Málefni aldraðra
Miðvikudaginn 25. apríl 1990


     Heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra (Guðmundur Bjarnason):
    Herra forseti. Þetta er nú ekki í fyrsta skipti sem hér hafa orðið ítarlegar umræður um markaða skattstofna eða eyrnamerkta skatta og auðvitað, eins og fyrr, sýnist sitt hverjum um það mál. Það geta sjálfsagt verið ýmsar góðar og gildar ástæður fyrir því að marka skattstofna til ákveðinna verkefna. Hér hafa verið nefndar ástæður eins og t.d. varðandi umhverfismál, varðandi samgöngumál sem þingmenn allir þekkja mjög vel og hér í þessu tilfelli er verið að ræða um nefskatt sem markaður er ákveðnu viðfangsefni sem allir voru á sínum tíma sammála um þegar nefskatturinn var fyrst tekinn upp --- ég má kannski ekki segja að allir hafi verið sammála því að ég man reyndar ekki í augnablikinu hvernig meiri eða minni hluti kann að hafa verið í því máli á þeim tíma, en þá var tekinn upp nefskattur til þess að glíma við mörg brýn viðfangsefni við uppbyggingu á húsnæði og aðstöðu fyrir aldraða. Og enn er það auðvitað svo að það er mjög brýnt að hrinda þar áfram stórum verkefnum sem bæði eru í gangi og eru fram undan og þess vegna varð samkomulag og samstaða um það í ríkisstjórninni að þessi nefskattur skyldi upp tekinn á ný til þess að glíma við þessi mál.
    Ég hef sjálfsagt sagt það einhvern tíma áður hér úr þessum ræðustól að ég hafi ekki mikla trú á þessum mörkuðu skattstofnum almennt vegna þess að Alþingi eða löggjafinn hefur aftur og aftur freistast til þess að skera niður þessa skattstofna og skila þeim ekki að fullu til þeirra verkefna eða viðfangsefna sem þeir hafa átt að renna til og svo á auðvitað enn við í dag um þennan tiltekna skattstofn sem við erum að ræða hér. Ég get svarað hv. 1. þm. Suðurl. því að ég er auðvitað ekki ánægður með að ekki skuli vera full skil á þessum skatti, af því að hann spurði hvort ég væri ánægður með það. Það er auðvitað ódýrt og einfalt að segja svona en þetta er ekki í fyrsta skipti sem menn verða að sætta sig við slíka meðferð á mörkuðum sköttum og sjálfsagt ekki heldur í síðasta skipti sem slíkt kemur upp þegar það á við eins og í þessu tilfelli.
    Hvað varðar framhald málsins get ég út af fyrir sig mjög vel tekið undir þann tón sem er í nál. 1. minni hl. fjh.- og viðskn., að þetta mál verði tekið til ítarlegrar endurskoðunar og athugunar fyrir næsta fjárlagaár og menn fari yfir það þá hvort þessum skatti beri að viðhalda eins og hann er á lagður í ár og ef svo yrði fyndist mér nauðsynlegt og brýnt að honum yrði þá líka skilað, að menn stæðu við það að skila honum til verkefnisins. Ef það er ekki gert dregur það mjög úr áherslu og áhuga manna á að viðhalda slíkum sérskatti og virðingu manna fyrir slíkri skattlagningu. Ég ítreka það hins vegar sem ég nefndi í upphafi að það eru mörg afar stór verkefni í gangi og mörg brýn verkefni fram undan, kostnaðarsöm, á þessu sviði og þess vegna hafa menn fallist á þau rök að leggja á sérstakan skatt í því

augnamiði að flýta fyrir framkvæmdum og styrkja þau verkefni sem þar eru í gangi og vissulega veitir ekki af tekjuöflun til þessa málaflokks.
    Aðeins út af því sem fram kom hjá hv. 1. þm. Reykv. um það sem hann kallaði sjúklingaskatta. Ég mótmæli alfarið þeim málflutningi hans í því sambandi að aldraðir greiði fyrir dvöl á stofnunum þegar þeir hafa lagst þar inn til langdvalar, stofnunum sem þar með eru orðin heimili þeirra, hvort heldur það eru dvalarheimili eða hjúkrunarheimili, að það séu kallaðir sjúklingaskattar. Ef eitthvað heitir sjúklingaskattar sem einstaklingar þurfa að borga í dag sérstaklega, þá eru það auðvitað þær greiðslur sem menn inna af hendi fyrir læknishjálp og fyrir þátttöku í lyfjum, en þegar menn hafa sest að á dvalarheimili og það er orðið heimili þessa einstaklings er ekki óeðlilegt að menn greiði fyrir þá dvöl og það er gert og hefur verið gert lengi, það er ekkert nýtt. Flytjist menn nú til innan slíkrar stofnunar í mörgum tilfellum, þegar hjúkrunarþyngd vex, er ekki óeðlilegt að menn haldi áfram að taka þátt í þeim kostnaði. Ef aldraðir hins vegar leggjast inn á sjúkrahús til skammtíma dvalar þar og lækningar, þá greiða þeir auðvitað ekki fyrir þá dvöl frekar en ég eða hv. 1. þm. Reykv. Þannig er nú það mál vaxið og þær greiðslur eiga þess
vegna ekkert skylt við það sem hann var hér að rifja upp og kallaði sjúklingaskatt.