Málefni aldraðra
Miðvikudaginn 25. apríl 1990


     Utanríkisráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson):
    Virðulegi forseti. Hv. 17. þm. Reykv. sem hér talaði rakti ágætlega slysalegan feril þessa máls og vakti síðan athygli á því, sem óvenjulegt er, að tveir minni hlutar hv. fjh.- og viðskn. eru efnislega sammála um málið en komast að vísu að ólíkri niðurstöðu um málsmeðferð. En það er ekki hnífurinn í milli þeirra um álit þeirra á efnisrökum málsins þannig að ég er sammála báðum þessum minni hlutum fjh.- og viðskn. að því er varðar efnisrök málsins. Ég er hins vegar úr því sem komið er sammála hv. 1. minni hl. um málsmeðferð. Á því eru þær skýringar sem koma fram á því nál. Í fyrsta lagi þar sem segir:
    ,,Nú er það ekkert launungarmál að nokkur ágreiningur hefur verið um það meðal stjórnarflokkanna og innan þingins hvort innheimta skuli gjald þetta með þessum hætti eða eingöngu samkvæmt ákvæðum laga um staðgreiðslu skatta.``
    Og í annan stað þar sem segir:
    ,,Nú hefur meiri hluti Alþingis samþykkt forsendur fjárlaga og þar með áðurgreint fyrirkomulag á innheimtu gjalds til Framkvæmdasjóðs aldraðra.``
    Það segir sig sjálft að stjórnarmeirihlutinn er bundinn af þeirri samþykkt og fær því ekki því fram komið en verður að standa við þær skuldbindingar sínar, nema með því að vísa því til ríkisstjórnar og freista þess enn að koma málinu til réttrar áttar. Þess vegna segja þeir enn fremur í beinu framhaldi af þessu:
    ,,Það breytir því ekki að þessi tilhögun er órökrétt og óhagkvæm í innheimtu. 1. minnni hl. telur því rétt að nákvæm athugun fari fram á álagningu þessa gjalds í framtíðinni og að niðurstöður þeirrar athugunar eigi að liggja fyrir eigi síðar en við 1. umr. fjárlaga fyrir árið 1991. 1. minni hl. nefndarinnar leggur því til að málinu verði vísað til ríkisstjórnarinnar.``
    Það er vandséð hvernig unnt er að fá fram breytingu á þessum málum með öðrum hætti úr því sem komið er. Það liggur fyrir af undirskrift hv. þm. Framsfl., þeirra Guðmundar G. Þórarinssonar og Sverris Sveinssonar á þetta nál., sem og af málflutningi fulltrúa stjórnarandstöðunnar að það er væntanlega mikill stuðningur við það að koma fram þeim sjónarmiðum sem rökstudd eru sameiginlega á báðum nál. En úr því sem komið er verður ekki betur að gert en vísa því til ríkisstjórnarinnar.