Tilraunastöðin á Reykhólum
Fimmtudaginn 26. apríl 1990


     Menntamálaráðherra (Svavar Gestsson):
    Virðulegi forseti. Þetta er satt að segja undarleg umræða hjá hv. 2. þm. Norðurl. v. Skyldu þessi lagaákvæði hafa verið framkvæmd í hans tíð sem landbrh.? Því að í lögunum stendur að þarna eigi að stunda tiltekna tilraunastarfsemi í jarðrækt. Hann braut þar með lögin. Hvernig stendur á því að hann gerði það? Hvernig háttar því til að þann tíma sem liðinn er frá því að hann yfirgaf ráðherrastólinn hefur hann verið í fjvn. og hefur aldrei gert tilraun til þess að tryggja að lögin yrðu ekki brotin? Hv. 2. þm. Norðurl. v. er svo þingvanur að það er óþarfi fyrir hann að setja málin upp með þessum hætti. Ég skora á hann að plægja lagasafnið í heild og fara yfir lögbrotin sem samkvæmt hans skilningi á lagasafninu liggja fyrir. Þau væru býsna mörg, sennilega ekki tugir heldur hundruð, því það sem ræður úrslitum um framkvæmd laga er fjárveiting til þess að framkvæma þau. Það ætti hv. þm. að vita sem hefur um skeið verið í fjvn. og auk þess starfandi í landbrn. um nokkurra ára bil sem lögbrjótur, að eigin sögn. En ég vil sýkna hann af þeirri árás á hann sjálfan.