Málefni aldraðra
Miðvikudaginn 25. apríl 1990


     Geir H. Haarde:
    Herra forseti. Hæstv. utanrrh. hefur oft flutt skörulegri ræðu en þessa. (Gripið fram í.) Já, það hefur komið fyrir og með meiri sannfæringarkrafti. Reyndar var þessi ræða öll hin eymingjalegasta, ef ég má aftur biðja forseta velvirðingar á orðbragði ræðumanns, enda var ekki svarað þeirri spurningu hvernig tímanum var varið sem vannst fyrir ári síðan með því að fresta gildistöku þessa skatts um heilt ár. Í hvað fór þessi tími eiginlega? Hvað voru mennirnir að gera sem ætluðu að fá þessu breytt? (Gripið fram í.) Vinna í EFTA og EB, kallar utanrrh. hér fram í. Ég geri ekki ráð fyrir því að hann hafi sjálfur ætlað að leggjast yfir samningu frv. um þetta efni persónulega heldur hefði hann getað fengið einhvern af sínum starfsmönnum eða Alþfl. eða þeirra ráðuneyta til þess að vinna í málinu. Til að mynda hefur verið kallað fram í úr salnum og nefnd ýmis nöfn líklegra kandidata til að taka þetta verk að sér. Þannig að það er engin afsökun þó að ráðherrann hafi verið upptekinn við að sinna málefnum EFTA. Það gerir þetta bara enn þá eymingjalegra ef þarf að nota það sem afsökun að svona smámál hafi þurft að flækja eitthvað stórmál eins og EFTA-viðræðurnar.
    Nei, það liggur alveg fyrir að það er rétt sem ég sagði áðan að stundum er betra, jafnvel fyrir hæstv. ráðherra, að sitja bara þegjandi og láta alla halda að þeir hafi ekkert meint með því sem þeir voru að segja. Í staðinn fyrir að standa upp og taka af allan vafa í því efni. Því það hefur komið fram í ræðu hæstv. ráðherra að það var engin meining á bak við það sem sagt var hér í fyrra um að endurskoða ætti þetta mál í fyrrasumar og leggja fram breytingu á þessu máli á nýjan leik í haust. Það var bara ekkert að marka það, ekki eitt einasta orð. Það er því það sem eftir stendur.
    Hins vegar vil ég reyndar fagna því litla haldreipi sem fram kom í máli ráðherrans, hvað sem verður nú mikið hald í því þegar á reynir, að það eigi
enn að freista þess að fá þessu máli breytt og nú kallar hann sér til stuðnings tvo þingmenn Framsfl. sem undir þetta nál. rita. Ég fagna því að sjálfsögðu að þeir séu sérstaklega tilnefndir, enda hafa þeir réttilega skrifað undir rökstuðninginn í málinu. Þannig að nú á enn á ný að telja mönnum trú um að þessu máli verði breytt. Það verði tekið fyrir í hinni virðulegu ríkisstjórn, sem hv. 5. þm. Norðurl. v. kallar Hákot, og þar breytt á nýjan leik fyrir 1. umr. fjárlaga fyrir árið 1991. Það er hinn nýi frestur.
    Ég veit ekki hvort ráðherrann gerir sér grein fyrir því að þá verður búið að leggja þetta gjald á einu sinni. Þá verður væntanlega búið að koma á því innheimtukerfi sem þarf til að halda utan um það þegar 170 þús. eða 180 þús. einstaklingar þurfa hver um sig að inna af hendi 2500 kr. sem þetta gjald er. Þeir 120 þús. einstaklingar sem ella hefðu verið skuldlausir við sína gjaldheimtu þurfa nú að greiða aukalega fyrir utan staðgreiðsluna þetta litla gjald, sem fáir telja kannski í sjálfu sér eftir sér að borga, sem

þar um ræðir í þetta þarfa og góða málefni. Það verða sem sagt allir gjaldendur 16 ára og eldri með örfáum undantekningum sem þurfa í sumar að inna þetta gjald af hendi. Þeir sem skila framtölum eru líkast til eitthvað um 180 þús. ef ekki enn fleiri. Þar af eru 120 þús. manns sem ella hefðu verið kvitt við sína gjaldheimtu, allir unglingarnir, allir þeir sem ekki borga eignarskatta og fleiri og fleiri sem núna þurfa að hafa auga með því að standa í skilum með þetta gjald. Það þarf auðvitað að koma sérstaklega upp innheimtukerfi vegna þess að þarna kemur ný innheimta til hliðar við staðgreiðslukerfi skatta.
    Ég tel að hæstv. utanrrh. hafi haft lítinn sóma af afskiptum sínum af þessu máli, sérstaklega í ljósi þess að hann hefur talið sér til pólitískra tekna afskipti sín af því að upp var tekið staðgreiðslukerfi skatta, en hefur nú með afstöðu sinni bæði í fyrra og núna hlaðið steina í verk sem mun grafa undan því kerfi. Það er honum ekki til neins sérstaks sóma, hvorki að mínum dómi né annarra þingmanna sem að þessu hafa staðið.
    Það er hægt að tryggja Framkvæmdasjóði aldraðra fyllilega þær tekjur sem hann á að fá, samkvæmt ákvörðun Alþingis, með þeirri brtt. sem hér er flutt við lögin um málefni aldraðra í þessu frv. sem nú er til 2. umr. Þetta frv. gengur út á það að tryggja Framkvæmdasjóðnum nákvæmlega þá upphæð sem þetta sérstaka gjald annars mundi gera. Meira að segja svo nákvæmlega að undan því yrði ekkert vikist með neinum hætti. Þetta er sama fyrirkomulag og nú er haft á um skil til kirkjugarðanna og sóknanna í landinu af innheimtu staðgreiðslufé og ég veit að hæstv. dóms- og kirkjumrh. þekkir. Þar er gengið tryggilega frá þessum greiðslum sem á sínum tíma voru sérstök gjöld alveg eins og gjaldið í Framkvæmdasjóð aldraðra. Það er gengið tryggilega frá því í lögum hvernig þessu gjaldi á að skila út úr innheimtu staðgreiðslufé. Hér er verið að leggja til að nákvæmlega sama fyrirkomulagið verði upp tekið og það þurfi ekki neinn sérstakan smáskatt. En það er auðvitað líka verið að leggja til að ekki sé stolið af almenningi 460 millj. í nafni aldraðra og ekki nema broti af þeim skilað á nýjan leik í þann sjóð sem fólki er talin trú um að peningarnir renni í.
    Þetta er málið í hnotskurn, herra forseti. Ég ætla ekki að hafa fleiri orð um þetta, læt mínu máli lokið. Ég hef talað tvívegis við þessa umræðu. En ég vona svo sannarlega að þetta mál fái hér framgang og megi koma til 3. umr. og hljóta samþykki í deildinni og í þinginu vegna þess að ég veit, eins og fram hefur komið m.a. í máli ráðherra, að það er meiri hluti fyrir þessu máli hvernig svo sem menn handleika samvisku sína í málinu þegar kemur til atkvæðagreiðslu.