Málefni aldraðra
Miðvikudaginn 25. apríl 1990


     Frsm. 2. minni hl. fjh.- og viðskn. (Friðrik Sophusson):
    Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. forseta fyrir að benda mér á að ég megi tala einu sinni enn, og jafnvel gera stutta athugasemd eftir það samkvæmt þingsköpum þar sem ég er frsm. 2. minni hl. hv. nefndar sem um þetta mál fjallaði.
    Ég vil byrja á því að þakka hv. 1. þm. Suðurl. fyrir að taka þátt í þessari umræðu og koma hér með gagnlegar ábendingar og styrkja þar með þann málstað sem ég hef verið að flytja með fyrirspurn minni og efnislegri umræðu málsins. Ég vil enn fremur, að gefnu tilefni, þakka hæstv. ráðherra fyrir að minna á það að við höfum átt ágætt samstarf að undanförnu í vissum málum. Það er ekki í fyrsta skipti, það er a.m.k. tvisvar í vetur og verður kannski oftar sem okkur tekst að ná samkomulagi um góð mál. Ég skal fúslega hér og nú þakka honum fyrir það að hafa léð máls á því að hreyfa jafnveigamiklum og góðum málum sem þar voru til umfjöllunar. Þau snertu fyrst og fremst tekju- og eignarskattslög, þann þátt sem snýr að hlutabréfum og hlutabréfaviðskiptum. Ég ætla þó ekki að fjalla um það hér heldur fyrst og fremst um þau efnisatriði þess máls sem við erum nú að fjalla um.
    Það kom mjög sterkt fram í ræðu hæstv. ráðherra, og hann undirstrikaði það, að mismunandi viðhorf væru í stjórnarflokkunum um skattlagninguna. Síðan enn á ný, og það hefur hann reyndar gert áður, benti hann á að víða væri vaxandi fylgi fyrir sérstökum sköttum sem rynnu þá til viðkomandi mála. Benti hann t.d á mengunarskatta, skatta af umferðinni til þess að breyta hátterni manna, fá þá til þess að menga minna, og eðlilegt væri að leggja slíka markaða tekjustofna á til viðkomandi verkefna. Þetta eru kallaðir eco-skattar, og ég rifja það upp að það var full ástæða til þess, þegar við ræddum þetta á sínum tíma, að segja þingriturum sem þurfa að rita eftir framburði frá því að eco er með c-i í
þessu tilviki en ekki með g-i sem ýmsir gátu álitið þegar hæstv. ráðherra var að lýsa þessum nýju sköttum. Þetta voru ekki ego-skattar hæstv. ráðherra heldur eco-skattar. En það er nú önnur saga.
    Það sem skiptir þó máli er að átta sig á því að jafnvel þótt ráðherra hafi rétt fyrir sér í þessum efnum, að það sé vaxandi fylgi við slíka skatta til þess að breyta hátterni manna, m.a. með tilliti til mengunar --- þetta hefur stundum af frjálshyggjumönnum verið kallað á erlendu tungumáli ,,pay and pollute`` eða ,,pollute and pay`` eða að menn eigi að greiða fyrir það að menga með sköttum og þannig væri tekið inn í markaðskerfið sjálft atriði sem leiddi til nýrrar breytni. Þetta hefur tekist nokkuð vel í Vestur-Evrópu til að mynda og er kannski meginástæðan fyrir því að hægt hefur verið að hreinsa ár og andrúmsloft í Vestur-Evrópu en ekki í Austur-Evrópu. Þar hefur ekki verið hægt að koma þessu við af því að ríkið átti öll framleiðslutækin. Þegar ég var í Sovétríkjunum fyrir rúmu ári síðan á

ráðstefnu um mengunarmál lýstu forráðamenn sovétskipulagsins einmitt því að tilgangslaust hefði verið að leggja skatta eða skyldur á fyrirtækin vegna þessa að það var sami vasinn sem borgaði. Og mönnum þótti ekki taka því að vera að leggja sektir eða skatta á fyrirtæki sem menguðu því það bitnaði hvort sem er á ríkinu. Þetta hefði leitt til þess að í Sovétríkjunum væri ein mesta mengun í heimi.
    Staðreynd málsins er hins vegar sú að það mál sem við erum að fjalla hér um er ekki tekjustofn með sama hætti og hæstv. ráðherra var að minnast á. Bensíngjaldið er skattur á bifreiðar sem eðlilegt er að renni til vegagerðar. Það er engan veginn sambærilegur skattur við það að leggja nefskatt á alla skattþegna landsins, burt séð frá því hvort þeir koma til með að njóta hans í einhverri mynd. Það er ljóst að þessi nefskattur rennur í Framkvæmdasjóð aldraðra og hann greiða menn hvort sem þeir verða gamlir eða ekki. Þetta er ósköp venjuleg skattheimta á alla en ekki einungis á suma sem eru sérstaklega tengdir viðfangsefninu. Hæstv. ráðherra færði sjálfur að því ágæt rök hvers vegna menn ættu að vera á móti því að leggja sérstakan nefskatt á allan almenning til þess að greiða í Framkvæmdasjóð aldraðra.
    Þessu til viðbótar vil ég minna á að væri hæstv. ráðherra samkvæmur sjálfum sér, samkvæmur þeim viðhorfum sem hann er að predika og segir að Alþb. fylgi, hefði hann að sjálfsögðu átt að lækka staðgreiðsluprósentuna, staðgreiðsluhlutfallið að sama marki. Það er auðvitað afskaplega auðvelt fyrir hæstv. ráðherra að segja: Ég vil hafa sérstakan nefskatt fyrir aldraða --- og næst segir hann: Ég vil hafa sérstakan nefskatt vegna sjúkratrygginga. Ég vil hafa sérstakan nefskatt vegna sóknargjalda. Ég vil hafa sérstakan nefskatt vegna kirkjugarðsgjalda. En síðan, þegar hann er spurður að því hvort ekki sé þá ástæða til að lækka staðgreiðsluhlutfallið sem var ákveðið með tilliti til þess að sameina þessa skatta, þá kemur bara allt annað hljóð í strokkinn. Nei, ríkið á aldrei að skila neinu til baka. Það á bara svona annað veifið að sameina þessa skatta í einn skatt og hækka skattprósentuna. Síðan á að koma með yfirlýsingu þess efnis að þetta sé óeðlilegt, það eigi að hafa beina
nefskatta. En það á aldrei að lækka skattprósentuna á móti. Auðvitað nær svona málflutningur ekki nokkurri átt.
    Það væri vissulega ástæða í þessu sambandi til að rifja upp að á sínum tíma mótuðum við, nokkrir frjálshyggjumenn, þá stefnu að það væri kominn tími til að þeir sjúklingar sem liggja á sjúkrahúsum og væru fullvinnandi, á fullum launum eða nytu fullrar tryggingar, greiddu hluta af kostnaðinum við að liggja á sjúkrahúsinu, t.d. hluta af þeim kostnaði að borða á sjúkrahúsinu. Menn verða að gera það hvort sem þeir eru á sjúrahúsi, heima hjá sér eða einhvers staðar annars staðar. Söngurinn í Þjóðviljanum ómar mér enn fyrir eyrum. Sjúklingaskattar! sjúklingaskattar! Og það voru teiknaðar myndir af okkur vopnuðum sveðjum þar sem við vorum að ráðast á sjúklingana með sköttum. En hvernig horfa nú þessi mál við núv.

hæstv. ríkisstjórn?
    Hér fyrir framan mig sitja tveir hæstv. ráðherrar. Annars vegar er ráðherra heilbrigðismála sem hefur með þetta mál að gera og hins vegar er hæstv. fjmrh. Þessir menn hafa lagt á sjúklingaskatta, nákvæmlega sams konar skatta, með því að láta aldrað fólk sem liggur á stofnunum greiða verulegan hluta af kostnaðinum sjálft. Og það eru ekki almennir sjúklingaskattar sem eru lagðir á mig þegar ég er lagður inn á spítala til að taka úr mér botnlangann eða verið er að rannsaka mig þó að ég sé á launum á Alþingi. Nei. Slíkir skattar eru bara lagðir á gamla fólkið, enda veit hæstv. ríkisstjórn hvar helst er að leita fanga.
    Þetta vildi ég rifja upp þegar menn eru að tala um nefskatta og staðgreiðslu og skattkerfið og mismunandi viðhorf í þeim efnum. Það virðist ekki vera sama hvort Alþb. er í ríkisstjórn eða utan ríkisstjórnar.
    Svo kemur hæstv. ráðherra og segir: Ég man ekki betur en hv. 1. þm. Suðurl. og aðrir sjálfstæðismenn risu upp til handa og fóta út af bensíngjaldinu. Ég vil rifja upp að einmitt í ræðunni þegar hæstv. ráðherra var að mæla bifreiðagjaldinu bót í fyrsta skipti, þá kallaði hann bifreiðagjaldið ekki bifreiðagjald, hann kallaði bifreiðagjaldið mengunarskatt. Síðan var horfið frá því og auðvitað breyttist mengunarskatturinn í kílóskatt á bifreiðar, stórhækkun á bifreiðagjaldinu. Þá hlaut að koma upp sú eðlilega gagnrýni af hálfu þeirra sem hugsa ábyrgt um þessi efni að auðvitað væri ríkisstjórnin að hækka bifreiðagjöldin upp úr öllu valdi til þess að ríkisstjórnin gæti fengið meira fjármagn af umferðinni í ríkissjóð án þess að þeir fjármunir gengju til vegamála. Öllum er ljóst að með þessu ætlaði ríkisstjórnin hvorki að nýta þær heimildir sem hún hafði né heldur að leggja skatt á bensín til þess að þeir skattar gætu runnið til vegamála. Þannig er ekki orð að marka það sem hæstv. ráðherra segir um þessi efni þótt hann reyni að klæða það í þann búning að þetta tilheyri einhverri stefnu sem Alþb. fylgi í þessum efnum. Í raun og veru svarar hann sjálfum sér í sínum eigin ræðum og sýnir fram á það að Alþb. hefur einungis eina stefnu í skattamálum, þ.e. að hækka skatta, hækka sem flesta skatta af því að Alþb. telur að fjármunir Íslendinga séu betur komnir í höndunum á hæstv. fjmrh. og hæstv. ríkisstjórn en í höndum almennings. Þetta er í rauninni það eina sem hægt er að lesa út úr því sem hæstv. ráðherra hefur haldið fram í skattamálum, enda hefur hann stórkostlega hækkað skatta á umliðnum árum.
    Það sem er þó öllu alvarlegast í þessu máli sem við erum að ræða hér í dag er það að hæstv. utanrrh. kemur hér í ræðustól, lýsir því yfir að hann geti fellt sig við nál. 1. minni hl. fjh.- og viðskn. sem segir berum orðum að það eigi að hverfa frá þessari skattheimtu, það séu engin rök til þess að hverfa aftur til nefskattsins frá staðgreiðslunni. Og hann styður það að málinu verði vísað til ríkisstjórnarinnar í trausti þess að á málinu verði tekið og breyting verði gerð á fyrir næsta Alþingi. Nú kemur hæstv. fjmrh. upp og segir: Það eru mismunandi viðhorf í hæstv. ríkisstjórn

til þessa efnis. Alþb. hefur allt aðra skoðun en Alþfl., og gefur þar með sterklega í skyn að það verði ekkert gert með þessi viðhorf sem koma fram hjá 1. minni hl. hv. nefndar sem auðvitað er skýringin á því hvers vegna hv. þm. Ragnar Arnalds neitaði að skrifa upp á nál. með öðrum hv. stjórnarliðum í fjh.- og viðskn. Þetta er staðreynd málsins. Það má út af fyrir sig óska hæstv. fjmrh. til hamingju með það. Hann er æðsti valdhafinn í þessum málum. Hann er sá hæstv. ráðherra í þessari hæstv. ríkisstjórn sem kemur til með að ráða úrslitum um það hver niðurstaða málsins verður og það verður að segjast eins og er að það leggst lítið fyrir kappann, hæstv. utanrrh., þegar hann kemur hér upp, eftir að hafa orðið vitni að þessu stórkostlega slysi sem hann kallaði svo í fyrra, og ætlar síðan að fela þetta mál í hendur hæstv. fjmrh. sem hefur allt aðra skoðun á málinu.
    Ég ætla nú ekki að rekja slysasögu hæstv. utanrrh., en vissulega væri ástæða til að rifja það upp að hæstv. utanrrh. hefur áður átt aðild, sem alþýðuflokksmaður, að ríkisstjórn með Alþb. Það var fyrir nokkrum árum. Það var 1978--1979. Í frægu blaðaviðtali við hæstv. utanrrh., þegar rifjuð voru upp þessi ár þegar þeir áttu samstarf en þá var hæstv. fjmrh. formaður þingflokks Alþb. ... ( Fjmrh.: Nei.) Jæja, hann var kannski ekki orðinn það en
hann sat hér á þingi annað veifið a.m.k. ... ( Fjmrh.: Það var félagi Lúðvík.) Já, ásamt félaga Lúðvík sem þá var formaður Alþb. og formaður þingflokks Alþb. Hann var formaður --- var ekki hæstv. ráðherra þá formaður þingflokksins? ( Fjmrh.: Nei.) Var það félagi Lúðvík enn þá? ( Fjmrh.: Það var félagi Lúðvík, já, já.) Maður ruglast nú í öllum þessum stalínum hjá þeim alþýðubandalagsmönnum, en það mun hafa verið félagi Lúðvík, og skiptir ekki máli, það breytir ekki því. ( Fjmrh.: Félagi ræðumanns í bankaráði Landsbankans.) Félagi bankaráðsmaður Lúðvík, svo að ég hafi þetta nú alveg orðrétt eftir hæstv. ráðherra. Það var sem sagt félagi bankaráðsmaður Lúðvík sem var formaður þingflokks Alþb. en dyggur þjónn hans var félagi Ólafur Ragnar Grímsson, hæstv. fjmrh., og hann studdi þá stjórn mjög eindregið og fékk þær köldu
kveðjur frá hæstv. utanrrh. --- sem þá var að vísu í lausamennsku hjá Alþfl., var þá ekki kominn til mannaforráða sem síðar varð, en þá lýsti hæstv. fjmrh. þessari hæstv. ríkisstjórn sem pólitísku umferðarslysi og má nú segja að það sé full ástæða til þess að hringja í Slysavarnafélagið fyrir hæstv. utanrrh. til þess að koma í veg fyrir það að hann lendi í fleiri slysum því að svo virðist vera að þetta sé ein samfelld slysasaga, pólitísk umferðarslysasaga sem hæstv. utanrrh. hefur lent í í samstarfi við Alþb. Hún er sífellt að endurtaka sig, núna síðast með því að hæstv. fjmrh. lýsir yfir allt annarri skoðun en hæstv. utanrrh. hefur á þessu máli og veit hæstv. fjmrh. þó að hæstv. utanrrh. hefur lagt allt undir í þessu máli því að hann hefur sagt og sagði það, þegar hann stóð yfir gröf ríkisstjórnar Þorsteins Pálssonar, að hann hefði nánast einn saman komið á staðgreiðslukerfi

skatta, einfaldað skattkerfið og --- ég ætla ekki að rekja þá sögu öllu lengur. (Gripið fram í.) Og bæta skattalögin. Það má reyndar ekki prenta þetta því að hv. þm. sem kallaði fram í er í Ed.
    Ég tel ástæðu til þess, virðulegur forseti, að rifja þessi atriði upp vegna þess að enn á ný stendur hæstv. fjmrh. fyrir því að hæstv. utanrrh. sé að lenda í pólitísku slysi og lengi má manninn reyna. Ég tel þess vegna, virðulegur forseti, að það sé einsýnt að þeir aðilar sem vilja á annað borð breyta þessu gjaldi til fyrra horfs, eins og gert er ráð fyrir í frv. sem hér liggur fyrir til umræðu, verði að sameinast í því að samþykkja þetta frv. og koma í veg fyrir að hæstv. fjmrh. taki málið í sínar hendur og afgreiði það með nákvæmlega sama hætti og hann hefur gert hingað til. Skora ég því á alla þá hv. alþýðuflokksmenn sem hér eru í salnum, en þeir eru ekki margir, að átta sig á því hvorum megin hryggjar þeir ættu að liggja í þeirri atkvæðagreiðslu sem fram mun fara um þetta mál að umræðunni lokinni.