Húsnæðisstofnun ríkisins
Miðvikudaginn 25. apríl 1990


     Alexander Stefánsson:
    Herra forseti. Það var ekki meining mín að taka til máls um þetta mál í kvöld en eftir að hafa hlustað á svona uppbyggilegar ræður sem hér hafa verið haldnar um málið til viðbótar því sem áður hefur komið fram þótti mér rétt að segja hér örfá orð. Ég verð náttúrlega að lýsa því hér yfir í upphafi að ég harma það mjög, ég gerði það raunar strax í haust þegar þetta mál var til umræðu í mínum þingflokki, að ekki skuli vera hægt að losna við þá áráttu sem hér hefur gengið yfir á síðustu árum, að aldrei skuli vera hægt að búa við það húsnæðiskerfi sem er í gildi án þess að sífellt, á hverju einasta þingi og oft á hverju þingi, sé verið að rusla til þessu húsnæðiskerfi og engin raunveruleg heildarsýn sé höfð fyrir stafni.
    Ég verð að rifja það upp hér við umræðu um þetta mál, og það ætti náttúrlega ekki að vera undrunarefni, því það var yfirlýst þegar hæstv. núv. félmrh. tók við, bæði af hæstv. ráðherra og Alþfl. í heild, að takmarkið væri eitt og það væri að eyðileggja það kerfi sem var lögfest 1986 með samningum við aðila vinnumarkaðarins og samþykkt svo til einróma hér á hv. Alþingi. Það hefur ekki verið hægt að fá tíma til að láta þá heildarlöggjöf, sem sett var 1986, njóta sín heldur hefur hún verið brotin upp í smáu og stóru samkvæmt þeim tilgangi sem tilkynntur var af núv. hæstv. ráðherra.
    Þegar við tölum um það frv. sem hér liggur fyrir sem á að vera breyting á hinu félagslega kerfi í heild, þá er náttúrlega eitt sem blasir við og það er að með þessu frv. er verið að rústa, eins og sumir hv. þm. segja gjarnan, það er verið að eyðileggja það félagslega kerfi sem hefur reynst þjóðinni vel. Komið hefur fram í umræðum að frumkvöðlar þess sáu lengra fram á veginn en þeir sem fjalla um þessi mál í dag virðast geta áttað sig á. Verkamannabústaðakerfið hefur reynst þjóðinni vel og það er óhætt að segja að
það hafi lyft grettistökum í byggingu húsnæðis fyrir láglaunafólk á Íslandi. Og það sem meira er, að þetta sama láglaunafólk í stéttarfélögunum, verkafólkið í landinu, hefur eignast húsnæði í gegnum þetta kerfi á undanförnum árum. Það sýna staðreyndirnar og það er hægt að rekja það á fullkominn hátt. Það sem hefur reynst þessu fólki einnig vel, þegar því hefur vaxið fiskur um hrygg og það hefur haft betri efnahag, er að það hefur átt eignir sem stuðla að því að það gæti eignast eigið húsnæði á öðrum vettvangi. Þetta eru kostir þessa kerfis sem við höfum búið við. En hér á vissulega að breyta og útþynna félagslega kerfið þannig að eiginlega er ekki hægt að átta sig á því hvert við erum að stefna.
    Ég vil þess vegna endurtaka það að ég tel að það sé mjög óheppilegt fyrir húsnæðiskerfið í heild að sífellt er verið að taka fyrir einstaka þætti í því í stað þess að gefa sér lengri tíma til að skoða húsnæðismálin í heild. Það væri eðlilegt að meta vandlega stöðu húsnæðismálanna og húsnæðisþörfina, bæði eftir búsetuháttum í landinu og þeirri þróun sem við blasir. Sú raunhæfa könnun liggur ekki fyrir.

Gerðar hafa verið ýmsar athuganir á vegum Félagsvísindastofnunar Háskólans um þörfina í húsnæðismálum o.s.frv. en engin niðurstaða hefur verið dregin á faglegan hátt. Og það sem Húsnæðisstofnun gerði fyrir mörgum árum, að meta til lengri tíma húsnæðisþörf landsmanna í samvinnu við Þjóðhagsstofnun, það liggur ekki fyrir nú. Hvað þá heldur að menn átti sig á því að það er kominn tími til að kanna það til framtíðar hvort ekki væri eðlilegt að færa húsnæðismálin að hluta til inn í bankakerfi landsins. Ég held að það sé margt sem grípur inn í þetta sem væri frekari þörf á að ræða efnislega en það sem hér liggur fyrir í þessu frv., t.d. hvort ekki er fyrir löngu kominn tími til að átta sig á því hvernig við getum með samstilltu átaki byggt ódýrt húsnæði á Íslandi. Um það eru engin gögn á þessu sviði.
    Herra forseti. Ég ætla ekki að tala langt mál um þetta hér og nú en ég kemst ekki hjá því að segja það alveg eins og er að þetta frv. er hroðvirknislega unnið. Ég átti von á því, miðað við þá nefndarvinnu sem var sett í gang um þessi mál, unnin af fjölskipaðri nefnd, að við fengjum meira að skyggnast inn í framtíðina í þessum málum. Það hefði verið miklu eðlilegra að sú nefnd hefði skilað frv. um framtíðarskipan húsnæðismála miðað við þá reynslu sem við búum við í dag og miðað við þá æskilegu þróun sem okkar þjóð þarf á að halda í þessum málum, byggða á rannsókn. Ég hef að vísu séð hugmyndir sem komu fram í þessu áliti en út úr því var aðeins tekið það sem getur að mínu mati eyðilagt það kerfi sem við búum við án þess að það sé sett í samband við þá framtíðarsýn sem skynsamlegt væri að hafa í þessum málum.
    Ég er ekki að segja með þessu að ekki séu ýmsir gallar á verkamannabústaðakerfinu. Auðvitað er það ljóst, ekki síst eftir þær áherslubreytingar sem hafa verið gerðar á síðustu tveimur árum, að við sjáum fólk, kannski fjögurra til fimm manna fjölskyldur, sem eru að glíma við það í dag að taka við íbúðum sem kosta upp í 12--14 millj. með 90% láni. Hvernig á þetta fólk að standa undir því ef það á að heita að farið sé eftir settum reglum um úthlutun? Ég er hræddur um að það sé ekki hægt. Og því miður verður
að viðurkenna það að í sumum tilfellum eru nýjar íbúðir á ýmsum stöðum misnotaðar t.d. sem verbúðir fyrir fólk, eftirlitið vantar.
    En það sem ég vil láta koma fram er að ég álít það mjög varhugavert í þessu frv., og ég tek undir þá gagnrýni sem hefur komið fram, að nú er gerð sú breyting að leggja stjórnir verkamannabústaða niður. Í staðinn koma húsnæðisnefndir sveitarfélaga. Sveitarfélögin eiga um leið að bera miklu meiri ábyrgð á þessum málum en áður hefur verið, þar sem hér er um aukin verkefni að ræða, án þess að þau fái raunverulega að tryggja meiri hluta í þá stjórn sem á að sjá um þessi mál. Ég tek undir þá gagnrýni og vil ganga lengra. Fyrst verið er að gera þessa breytingu á annað borð og auka það hlutverk sem húsnæðisnefndir sveitarfélaganna eiga að hafa og

ábyrgð sveitarfélaganna á þessu máli, bæði fjárhagslega og framkvæmdarlega, þá teldi ég eðlilegast að húsnæðisnefndir sveitarfélaganna væru algerlega kosnar af sveitarstjórnunum sjálfum. Það væru engir utanaðkomandi aðilar sem kæmu þar að. Það væri miklu meira samræmi í því heldur en það sem lagt er til í frv.
    Það er handahófskennt eins og annað sem er í þessu frv. að t.d. ef maður rekur aftur á bak þær umræður sem hér urðu um kaupleiguíbúðirnar og allt sem þeim fylgdi, þá voru aðalrökin þau að nauðsynlegt væri að hafa kaupleiguíbúðir í báðum húsnæðissjóðunum, kaupleiguíbúðir undir verkamannabústaðakerfinu sem hefðu svipað form og verkamannabústaðir og svo kaupleiguíbúðir undir almenna kerfinu sem áttu að vera fyrir efnafólk. Ég sé í þessu frv. að gert er ráð fyrir því að breyta þessu, færa kaupleigukerfið frá almenna kerfinu, sem átti að vera án tekjuviðmiðunar, undir verkamannabústaðakerfið. Auðvitað er þetta spor aftur á bak og sýnir enn eina tilraunina til að eyðileggja það félagslega kerfi sem hefur reynst þjóðinni best á undanförnum áratugum, þ.e. verkamannabústaðakerfið. Ég tel að þetta sé spor aftur á bak og hefði verið ástæða til að skoða það miklu betur.
    Ég þarf ekki að endurtaka það hér að auðvitað á svo viðamikið frv. sem hefur með að gera opinbert fjármagn á bilinu 10--15 milljarðar á hverju ári næstu árin að byggjast á ítarlegri úttekt, bæði að því er varðar þörfina og hvernig á að standa að þeirri fjármögnun. Það er ekki gert enn, þrátt fyrir margítrekaðar áskoranir sem hafa komið fram á síðustu árum um að þetta yrði gert. Og það verður að segja það eins og er að það er ákaflega óeðlilega að þessu máli staðið.
    Ég geri ráð fyrir því að tími veitist til að skoða þetta mál í rólegheitum í nefnd og ekki verði tekin upp þau vinnubrögð sem voru hér fyrir hálfu öðru ári síðan, að koma með hótanir um afgreiðslu þessa máls þannig að ekki mátti skoða það á eðlilegan máta. Ég geri ráð fyrir vinnufriði í félmn. til þess að skoða ýmsa þætti frv., þrátt fyrir að það er búið að ganga í gegnum Ed. Sumt af því sem Ed. lagfærði er að mínu mati til bóta en það breytir ekki eðli og kjarna málsins í sambandi við þetta frv., að það er liður í því að gera breytingar breytinganna vegna, bara til þess að geta sagt að það kerfi sem fyrir er og vinnumarkaðsaðilar og Alþingi samþykktu sameiginlega væri ómögulegt kerfi.
    Ég tek undir það sem hér hefur verið sagt að ég álít að það hefði verið skynsamlegast að láta þetta mál bíða og taka upp alhliða skoðun á nútíðar- og framtíðarstöðu þessara mála því það er löngu, löngu kominn tími til, miðað við breyttar aðstæður í fjármálum og meðferð peningamála í okkar landi að skoða það í alvöru hvort ekki væri eðlilegt að taka hluta af húsnæðiskerfinu og færa undir bankakerfið. Það tel ég vera eðlilega þróun. Þess vegna mundi ég styðja það að þetta frv. yrði látið bíða og færi í allsherjarendurskoðun með þetta fyrir augum, ásamt

því að gera sér grein fyrir hvert við stefnum í húsnæðismálum. Hver er þörfin, hver er hin raunverulega þörf? Hvergi nokkurs staðar hefur fengist svar við því. Ég tel að þær losaralegu athuganir sem gerðar hafa verið með skoðanakönnunum sanni ekkert um þetta mál, ekki neitt. Það þarf miklu meiri könnun á þessu atriði en þær kannanir sýndu.
    Og ég vil bæta því við að ég sem stjórnarþingmaður gerði grein fyrir því í mínum þingflokki, sem ég geri ráð fyrir að ríkisstjórnin hafi fengið á sitt borð, að ég hef algerlega frjálsar hendur í meðferð þessa máls. Og ég endurtek, ég harma mjög hvernig að þessum málum er staðið.