Greiðsla vaxta af ofgreiddum sköttum
Fimmtudaginn 26. apríl 1990


     Fjármálaráðherra (Ólafur Ragnar Grímsson):
    Virðulegi forseti. Sem svar við fyrstu spurningu vil ég taka fram að þær reglur sem í gildi eru um tilkynningar og skil innheimtumanna ríkissjóðs á ofgreiddum sköttum eru settar af fjmrn. Tilkynningarnar eru sendar tvisvar á ári til gjaldenda um greiðslustöðu þeirra við innheimtumenn. Þetta gerist í janúar- og júlímánuði. Í janúar er jafnframt tilkynnt um ákvarðaða fyrirframgreiðslu og í júlí um endanlega álagningu. Í sérstökum reit á báðum tilkynningunum kemur fram ef um inneign gjaldanda er að ræða og eigi gjaldandinn inneign eftir álagningu er hún send honum ásamt vöxtum með ávísun í pósti í lok júlí.
    Sem svar við annarri spurningu vil ég taka fram að innheimtumenn ríkissjóðs eiga ótilkvaddir að reikna inneignarvexti á inneignir vegna ofgreiðslu á sköttum. Í tekjubókhaldskerfi ríkisins er reikniforrit til að reikna framangreinda vexti og ber að gera það þegar inneign er borguð út. Þó er vel hugsanlegt að hægt sé að finna dæmi um mistök þegar inneign er borguð út þannig að ekki séu greiddir vextir af inneignum.
    Sem svar við þriðju spurningunni vil ég taka fram að það er vissulega hugsanlegt að til þess geti komið ef innheimtumaður greiðir ekki ótilkvaddur inneignarvexti og ef gjaldandi gerir ekki við það athugasemd að ekki séu greiddir inneignarvextir. Hins vegar geta þeir sem þannig stendur á um óskað eftir leiðréttingu þó það gerist eftir að inneign er borguð út.
    Sem svar við fjórðu spurningu vil ég árétta að framkvæmd þessa lagaákvæðis á vissulega að vera eins hjá öllum innheimtumönnum ríkissjóðs. Hins vegar er ekki unnt að fullyrða að svo sé í dag þar sem reikna þarf út inneignarvexti í hverju tilviki fyrir sig þannig að ljóst má vera að mistök geta orðið í einstökum tilvikum.
    Að lokum, og sem svar við síðustu spurningu, vil ég taka fram varðandi málið í heild að ég er þeirrar skoðunar að framkvæmd á því hvernig staðið er að greiðslu á vöxtum af ofgreiddum sköttum sé ekki viðunandi. Það er vissulega þakkarvert af hálfu fyrirspyrjanda að taka málið fyrir á Alþingi þannig að hægt sé að koma þeim sjónarmiðum hér á framfæri.
    Ég hef af þessu tilefni falið ríkisbókhaldinu að gera þær breytingar á framkvæmd útreikninga á inneignarvöxtum á ofgreiddum sköttum að þeir verði reiknaðir vélrænt og uppfærðir jafnóðum. Þannig að þegar inneign er greidd út þá verði inneignarvextir ávallt greiddir á umrædda eign og vextir komi fram á viðskiptayfirliti gjaldanda. Með þessari breytingu, sem ég hef falið ríkisbókhaldinu að gera, á að vera tryggt að allir þeir sem ofgreiða skatt og eiga rétt á vöxtum, skv. 112. gr. laga nr. 75/1981, fái greidda vexti.
    Þar sem útreikningur vaxta verður vélrænn í tekjubókhaldskerfi ríkisins mun þannig verða tryggt að sama framkvæmd verði á landinu öllu. Þannig verður eytt þeim möguleikum, sem því miður hafa verið í kerfinu um langan tíma, að framkvæmd geti verið

mismunandi eftir umdæmum innheimtumanna.
    Varðandi þá einstaklinga sem hafa átt rétt á vöxtum en ekki fengið þá vegna mistaka hjá innheimtumönnum ríkissjóðs er mér það kærkomið tækifæri hér á Alþingi að árétta að að sjálfsögðu verða slík mistök leiðrétt ef þau koma í ljós.