt og skorinort eins og hans er vandi. Hann lýsti því yfir að við meðferð þessa máls hefði orðið slys. Það kemur fyrir fimm sinnum í hans stuttu ræðu hinn 20. maí í fyrra að hér hafi orðið slys, í þessu máli. Hann segir sem svo að það sé best að viðurkenna hverja sögu eins og hún er, það hafi orðið slys við undirbúning málsins. Orðrétt segir hann svo:
    ,,Það kemur með öðrum orðum fyrir á bestu bæjum að það verða slys af þessu tagi. Það er verið að reyna að koma í veg fyrir þetta slys, en á seinustu stundu þegar hér var komið sögu var ekki unnt að gera betur en að ná samkomulagi um að fresta gildistökunni. Við það vinnst tími til að halda öðruvísi og með traustari tökum á málinu í framhaldinu.``
    Hér er sem sagt verið að tala um þá frestun, sem tókst að knýja fram um eitt ár, á því að gjaldtakan í Framkvæmdasjóð aldraðra, þessi nefskattur, hæfist á nýjan leik. Það er rétt að það tókst að fá því frestað. En það segir líka hér, eins og ég hef upp lesið, að það sé ætlunin að halda öðruvísi á málinu og væntanlega þá að gera breytingar á í samræmi við þá stefnu að hafa staðgreiðslukerfi skatta sem hreinast. Því að hæstv. utanrrh. var áður búinn að segja eftirfarandi:
    ,,Nú er best að segja hverja sögu eins og hún gengur. Það var andstaða í þingflokki Alþfl. gegn

þessum nefskatti og það er andstaða gegn honum af þeim rökum sem hv. þm. skilur mætavel. Engu að síður, vegna þess að við erum ekki að ræða staðgreiðslukerfi skatta, við erum að ræða hér um allt annað mál, málefni aldraðra, gaf þingflokkurinn grænt ljós á að málið færi fram með fyrirvara um þetta mál. Það mundi takast upp aftur innan ríkisstjórnar sem var gert. Niðurstaðan varð sú þá að vísa málinu til samstarfsnefndar þingflokka, en undanskilið að málið kæmi aftur á borð ríkisstjórnar. Það gerðist ekki.``
    Það er sem sagt sagt fullum fetum, og auðvitað veit ég að það er alveg hárrétt, að skattheimta af þessu tagi er ekki að skapi utanrrh., eða að skapi hreinræktarmanna í staðgreiðslumálum vegna þess, sem ég hef áður sagt, að slík aukagjöld grafa undan framkvæmd staðgreiðslunnar. Þá er og þess að vænta að öll gömlu gjöldin skjóti aftur upp kollinum, ef menn vilja tryggja tekjur í einhver önnur góð málefni og hugsanlega einhver ný og ný, ef á annað borð er opnað fyrir þennan möguleika sem á auðvitað alls ekki að gera.
    Og utanrrh. bætir við í beinu framhaldi: ,,Þegar t.d. alþýðuflokksmenn unnu að málinu í Ed. höfðu þeir gefið grænt ljós á málið sem slíkt, en treystu því að sá fyrirvari stæði að málið kæmi aftur, áður en það kæmi á lokaafgreiðslustig, á borð ríkisstjórnar. Þetta gerðist ekki. Með öðrum orðum: það henti slys við undirbúning málsins. Þessi vegna er þessi tillaga fram komin um að koma í veg fyrir að nefskatturinn verði á lagður á þessu ári einfaldlega til þess að vinna tíma til að vinna að lausn málsins vegna þess að
hv. fyrirspyrjandi má vel vita að sá sem hér stendur er andvígur þessum skatti af þeim rökum sem fram hafa komið í hans máli.``
    Skýrara getur þetta reyndar ekki verið, herra forseti. En þess vegna er spurningin auðvitað sú, herra forseti: Hvað hefur verið gert við þennan tíma sem vannst til þess að fá málinu breytt? Hvað hefur verið gert á þessu heila ári sem liðið er til þess að breyta málinu til samræmis við þær skoðanir sem utanrrh. lýsir hér skýrt og greinilega í ræðu sinni hinn 20. maí sl. og eru nákvæmlega sama efnis og ég hafði þá lýst og lýsi hér enn? Hvað hefur verið gert til að nota tímann? Með hvaða hætti hefur verið unnið að þessu máli?
    Í frv. til fjárlaga kom fram að af hálfu heilbrrh. stæði til að flytja frv. um einhvers konar endurskoðun á einhverjum atriðum í lögum um málefni aldraðra. Það frv. hefur aldrei komið fram. Og það liggur ekki fyrir hvort það var einmitt þetta atriði sem þá stóð til að breyta. Það hlýtur þó að vera vegna þess að annars hefði ekki verið á það minnst í frv. til fjárlaga. Það má því vera að eitthvað hafi verið um þetta fjallað strax eftir að þessar umræður fóru fram í maí í fyrra með þeim afleiðingum að á þetta er drepið í fjárlagafrv. en síðan hefur málið gersamlega koðnað niður. Það verður ekki annað séð. Það var af þeim sökum sem við þrír þingmenn, sem að þessu máli komum í fyrra í heilbr.- og trn. þá, fluttum frv. um að taka af öll tvímæli í þessu efni vitandi það að við

mættum eiga vísan stuðning utanrrh. í ljósi þess sem hann hefur látið frá sér fara um málið. Ég vænti þess á sama hátt og ég vænti þess að hv. þm. Ólafur Þ. Þórðarson greiði atkvæði með sama hætti nú og hann gerði á síðasta þingi.
    Það var þetta sem ég hafði hugsað mér að spyrja hæstv. utanrrh. um og leyfi mér hér með að gera um leið og ég þakka honum fyrir að drífa sig nú hingað úr Akraborginni. Málið hlaut afgreiðslu í hv. fjh.- og viðskn. eins og fram hefur komið. Nefndin klofnaði en ég lét þess getið í gær, eins og fram kom í ræðu hv. 5. þm. Norðurl. v. hér áðan um þingsköp, að svo einkennilega vill til að báðir minni hl. rökstyðja mál sitt með tilvitnun í þá grg. sem fylgdi frv. Þess er reyndar ekki getið að það sé bein tilvitnun í grg., en frsm. 1. minni hl., hv. þm. Jón Sæmundur Sigurjónsson, bar það undir þann sem hér stendur hvort honum væri það að meinalausu að þessi texti yrði notaður og mér var það að sjálfsögðu meira en að meinalausu. Mér þótti það harla gott og lýsa nokkuð góðum efnislegum skilningi á þessu máli.
    Til þess að ekkert fari nú á milli mála ætla ég að lesa þennan texta upp. Ég hef hér nokkur skjöl sem ég get valið úr. Það er nál. 1. minni hl. fjh.- og viðskn. Það er nál. 2. minni hl. fjh.- og viðskn. Það er grg. frv. og það er nál. minni hl. heilbr.- og trn. um þetta mál frá síðasta þingi. Ætli ég velji ekki nál. 1. minni hl. fjh.- og viðskn. sem undir skrifa hv. þm. Jón Sæmundur Sigurjónsson, Guðmundur G. Þórarinsson og Sverrir Sveinsson. Þar segir:
    ,,Rétt er að minna á að þegar staðgreiðslan var tekin upp féllu niður fjórir smáskattar sem urðu hluti staðgreiðslunnar og hækkaði álagningarhlutfall hennar sem þeim nam. Þessir skattar voru sóknargjald, kirkjugarðsgjald og sjúkratryggingagjald auk hins sérstaka gjalds í Framkvæmdasjóð aldraðra.
    Með því að taka einn þessara skatta upp í tengslum við samþykkt nýrra laga um Framkvæmdasjóð aldraðra er verið að fitja að nýju upp á álagningu þessara smáskatta og gefa um leið fordæmi fyrir frekari beitingu þeirra án þess að staðgreiðsluhlutfallið lækki á móti. Með þessu er verið að grafa undan framkvæmd staðgreiðslunnar sem hefur það að markmiði að sem flestir gjaldendur séu jafnan skuldlausir við ríkissjóð. Í núgildandi kerfi eru það eingöngu gjaldendur eignarskatta sem greiða eftir á, sem og þeir sem ekki hafa staðgreitt skatta af tekjum sínum með venjulegum hætti. Allir smáskattar og fráhvarf frá samtímainnheimtu skatta gerir framkvæmd staðgreiðslunnar erfiðari og mun auka fjölda þeirra gjaldenda sem ekki eru gerðir upp að fullu í staðgreiðslunni.``
    Hér lýkur tilvitnun í þennan margnýtta texta sem höfundi er að sjálfsögðu sérstaklega ljúft að lesa upp, einkanlega þegar hann er lesinn upp af þskj. þeirra aðila sem ekki hyggjast styðja málið þó að rökstuðningurinn liggi svona fyrir. Þetta hljóta nú að teljast heldur klén vinnubrögð, herra forseti. Ég er að sjálfsögðu sannfærður um það að þessi vinnubrögð eru ekki hæstv. utanrrh. að skapi, a.m.k. ekki í ljósi þess

sem hann lét frá sér fara um málið á síðasta þingi og ég hef lesið upp. Ég geri ekki ráð fyrir því að hæstv. ráðherra taki því fagnandi þegar málflutningur hans frá í fyrra er rökstuddur jafndyggilega í nál. flokksbróður hans en síðan snúið við blaðinu þegar draga á ályktanir af þessum rökstuðningi og í stað þess að leggja til að málið verði samþykkt er lagt til að því verði vísað til ríkisstjórnarinnar, í það kot, eins og ástandið er nú orðið á því heimili.
    Minni hl. leggur til að þessu frv. verði í kot vísað til ríkisstjórnarinnar þrátt fyrir það að 1. minni hl. skrifi upp á rökstuðninginn fyrir því að frv. skuli samþykkt. Eins og ég segi, það getur ekki verið að þetta sé í samræmi við vitund og vilja hæstv. ráðherra sem talaði svo skýrt um þetta mál á síðasta þingi, svo skýrt að ekki var um að villast hver ásetningur hans var.
    Hv. 5. þm. Norðurl. v. gerir hér leiðréttingu, kallar hér fram og segir að það sé ekki í kot vísað að vísa til ríkisstjórnarinnar heldur í Hákot og má vel vera að svo sé. (Gripið fram í.) Nei, það tekur ræðumaður ekki undir hins vegar.
    Ég vil enn fremur minna á það, herra forseti, að þegar þetta mál var hér til umfjöllunar í fyrra var leitað eftir því að ríkisskattstjóri gæfi umsögn um málið. Hann skrifaði ítarlega umsögn um þetta atriði sem liggur fyrir í þingskjölum, bæði í grg. með frv. og í nál. frá því í fyrra. Ég sé ekki ástæðu til að lesa þá umsögn en hún liggur sem sagt fyrir í málinu. Það er alveg ljóst að það er ekki í þökk ríkisskattstjóra eða annarra þeirra sem vinna við framkvæmd skattkerfisins að vera að bæta við nýju sérstöku gjaldi fyrir utan staðgreiðsluna sem allir menn verða látnir borga óháð því hvað líður þeirra gjaldstöðu gagnvart staðgreiðslu skatta og kemur alveg þar fyrir utan. Þetta er auðvitað óeðlilegur hlutur. Þó að það sé að sjálfsögðu ekki verkefni ríkisskattstjóra að segja Alþingi fyrir verkum þá hljóta það að vera þungvæg orð sem koma fram í máli sem þessu gagnvart framkvæmd málsins þegar sjálfur ríkisskattstjóri tjáir sig með þeim hætti sem fyrir liggur í málinu.
    Ég sé satt að segja ekki ástæðu, herra forseti, til að vera að eyða meiri tíma í þetta mál. Ég vil gjarnan, eins og ég sagði áðan, meðan ég er hér starfandi forseti í deildinni greiða fyrir því að þingmál gangi hratt og greiðlega fyrir sig, enda hefur ekki staðið á mér að afgreiða þetta, það eru aðrar ástæður fyrir því. Ég hyggst því stytta mál mitt og óska þess mjög að ráðherrann taki nú til máls og segi sína skoðun á þessu og útskýri það með hvaða hætti sá tími sem vannst hefur verið notaður og hvort þetta nál. er ritað í hans þökk og sú niðurstaða sem þar er fengin um að vísa þessu máli í kotið til ríkisstjórnarinnar, sem er ekki rökrétt niðurstaða miðað við ummæli ráðherrans sjálfs á síðasta þingi. Eða var það svo að ummælin sem hann lét falla á síðasta þingi hafi verið marklaus og ekki hafi staðið til að taka á þeim neitt mark? Það er vissulega einn möguleiki þó að ég telji ekki að það sé líklegur möguleiki.
    Ég vil ljúka minni ræðu með því að ítreka áskorun

mína til utanrrh. um það að hann geri hreint fyrir sínum dyrum í þessu máli svo að unnt verði að fá niðurstöðu í málinu því að þetta mál var í og með flutt í trausti þess að það væri meiri hl. fyrir afgreiðslu þess hér í hv. deild. Það liggur fyrir skjalfest, til að mynda, afstaða hv. þm. Ólafs Þ. Þórðarsonar. Stjórnarandstaðan stendur óskipt að þessu máli og það liggur fyrir að einstakir stjórnarþingmenn styðja þetta mál. Það má vera að utanrrh. treysti sér ekki til þess að taka hér til máls, ég veit nú ekki um það. Það er stundum betra að sitja þegjandi og láta alla halda að viðkomandi hafi ekkert meint með því sem hann sagði á sínum tíma í stað þess að standa upp og taka af allan vafa.
    Ég sem sagt beini þeim óskum til ráðherrans að hann geri hreint fyrir sínum dyrum svo við megum ljúka umræðunni um málið, ganga til atkvæða um það og halda áfram með þá dagskrá sem fyrir liggur og þann langa óskalista stjfrv. sem ætlunin er að afgreiða á þessu þingi áður en yfir lýkur.