Húsnæðisstofnun ríkisins
Miðvikudaginn 25. apríl 1990


     Hreggviður Jónsson:
    Hæstv. forseti. Þær umræður sem hafa orðið um það frv. sem hér liggur fyrir, frv. til laga um breytingu á lögum um Húsnæðisstofnun ríkisins, eru mjög fróðlegar og íhugunarverðar. Það hefur komið réttilega fram hjá þeim ræðumönnum sem hér hafa tekið til máls að þetta frv. eykur enn á glundroðann í húsnæðismálum, mismunar fólki enn þá meira en nokkru sinni fyrr og vegur að rótum sjálfseignarstefnunnar í húsnæðismálum.
    Hæstv. félmrh. hefur upplýst hér á þinginu að það eru langar biðraðir fyrir þá sem hafa sótt um húsnæðislán í hinu almenna kerfi. Sú biðröð verður æ lengri vegna þess að hæstv. ráðherra mismunar fólki æ meira með flókinni, erfiðri og vitlausri lagasetningu sem stuðlar að því að verið er að flokka fólk og draga í dilka eftir alla vega dyntum sem hæstv. félmrh. hefur ákveðið. Ég vil sérstaklega taka hér fram og taka undir það sem hv. 1. þm. Vesturl. hefur sagt um þetta mál, og fagna því að hv. 1. þm. Vesturl., sem þekkir nú Húsnæðisstofnun allmjög, hefur boðað að þetta frv. þurfi ítarlega könnun í nefnd. Ég treysti því að það komi ekki úr nefnd án þess að kannað verði ítarlega hvað er í raun að gerast með þessari lagasetningu.
    Í frv. eru ákvæði sem benda til þess að hér sé aðeins verið að auka báknið, það er verið að auka embættismannakerfið, það er verið að búa til óþarfa kerfi því hjá þjóð sem er aðeins 250 þús. manns er verið að búa til kerfi sem á vart sinn líka nema hjá einhverjum milljónaþjóðum. Hér er verið að reyna að lögfesta kerfi sem þjóð eins og Íslendingar á ekki nokkurn möguleika á að reka. Hér er verið að lögfesta að það verði enn þá óbyggilegra á landinu en þyrfti að vera. Það er verið að mismuna fólki með lánum. Það er verið að mismuna fólki mjög, mjög harðlega. Og ég vil benda á að miðað við þá lánaflokka sem hér eru áætlaðir og miðað við þær skattareglur sem núna gilda, t.d. um eignarskatta, þá er verið að mismuna fólki alveg gífurlega. Það er verið að vega að rótum þeirrar sjálfseignarstefnu sem nú er í landinu og ég er
hræddur um að ekki verði langt í það að fólk muni flýja land unnvörpum því þessi stefna byggir á því að reyna að halda niðri launum og síðan að mismuna fólki eins mikið og möguleiki er á á allra handa hátt. Reglurnar eru teygðar til þannig að fólki, sem áður fyrr hafði það að grundvallarmarkmiði að reyna að eignast sitt eigin húsnæði með því að vinna í því og eignast það skuldlaust, er nú refsað og stórkostlegir fjármunir eru færðir til ríkisins frá þessu fólki. Það er svo komið að fjöldi fólks á í stórfelldum erfiðleikum við að greiða skatta og skyldur af eigin húsnæði. Jafnframt er svo komið að hæstv. félmrh. hefur mismunað fólki enn þá meira með vaxtabótum og fellt niður húsnæðisbætur sem fólk, sem hafði keypt eða hafið byggingar, hafði gert ráð fyrir að fá. Það fólk er nú í stórfelldum vandræðum og mun verða það enn frekar í haust þegar álagningarseðlarnir birtast. Þetta

fólk hefur gert sér grein fyrir því að nú á að mismuna því enn frekar.
    Það frv. sem hér liggur fyrir er náttúrlega með þeim hætti að það verður að telja vafasamt að þingið afgreiði þennan pakka án þess að gerð verði mjög ítarleg úttekt á hvað er að gerast í húsnæðismálum. Hvað er raunverulega að gerast og hver er þörfin?
    Ég held að þetta frv. sé alls ekki til bóta vegna þess að það mismunar enn frekar fólki í landinu og ýtir undir það að enginn geti átt sínar eigin eignir. Öllu er stefnt í það að valdaaðilar, ríkisstjórn, sveitarstjórnir deili og drottni með fólkið. Það er alveg ótvírætt að sú mismunun sem felst í þessu frv. er með þeim hætti að ekki verður við unað. Það verður uppreisn í landinu með sama áframhaldi, það verður uppreisn í landinu. Sú stórfellda eignaupptaka sem hæstv. ríkisstjórn hefur staðið fyrir síðan hún komst til valda er með þeim hætti að fjármunir hafa verið teknir af heiðarlegu fólki í stórfelldum mæli með eignarsköttum og alls kyns mismunun í því húsnæðiskerfi sem nú er verið að handjárna þjóðina með.
    Auðvitað þurfa að vera til félagslegar íbúðir. Það hefur enginn á móti þeim sem slíkum. En þegar gengið er á hlut þeirra sem eru að reyna að eignast þak yfir höfuðið, hafa unnið fyir því hörðum höndum og allt kapp lagt á það að þeir verði undir í baráttunni og lendi í verulegum erfiðleikum og verði hreinlega að ganga inn í félagslega kerfið, þá er stefnan röng. Þetta er náttúrlega eins og vindmylla sem þeytir fólki hingað og þangað frá einu ári til annars. Síðan hæstv. félmrh. komst til valda hefur verið flutt hver silkihúfubreytingin á fætur annarri og þær hafa ekki verið til bóta, margar hverjar. Það er verið að gera flókið kerfi og það er verið að auka gífurlega það kerfi og það bákn sem í kringum þetta er og verið að gera flókið það þjóðfélag sem áður var einfalt, tiltölulega einfalt og gott að lifa í eins og Ísland, þar sem fáir búa, flókið. Þar þarf einfalt og gott kerfi. Það þarf ekki þessar flóknu reglur. Mér þætti gaman að sjá hinn almenna borgara fara yfir húsnæðislögin og þann frumskóg sem þau eru orðin núna. Þetta er ekki fyrir venjulegt fólk, enda skilur venjulegt fólk ekki í þessum --- það stendur hér: þessum mjög flóknu og viðamiklu reglum. Við þurfum ekki þetta
kerfi. Þjóð sem er með 250 þús. íbúa þarf einfalt kerfi, mjög einfalt. Það þarf fá orð í lögin og það þarf aðeins mjög litla stofnun til að framkvæma slíkt.
    Það sem hér er verið að leggja til er algjör óþarfi og á margan hátt ekkert annað en að skapa frekari útfærslu á ríki og sveitarfélögum og verið að stuðla að því að kaupgjaldið í landinu verði lægra á næstu árum. Það er verið að búa til störf sem eru óþörf og til þess þarf skatta. Það þarf náttúrlega að höggva þetta kerfi niður og ég ber kvíðboga fyrir því að slík óráðsía skuli vera hér, eins og er að verða hjá þessari þjóð, á hverju sviðinu á fætur öðru, með þeim hætti að allt verður miklu flóknara og ómanneskjulegra, erfiðara í framkvæmd, dýrara og verra fyrir fólkið í landinu. Þetta eru staðreyndirnar. Þetta eru þær

staðreyndir sem blasa við hinum almenna borgara úti í þjóðfélaginu.
    Menn halda e.t.v. að best sé að samþykkja sem mest af lögum en ég held það sé alveg öfugt, ég held að best sé að samþykkja sem fæst lagaákvæði og hafa lögin bæði stutt og skorinorð. Sannleikurinn er nefnilega sá að það kerfi sem núna liggur hérna fyrir er eitthvað það flóknasta sem sögur fara af hjá íslenska lýðveldinu og það er áhyggjuefni að þetta kerfi skuli þenjast út með þeim hætti sem hér er. Ég held að venjulegt fólk skilji hvorki upp né niður í þessu. Það verður æ erfiðara fyrir lítilmagnann að koma sér áfram. Og aðeins með því að stóri bróðir eigi nú að deila og drottna, hæstv. félmrh. geti með framréttri hendi sagt: Hér er ég, ég ætla að gera þetta fyrir ykkur. En það er auðvitað gert með því að leggja gífurlega aukna skatta á fólkið með þeim hætti að með staðgreiðslukerfinu hafa skattarnir vaxið svo mikið að það er þörf á félagslegum íbúðum. Og með aðgerðum ríkisstjórnar í atvinnumálum hefur kaupið lækkað. Þetta eru staðreyndirnar. Og svo á að segja: Hérna eru fleiri félagsmálapakkar, hér erum við, góða fólkið, og við ætlum að hjálpa ykkur. Hér er þetta dásamlega frv. okkar um félagslegar íbúðir sem á að stuðla að jafnrétti í húsnæðismálum þannig að fjármunum verði sérstaklega varið til þess að auka möguleikana til að eignast eða leigja húsnæði á viðráðanlegum kjörum.
    En hvernig er þetta dásamlega kerfi búið til? Það er með því að pína þetta sama fólk, taka af því fjármunina þannig að það á enga fjármuni og neyða það
inn í slíkt kerfi sem hér er. Ég segi að nær hefði verið að taka upp það kerfi sem Borgfl. lagði til á sinni tíð, um húsbankann. Náttúrlega var tekinn hluti af því og er reyndar félagslegi pakkinn að hluta til tekinn hér inn. En þetta sem hér er verið að leggja fram nær náttúrlega miklu skemmra. Krakkarnir hefðu kallað þá menn sem hefðu unnið með sama hætti og hæstv. ríkisstjórn er að gera með húsnæðiskerfið steluþjófa. Það er sorglegt til þess að vita að þegar lagt er fram kerfi eins og húsbankarnir, með félagslegum íbúðum einnig, sem er byggt á reynslu annarra, þá er verið að taka hér upp í bútum úr því að hluta til en þó miklu verra. Þannig að í staðinn fyrir að hafa það einfalt og gott kerfi, sem er komin reynsla á annars staðar og hefði á stuttum tíma getað leyst þau vandamál sem hér eru í húsnæðismálum, þá er verið að koma hér á flóknu og vitlausu kerfi.
    Þetta frv. er byggt á því að hæstv. ríkisstjórn hefur rýrt lífskjörin gífurlega, hefur farið í vasa skattborgaranna, hefur tekið kaupið af fólkinu, hefur aukið skattana á fólkinu og hefur myndað fleiri hópa sem búa við verri kjör. Og hér kemur svo árangurinn. Nú ætlar ríkisstjórnin og hæstv. félmrh. að rétta fram hönd sína eins og kóngurinn forðum og segja: Hér er ég, nú ætla ég að hjálpa ykkur. Nú er ég búinn að taka af ykkur alla peningana, lækka við ykkur kaupið, nú ætla ég að láta ykkur hafa íbúðarhúsnæði. Að vísu er það þannig að þið verðið bundin mér ævilangt og

verðið að þakka mér ævilangt fyrir það.
    Þetta eru staðreyndirnar í málinu og þetta frv. byggist ekki á neinum staðreyndum um stöðuna í byggingu íbúðarhúsnæðis, hér liggja engar raunverulegar rannsóknir að baki um hvað muni gerast á næstu árum, það liggja engar tölfræðilegar niðurstöður fyrir um það. Það liggur ekkert fyrir um hvað þarf að byggja margar íbúðir og hver verður þörfin. Það liggur ekkert fyrir um það hvort þetta sé hagstætt fyrir þjóðina eða ekki. Og ég verð að segja það eins og er að það þjóðfélag sem áður var talið gott og réttlátt og frekar einfalt er núna að verða flókið og ómanneskjulegt. Ég held að þessi stefna sem hæstv. ríkisstjórn og hæstv. félmrh. boða með þessu frv. leiði til þess að það verður fjöldi manns sem einfaldlega tekur saman pjönkur sínar og fer úr landi. Einfaldlega tekur saman pjönkur sínar og fer úr landi.
    Ég heyri það á fólki að það er alveg búið að fá nóg af þeim ráðstöfunum sem hæstv. ríkisstjórn hefur gert. Og núverandi stjórnarflokkar munu fá svolítið bank í næstu sveitarstjórnarkosningum og það verða e.t.v. ekki margir fulltrúar sem þeir fá í sveitarstjórnir t.d. hér í Reykjavík. Það verður kannski áminning til þeirra um það að fólk vill ekki þessa stefnu, það vill ekki þennan óskapnað. Það vill ekki þetta kolkrabbakerfi sem teygir anga sína út um allt. Fólkið vill bara einfalt og gott kerfi og að það verði auðvelt að komast í gegnum það. Það vill ekki hafa það eins og t.d. er með fasteignagjöldin að ekki nokkur lifandi maður skilji hvað stendur á seðlunum.
Að það skuli vera hægt, undir forustu hæstv. félmrh., að bjóða upp á það að í sveitarfélögum sem liggja hlið við hlið muni kannski 50% á álögðum fasteignagjöldum. Ég sá t.d. í blaði að þar var hv. bæjarstjóri að skrifa. Hann sagði: Fasteignaskattarnir eru ekkert hærri hjá okkur en 20--30 öðrum sveitarfélögum. En var maðurinn að segja satt eða var hann að ljúga? Sannleikurinn er nefnilega sá að hann var að ljúga. Hann talaði um fasteignaskatta vegna þess að fasteignaskatturinn er bara hluti af fasteignagjöldunum. En þegar fasteignagjöldin voru skoðuð hjá þessum sama bæjarstjóra --- hvað kom þá í ljós? Þá kom í ljós að hv. bæjarstjóri er sennilega með hæstu fasteignagjöld á öllu landinu því ekki hefur enn þá fundist það bæjarfélag á landinu sem er með hærri fasteignagjöld. Þetta er vegna þess að kerfið er svo flókið að venjulegt fólk á þess ekki nokkurn kost að bera sig saman við aðra.
    Þetta er hið dásamlega félagsmálakerfi sem núverandi ríkisstjórn stendur að. Svo eru sett hér fram dásamleg markmið sem eru svo falleg að maður getur nálega grátið. En er eitthvað að marka þetta? ( Gripið fram í: Nei.) Nei, hv. þm., það er rétt, ekki vitund. Það er nefnilega ekki nóg að skrifa lög með hástemmdum markmiðum, yndislegum orðum og háleitum hugsjónum, það er ekki það sem fólkið vill. Það vill að raunverulega sé eitthvað á bak við.
    Það þarf ekki nema einfalt kerfi, mjög einfalt, til að nota hér á Íslandi þar sem aðeins 250 þús. menn búa. Ísland er eins og ein stjórnsýslueining, lágmarks

stjórnsýslueining eins og t.d. í Svíþjóð, sem er nú talin frekar félagslega sinnuð þjóð. Það er minnsta stjórnsýslueiningin. Og það að fara að búa til hér alla vega húsnæðisnefndir og yfirstjórnir og allt þetta sem er í þessu frv. er náttúrlega alveg fyrir neðan allar hellur. Það er auðvitað miklu skynsamlegra að það sé einfalt kerfi, menn geti nánast gengið inn í bankann sinn á staðnum og sagt: Hér er ég og ætla að byggja, ég hef þetta í tekjur, svona eru mín fjármál. Og bankastjórinn svarar: Allt í lagi, þú getur fengið svo og svo mikið lán, þú borgar það á þessum árafjölda og málið er útrætt. Það þarf ekki nema svona 10--15 mínútur til að leysa það.
    Með því kerfi sem hér er lagt til er vissara að fá eina 10--20 sérfræðinga til að hjálpa sér og ekki vanþörf á. Hvaða almenni borgari á að skilja það sem stendur hérna með alla þessa fyrirvara um allt mögulegt og ómögulegt sem í þessu frv. er? Það gerir ekki nokkur maður. Ég held að sannleikurinn sé sá að við séum komnir út á varhugaverðar brautir og heimskulegar. Hér er bara verið að festa í sessi enn þá vitlausara kerfi en nokkru sinni áður hefur verið við lýði á Íslandi.
    Ég ætla svo ekki að segja mikið meira um þetta að sinni en geri ráð fyrir því að hv. félmn. muni taka þetta frv. til ítarlegrar umfjöllunar. Ég ætla að vona að það komi ekki úr þeirri nefnd á þessu þingi.