Málefni aldraðra
Miðvikudaginn 25. apríl 1990


     Alexander Stefánsson:
    Hæstv. forseti. Það hefur verið dálítið fróðlegt að sitja hér lungann úr þessum degi og núna í kvöld til að hlusta á þessar umræður um málefni aldraðra sem í mínum huga er að vísu eitt af þýðingarmestu málum sem við fjöllum um í velferðarkerfi okkar. Raunverulega hefur ekki verið fjallað um málið á þann hátt að sérstaklega væri verið að bera fyrir brjósti aðbúnað aldraðra heldur eingöngu um hvernig staðið er að skattlagningu til þess sjóðs sem var stofnaður til að ná meiri árangri í byggingu húsnæðis og aðstöðu fyrir aldraða en áður hafði tekist og tilraun til þess að ná því fram. Ég held að það sé alveg vonlaust fyrir forustumenn Sjálfstfl. að vera að gera síendurteknar tilraunir til að hefja foringja kratanna til skýjanna. Það skiptir í raun og veru engu máli í þessu. Það er ekkert að marka það sem þeir segja. ( ÞP: Ég var ekkert að hefja þá til skýjanna.) Og ég held að það sé þess vegna alveg unnið fyrir gýg, enda geta þeir ekki einu sinni setið undir því lofi hér í þingsal, að þeir séu minntir á að þeir hafi haft forustu um nokkurn skapaðan hlut. Það er ekki þess virði og skiptir í raun og veru engu máli í sambandi við framgang þessa máls.
    Það sem ég vildi segja varðandi þetta frv. og þá afgreiðslu sem það fær eða tillögu til afgreiðslu sem það fær frá hv. fjh.- og viðskn. er að ég skil það þannig, og hef hugsað mér að greiða atkvæði með áliti 1. minni hl. fjh.- og viðskn., að það sé verið að undirstrika að þetta form í staðgreiðslukerfinu, að hafa nefskatt í sambandi við framlag til Framkvæmdasjóðs aldraðra, gengur ekki upp. Það er búið að sýna sig að því fjármagni sem þannig næst er ekki skilað og þar af leiðandi er þetta ekki form sem við getum búið við til framtíðar. Þess vegna skil ég tillögu 1. minni hl. þannig að þeir ætlist til þess að ríkisstjórnin noti tímann til næstu fjárlaga til að finna aðra leið til að tryggja aukið fjármagn til framkvæmda við byggingu heimila og þjónustu við
aldraða. Ég vil a.m.k. meina það að sá sé tilgangurinn. Og ég efast ekkert um að fulltrúar Framsfl. í þessum 1. minni hl. ætlast til þess. Það er einmitt í samræmi við það sem hefur verið rætt á okkar þingum og í raun og veru í þingflokknum, að það verði unnið að því að breyta þessu formi. Og ég á bágt með að trúa því að einn stjórnarflokkanna geti staðið gegn þeirri þróun. Mér finnst þetta eðlilegt. Það er búið að reyna þetta, þetta form var notað til þess að flýta framkvæmdum á sínum tíma, en það hefur komið í ljós á síðasta og þessu fjárlagaári að þetta fjármagn skilar sér ekki miðað við skattheimtuna til verkefnisins og þess vegna þarf að brjóta þetta upp og finna aðrar leiðir, í fyrsta lagi sem samrýmast staðgreiðslukerfinu og í öðru lagi styrkja þetta verkefni bæði til uppbyggingar og rekstrar. Þess vegna vænti ég þess að hæstv. ráðherrar, þó þeir séu farnir úr salnum, skilji hvað við er átt með áliti 1. minni hl., og þess vegna mun ég styðja það álit.