Málefni aldraðra
Miðvikudaginn 25. apríl 1990


     Þorsteinn Pálsson:
    Herra forseti. Ræða hæstv. fjmrh. kom ekki á óvart. Hún var eigi að síður um margt athygli verð, lýsti mætavel á einkar skýran og einfaldan hátt grundvallarviðhorfum hans, og ég hygg Alþb., þó deilur standi um það hvort hæstv. ráðherra styður eigin flokk eða ekki. Í sjálfu sér hefði kannski verið ástæða, í þeim tilgangi að fá skýra og glögga mynd af afstöðu Alþb., til að kalla til hæstv. samgrh., varaformann Alþb. Fyrir liggur að hann styður með ótvíræðum hætti þann flokk sem hann er í forustu fyrir, en sjálfur hefur formaður Alþb., hæstv. fjmrh., marglýst því yfir að hann geti ekki með ótvíræðum hætti stutt sinn eigin flokk í þeim sveitarstjórnarkosningum sem háðar verða í höfuðborginni í næsta mánuði. Þess vegna væri ástæða til að heyra sjónarmið varaformanns flokksins til að fá þessa mynd fyllri. En hitt fer ekki á milli mála að hæstv. fjmrh. hefur lýst sínum skoðunum.
    Það er athygli vert að hann fullyrti að nú væri minni stuðningur en áður við það meginsjónarmið að draga úr nefsköttum og sérsköttum af ýmsu tagi og lýsti því að ýmis þau mál væru þess eðlis að þau nytu þeirrar hylli meðal kjósenda og skattborgara að þeir væru reiðubúnir að greiða sérstaka skatta til að standa straum af útgjöldum þeirra vegna. Ég fullyrði að þessi viðhorf lýsa ekki þeim meginhugmyndum sem uppi eru í skattamálum. Þvert á móti er það mín skoðun að þær hugmyndir sem hafa verið að ryðja sér til rúms til einföldunar á skattkerfi, til fækkunar á sérsköttum, frádráttarliðum og undantekningum af ýmsu tagi, njóti enn mikils fylgis. Menn hafa augljóslega komið auga á að skattheimta sem byggir á þeim meginviðhorfum er sanngjarnari og eðlilegri, skilvirkari í framkvæmd og leiðir til meira öryggis í skattheimtu.
    Hæstv. fjmrh. hefur stundum bent einmitt á þá staðreynd. En nú virðist hann vera að hverfa frá þessu. Ég hygg að það sé aðeins ein ástæða fyrir því og hún er sameiginleg öllum þeim sem trúa því að þá sé þjóðunum best stjórnað þegar
ríkisvaldið tekur sem mest til sín af sjálfsaflafé einstaklinganna og afrakstri atvinnufyrirtækjanna. Það eru þeir sem trúa því að ríkisvaldinu, þeim sjálfum, sé best trúandi til þess að skipta verðmætasköpuninni í þjóðfélaginu en einstaklingunum sjálfum og atvinnufyrirtækjunum síður. Það eru með öðrum orðum þeir stjórnmálamenn sem trúa á miðstýringu og ríkisumsvif sem eru talsmenn þessara hugmynda. Og það er í sjálfu sér ágætt að heyra hæstv. fjmrh. viðurkenna að það eru þessi sjónarmið sem ráða ákvörðunum hans og gerðum og stefnumótun í núv. hæstv. ríkisstjórn.
    Eðlilega hefur hæstv. fjmrh. frumkvæðisvald á sviði skattheimtu og stefnumótandi áhrif í þeim efnum innan hæstv. ríkisstjórnar, þó hitt hafi kannski vakið meiri furðu að hann hefur fram til þessa haft mótandi áhrif og úrslitaáhrif á efnahagsstefnu ríkisstjórnarinnar almennt sem, samvæmt venju, er þó í höndum forsrh.
    Hæstv. utanrrh., formaður Alþfl., lýsti því, þegar

honum hafði á Alþingi verið gerð grein fyrir þeim ákvörðunum sem hann og flokkur hans hafði tekið að fyrirlagi hæstv. fjmrh., að hér hafi orðið stórt slys. Nú er þetta ekki fyrsta alvarlega slysið í skatta- og efnahagsmálum sem þessi hæstv. ríkisstjórn veldur. Þau eru mörg og mætti flytja um þau langt mál hér á Alþingi. En það var iðrunartónn í hæstv. utanrrh. þegar hann lýsti því yfir að hér hafi orðið slys. Þeir voru ýmsir sem trúðu því að sú iðrun mundi leiða til þess að Alþfl. reyndi að beita afli sínu innan hæstv. ríkisstjórnar til að bæta úr og koma málum í eðlilegt horf á nýjan leik.
    Sá umþóttunartími sem í fyrstu fékkst nýttist Alþfl. þó ekki í þessu efni. Annaðhvort hefur hugur ekki fylgt máli ellegar að áhrif Alþfl. innan hæstv. ríkisstjórnar eru svo lítil að jafnvel þó að formaður flokksins taki jafnstórt upp í sig og hann gerði í þessu efni hafa samstarfsflokkarnir þau ummæli að engu og einkanlega hæstv. fjmrh. Öllu líklegra er að þetta sé skýringin á því að engar breytingar hafa orðið á þeim umþóttunartíma sem skapaðist eftir að slysið varð. Það segir auðvitað heilmikla sögu um stöðu Alþfl. að áhrif hans skuli vera með þeim hætti að jafnvel sá forustumaður ríkisstjórnarinnar sem hvað mest hefur hvatt, ásamt formanni Alþfl., til samvinnu og sameiningar A-flokkanna svokölluðu í landinu skuli virða neyðarkall formanns Alþfl. um þetta efni að engu og snúa hann gersamlega niður í þessu samstarfi.
    Það er auðvitað athygli vert að fá það fram hér í þingsölum með hvaða hætti þessi hæstv. ríkisstjórn vinnur og hver staða einstakra flokka er í þessu stjórnarsamstarfi. Það er ljóst að með þeirri skipan og því slysi sem hæstv. fjmrh. hafði forgöngu um að yrði í skattlagningu er verið að ganga gegn þeim meginviðhorfum sem lágu til grundvallar þeirri einföldun sem gerð var á tekjuskattskerfinu vorið 1987 þegar staðgreiðslan var tekin upp. Það er ástæða til þess að minna á að þær breytingar á skattkerfinu voru gerðar í mjög nánu samráði og samvinnu við verkalýðsfélögin í landinu. Þau lögðu höfuðáherslu á að útrýma hvers konar sérsköttun, þar á meðal þessum skatti, og fella inn í hið almenna skatthlutfall. Þá þegar var ráð fyrir því gert að hluti af almenna skatthlutfallinu rynni til Framkvæmdasjóðs aldraðra og svo er enn.
    Það hefur verið upplýst, og komið fram í þessari umræðu, að ríkið innheimtir nú, undir því yfirskini að verið sé að vinna að framfaramálum í þágu aldraðra, 460 millj. kr. Aldraðir eru settir fyrir skattheimtuvagn ríkisstjórnarinnar. Þeir eru spenntir fyrir skattheimtuvagn ríkisstjórnarinnar til þess að draga inn í ríkissjóð 460 millj. kr. En hæstv. fjmrh. og þinglið ríkisstjórnarinnar gervallt sér ekki ástæðu til að setja í Framkvæmdasjóðinn nema 197 millj. kr., ef ég man rétt. 263 millj. kr. er því nánast rænt úr þessum skattheimtuvagni, sem hæstv. ríkisstjórn hefur spennt aldraða í þjóðfélaginu fyrir, til almennrar eyðslu ríkissjóðs. Heldur er nú lágt risið á þeim skattheimtumönnum sem þannig standa að verki. Heldur er nú lágt risið á þeim sem þurfa að auka

skattheimtu inn í almenna eyðslu ríkissjóðs þegar þeir þurfa að spenna aldraða fyrir skattheimtuvagninn með þessum hætti. Og athygli vert sérstaklega að þingmenn eins og hv. 11. þm. Reykv. skuli styðja skattheimtuaðferðir af þessu tagi. En Alþfl. lætur sér ýmislegt lynda og hefur kyngt þessum aðförum öllum.
    Nú hefur komið á daginn að tilboði því sem hæstv. utanrrh. hefur gert Alþingi um annan umþóttunartíma, til þess að hæstv. ríkisstjórn geti fjallað um þetta mál, hefur í raun og veru verið svarað neitandi af hæstv. fjmrh. Hann hefur í raun og veru lýst því yfir í ræðu sinni hver afstaða hans er, hver skoðun hans er. Og hann hefur lýst því yfir að það séu æ sterkari tilhneigingar af hans hálfu og annarra þeirra sem hugsa með sama hætti um skattheimtu og ríkisumsvif og hann gerir að auka frekar skattheimtu með sérsköttum sem þessum. Með öðrum orðum, hann hefur gefið það fyllilega til kynna að hæstv. utanrrh. verði í annað sinn snúinn niður í þessu máli og tilboð hans að engu gert.
    Það væri ástæða til þess, herra forseti, að hæstv. heilbrrh. kæmi til þessarar umræðu og skýrði sín viðhorf í þessu efni. Ég vil mælast til þess, herra forseti, að hæstv. heilbrrh. verði kallaður til umræðunnar, enda mun Framkvæmdasjóður aldraðra heyra undir hans ráðuneyti. ( Forseti: Forseti mun freista þess að biðja hæstv. heilbrrh. að koma í salinn, hann var hér fyrir augnabliki síðan. Ég vænti þess að hann komi að vörmu spori.) Það var forseta líkt að bregðast við þessari beiðni af lipurð og kurteisi og ég trúi því að hæstv. heilbrrh. bregðist við beiðninni af sinni einlægni og kurteisi svo sem hann er þekktur að.
    Þar sem hér er komið í umfjöllun um þetta mál liggur þetta fyrir í málinu: Hæstv. utanrrh. hefur lýst því sem stórkostlegu slysi að ríkisstjórnin skyldi hafa beitt sér fyrir þessari breytingu á skattheimtunni. Hann hefur einu sinni fengið umþóttunartíma til að taka málið upp innan ríkisstjórnar og bæta úr slysinu en hæstv. fjmrh. umsvifalaust snúið hann niður og gert yfirlýsingar hans að engu. Nú hefur hæstv. utanrrh. og talsmenn flokks hans óskað eftir því í umræðunni í dag að Alþfl. fái annað tækifæri til að taka málið upp innan hæstv. ríkisstjórnar en hæstv. fjmrh. hefur svarað á þann veg að hann sé ekki einungis þeirrar skoðunar að taka beri upp sérskatta af þessu tagi, hafi ekki einungis verið þeirrar skoðunar, heldur sé tilhneiging hans og annarra þeirra sem hugsa með sama hætti í skattamálum sú að herða enn frekar og auka sérskattheimtu sem þessa. Flest bendir því til þess að hæstv. fjmrh. ætli að snúa hæstv. utanrrh. enn einu sinni niður þótt sá umþóttunartími gefist sem iðrandi hæstv. utanrrh. hefur farið fram á í annað sinn.
    Nú væri ástæða til að biðja hæstv. heilbrrh. að gera enn grein fyrir afstöðu sinni í málinu þegar þessar upplýsingar liggja fyrir. Mun hann leggjast á sveif með hæstv. utanrrh. eða mun hann styðja sjónarmið hæstv. fjmrh. í þessu efni og leggja þeim lið sem auka vilja skattheimtuna með því að beita öldruðum fyrir skattheimtuþörf ríkissjóðs til almennrar neyslu?

Telur hæstv. heilbrrh. það vera siðlegt af sinni hálfu sem heilbrrh. að standa að því að láta aldraða draga í ríkissjóð, með greiðslu á almennu skatthlutfalli, 230 millj. kr. og aðrar 230 millj. kr. með álagningu sérstaks skatts og skila svo aðeins 197 millj. kr. í Framkvæmdasjóðinn? Er hæstv. heilbrrh. sáttur við vinnubrögð af þessu tagi?
    Og í öðru lagi: Hver er afstaða hans til þeirra mismunandi sjónarmiða sem fram hafa komið innan hæstv. ríkisstjórnar um þetta efni? Mun hann leggjast á sveif með hæstv. fjmrh. til þess að snúa hæstv. utanrrh. niður enn einu sinni?
    Herra forseti. Það er ekki ástæða til að fara fleiri orðum um þetta viðfangsefni að sinni. Það liggur svo skýrt og glöggt fyrir með hvaða hætti hæstv. ríkisstjórn hefur gengið til verka, hvernig Alþfl. hefur gengið á bak orða sinna í þessu efni, sem mörgum öðrum. Hér liggur fyrir viðurkenning á því að í þessu efni, eins og svo mörgum öðrum, hefur ríkisstjórnin valdið stórslysi í skatta- og efnahagsmálum.