Málefni aldraðra
Miðvikudaginn 25. apríl 1990


     Fjármálaráðherra (Ólafur Ragnar Grímsson):
    Virðulegi forseti. Aðeins örfá orð vegna ræðu hv. 1. þm. Suðurl. Ég get ekki stillt mig um að vekja athygli á því að hv. þm. varð nokkuð tíðrætt um formenn og varaformenn, sérstaklega í mínum flokki. Það vakti athygli mína á því að þótt hv. þm. Friðrik Sophusson hafi borið fram þessar spurningar til mín, þá var honum greinilega ekki treyst fyrir því að fjalla um svör mín, heldur ákvað formaður Sjálfstfl. að taka málin í sínar hendur og ýta þessum fyrrv. varaformanni Sjálfstfl. til hliðar í málinu. Vonandi fær hann nú að tala hérna á eftir. (Gripið fram í.) Hins vegar ber ég mikið traust til hv. þm. Friðriks Sophussonar, enda áttum við ágætis samstarf um að semja ákveðið frv. fyrir skömmu síðan. Þetta er í annað skiptið sem við eigum samstarf hérna í deildinni á síðustu vikum, svo maður fari nú að rifja þetta upp. ( FrS: Við getum haldið áfram.) Já, við getum haldið því áfram, það er rétt, --- þá hefði ég nú kosið að hann hefði fjallað um þetta líka.
    Hv. þm. Þorsteinn Pálsson vildi draga miklar almennar ályktanir af því að ég vakti athygli á þeirri staðreynd, sem ég hef tekið eftir í þeim efniviði sem ég hef fengið um ný viðhorf í skattamálum, að það er nokkuð ljóst að vaxandi áhersla er lögð á umhverfisskatta, eins og ég hef nú stundum vakið athygli á hér í þinginu. Hv. þm. Friðrik Sophusson hefur stundum vikið að því réttilega þegar ég nefndi þetta eco-skatta, eins og þeir eru kallaðir á enskri tungu, að þá er það áberandi að forsvarsmenn í skattamálum og stjórnmálum telja að það sé mun meira í samræmi við vilja almennings að tengja slík gjöld í umhverfismálum við tilteknar aðgerðir til verndar umhverfinu. Ef sá lýðræðislegi vilji er fyrir hendi hlýtur það að vera afstaða okkar sem lýðræðissinna að hann fái að njóta sín í löggjöf í skattamálum frekar en að menn fari að ýta þessum lýðræðislega vilja til hliðar út frá einhverjum ,,kenningaprinsippum`` um það hvernig skattar eigi að líta út. Þessu má ekki
rugla saman við hina eldri umræðu um annars konar eyrnamerkta skatta sem hér, eins og annars staðar á Vesturlöndum, hefur verið á dagskrá um ára bil. Og ég notaði þetta tækifæri til þess að vekja athygli þingsins á því að þessir nýju straumar um eyrnamerkta skatta eru greinilega orðnir fyrirferðarmiklir í umræðunni um framtíðarþróun í skattamálum.
    Alþingi ætti kannski ekki að koma þetta á óvart vegna þess að það er ein eyrnamerking í skattamálum sem virðist vera nánast heilög hér á Alþingi. Þegar gerð var viss tilraun til þess að rjúfa þá eyrnamerkingu á síðasta þingi gagnrýndu þingmenn Sjálfstfl. í miklum fjölda ræðna, gott ef ekki var líka hv. þm. Þorsteinn Pálsson, harkalega að sú eyrnamerking í skattamálum skyldi verða rofin. Þá var ekki verið að taka mið af því að bara ættu að vera almennir skattar sem rynnu í ríkissjóð og síðan yrði peningunum deilt þar út. Þar á ég við bensíngjaldið

og þá meginstefnu að bensíngjaldið renni allt til vegamála og þar sé miðað við 100% eyrnamerkingu í skattamálum.
    Mér finnst ekki vera mikil samkvæmni í því að halda því fram að alls ekki megi gera þetta í málefnum aldraðra þegar um miklu smærri upphæð er að ræða en verði afdráttarlaust og eindregið að halda slíkri eyrnamerkingu og sérsköttun til haga í vegamálum þar sem um margfalt stærri upphæðir er að ræða. Þess vegna finnst mér ekki vera mikil samkvæmni í því að gagnrýna harðlega á síðasta þingi að eyrnamerking skatta í þágu vegamála sé rofin til bráðabirgða að litlu leyti en gagnrýna svo líka hér á þessu þingi að eyrnamerking til málefna aldraðra megi alls ekki eiga sér stað. Mér finnst satt að segja málefni aldraðra ekki vera síður mikilvægur málaflokkur en vegagerð.
    Þessu vildi ég koma á framfæri í tilefni af ræðu hv. þm. Þorsteins Pálssonar. Og af því að hann vék aðeins að sveitarstjórnarkosningunum þá vil ég beina athygli formanns Sjálfstfl. að fæðingarbæ mínum, Ísafirði.