Tilraunastöðin á Reykhólum
Fimmtudaginn 26. apríl 1990


     Þorv. Garðar Kristjánsson:
    Hæstv. forseti. Fyrirspurnin sem við ræðum hér hljóðar um það hvaða lagaheimild sé fyrir því að leggja niður tilraunastöðina á Reykhólum.
    Í svari hæstv. landbrh. kom ekki svar við þessu, hvaða lagaheimild, því það er engin lagaheimild til þess. Til þess að það sé lagaheimild fyrir hendi til að leggja þessa tilraunastöð niður þarf að afnema lög nr. 57/1944, um tilraunastöðina á Reykhólum. Það breytir engu um það þó að erfiðleikar séu með fjárveitingar til tilraunastöðva í landinu. Það er staðreynd að það eru sérstök lög um tilraunastöðina á Reykhólum. Það eru ekki sérstök lög um aðrar sérstakar tilraunastöðvar en það eru sérstök lög um tilraunastöðina á Reykhólum. Það er hart að þurfa að búa við það að það skuli vera rofin sú merkilega starfsemi sem hefur verið unnin á tilraunastöðinni á Reykhólum og sérstaklega í sambandi við ræktun á ull, eins og hér hefur komið fram.
    Það sem liggur fyrir er þvert á móti að efla starfsemi tilraunastöðvarinnar á Reykhólum. Það vill svo til að hér liggur fyrir þinginu tillaga til þál. um eflingu tilraunastöðvanna á Reykhólum og á Skriðuklaustri sem 4. þm. Austurl. og 1. þm. Vestf. eru flm. að. Þá gefst tækifæri frekar til þess að ræða þessi mál þegar sú tillaga kemur á dagskrá.