Tilraunastöðin á Reykhólum
Fimmtudaginn 26. apríl 1990


     Stefán Valgeirsson:
    Virðulegi forseti. Ég vil nú þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið ef svar skyldi kalla. Honum hefur oft tekist betur í sambandi við svör hér á hv. Alþingi heldur en í þetta sinn. Ég vil minna ráðherra á það að þegar við vorum að mynda þessa ríkisstjórn þá var talað um það að færa frá Keldnaholti út á land til tilraunastöðvanna en það er farið öfugt að. Þessi stöð á Keldnaholti bólgnar út á sama tíma sem minna og minna fé er lagt til stöðvanna úti á landi. Það hefur komið hér greinilega fram að það er ekki lagaheimild til þess að leggja þessa stöð niður. Það hefur komið hér fram að það er verið að flytja fé á sýkt svæði af ósýktu svæði. Það hefur líka komið fram hér að Álafoss telur það mikilvægt að rækta þessa ull fyrir bændur, fyrir iðnaðinn í landinu. Og það gengur svo langt að mér er sagt eftir formanni RALA að hann hafi sagt að hann væri enginn ,,andskotans`` landsbyggðarmaður og það er kannski það sem ræður þarna ferðinni en ekki ráðherrann. En ég skora á ráðherrann að standa við það að draga úr starfsemi RALA sem mér virðist starfa að vissu leyti bak við luktar dyr og lokaða glugga og koma því út til bændanna til þess að þessi starfsemi verði þar að gagni.