Málefni aldraðra
Miðvikudaginn 25. apríl 1990


     Þorsteinn Pálsson:
    Herra forseti. Svör hæstv. heilbrrh. valda nokkrum vonbrigðum. Ég efaðist ekki um góðan hug hans og skilning og vilja í þessu efni, en það er ekki nóg að lýsa jákvæðu viðhorfi. Það eru gjörðirnar sem máli skipta og það skorti allar afgerandi yfirlýsingar af hálfu hæstv. ráðherra um það hvað hann í raun og veru vildi gera. Hér er flutt mikið af ræðum sem lýsa góðum hug og góðum vilja, en það sem upp úr stendur er það sem menn gera og það sem menn lýsa með afdráttarlausum hætti yfir að þeir ætli sér að gera. Og því miður gefur ræða hæstv. heilbrrh. ekki tilefni til að ætla að hér á verði gerð breyting þó að þessu máli verði komið fyrir kattarnef með þeim hætti að vísa því til ríkisstjórnarinnar og augljóst að önnur tilraun hæstv. utanrrh. til þess að bæta úr því mikla slysi sem hann hefur lýst að hæstv. ríkisstjórn hafi valdið er farin út um þúfur. Kannski á hann það fyrst og fremst við sjálfan sig og samstarfsmenn sína og að lokum við kjósendur hvernig að því máli er staðið.
    Það vakti hins vegar athygli við ræðu hæstv. fjmrh. hvernig hann fjallaði um þetta efni. Nú er hann að vísu þekktur fyrir að fara mjög frjálslega með staðreyndir mála, gæta lítið að því sem er satt og rétt eða hafa að litlu og skeyta í engu um það hvort hann er samkvæmur sjálfum sér frá einum degi til annars. En þó að á þann veg sé háttað málflutningi hæstv. fjmrh. hefur hann aldrei verið ásakaður um það að vera ekki glöggskyggn og skarpur og kunna ekki skil á grundvallaratriðum þeirra viðfangsefna sem hann hefur verið að fjalla um þó að á hafi skort að hann kunni að gera skil á réttu og röngu og hann noti blekkingar í ríkari mæli en nokkur annar stjórnmálamaður síðan Jónas frá Hriflu leið.
    Hæstv. fjmrh. virtist ekki kunna að greina á milli markaðra tekjustofna og óbeinna neysluskatta. Hann kunni ekki að greina á milli nefskatts og markaðra tekjustofna og ekki á milli nefskatta og óbeinna neysluskatta og er nema von
að ýmislegt gangi úrskeiðis í fjármálasýslu ríkisins þegar þennan grundvallarskilning skortir.
    Það hagar á þann veg til að við höfum tvöfaldan markaðan tekjustofn fyrir Framkvæmdasjóð aldraðra. Við höfum markaðan tekjustofn í staðgreiðslu skatta sem á að skila um 230 millj. kr. og við höfum markaðan tekjustofn með sérstökum nefskatti, því slysi sem hæstv. utanrrh. hefur lýst að þessi ríkisstjórn hafi lagt á, um tvöfaldan markaðan tekjustofn. En hæstv. ríkisstjórn hefur kosið að nota annan stofninn til almennrar ríkissjóðseyðslu, hefur kosið að nýta sér það að það er almennur skilningur á þessu viðfangsefni til þess að beita öldruðum fyrir skattheimtuvagninn, fyrir ríkissjóð. Gagnrýni okkar sjálfstæðismanna á aðgerðir ríkisstjórnarinnar gagnvart tekjuöflun fyrir Vegasjóð er alveg af sama toga og gagnrýni okkar á þetta slys sem hér er verið að fjalla um, en það sem hæstv. fjmrh. gerir sér hins vegar ekki grein fyrir er að hér er um gerólíka skatta að ræða. Hér er annars vegar um markaðan tekjustofn af

staðgreiðslu skatta og markaðan tekjustofn af nefskatti að ræða og hins vegar óbeinan neysluskatt sem lagður er á þá sem aka um vegi landsins og nota eldsneytið. Hér er því um gjörólíka skatta að ræða sem hæstv. ráðherra gerir sér ekki grein fyrir. Gagnrýni okkar er hins vegar sú í báðum tilvikum og af sama toga runnin að þegar skattur hefur verið lagður á með þessum hætti á hann auðvitað að renna til þess viðfangsefnis sem hann er lagður á til að þjóna. Og gagnrýni okkar sjálfstæðismanna var á þá forgangsröðun verkefna sem hæstv. ríkisstjórn hefur beitt sér fyrir. Þegar við gagnrýndum það hvernig hæstv. ríkisstjórn tók fé úr Vegasjóði inn í ríkissjóð fólst í þeirri gagnrýni tvennt: Annars vegar hvernig staðið var að því skattalega á óeðlilegan hátt og hins vegar að með þeim ákvörðunum var ríkisstjórnin að raða verkefnum í forgangsröð og í samræmi við yfirlýsingu hæstv. forsrh., formanns Framsfl., á frægum fundi á Hótel Sögu í ársbyrjun 1988 var stórlega dregið úr framkvæmdum til vegamála, en það gerði formaður Framsfl. þá að einu helsta hugsjónamáli framsóknarmanna sem þeir hafa með dyggilegri aðstoð hæstv. fjmrh. komið mjög tryggilega í framkvæmd. Við sjálfstæðismenn erum hins vegar þeirrar skoðunar að brýnt sé og mikilvægt að bæta samgöngur í landinu og skipa málum á þann veg í forgangsröð að þau verkefni sitji fyrir ýmsum öðrum sem hæstv. ríkisstjórn hefur sett framar á verkefnalista samkvæmt hugsjónaboðskap formanns Framsfl. Auðvitað skil ég framsóknarmenn, að þeir skuli fylgja dyggilega fram sinni stefnu og skera niður framkvæmdir í samgöngumálum. Þegar þeir hafa tekið slíka ákvörðun undir merkjum síns foringja fylgja þeir því eðlilega eftir. Við sjálfstæðismenn erum einfaldlega andvígir þessu, teljum að þetta stuðli að því að raska byggð í landinu og veikja landsbyggðina til mikilla muna. Þetta var annar þátturinn í gagnrýni okkar á þær ráðstafanir sem hæstv. fjmrh. taldi ástæðu til að taka tíma í að fjalla um í þessari umræðu. Þetta vildi ég, herra forseti, fyrst og fremst skýra hér út að gefnu tilefni eftir ræðu hæstv. fjmrh.
    Ég sé svo ekki ástæðu til að fara fleiri orðum um þetta sögulega slys sem hæstv. ríkisstjórn hefur valdið, er því miður ekki eina slysið, heldur eitt í
röð margra, og því miður fyrir íslenska þjóð bendir flest til þess að ríkisstjórnin sé staðráðin í að halda þessari slysagöngu áfram.