Tilraunastöðin á Reykhólum
Fimmtudaginn 26. apríl 1990


     Landbúnaðarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon):
    Hæstv. forseti. Það væri auðvitað æskilegra að hafa rýmri ræðutíma til að ræða þetta mál hvað hina lagalegu hlið snertir. Ég verð að taka undir það með menntmrh. að mér finnst málflutningur manna hér harla sérkennilegur. Það er verið að gefa í skyn að það sé beinlínis lögbrot ef hver einustu lög og hver einustu lagaákvæði sem finnast í lagasafninu séu ekki framkvæmd til hins ýtrasta á hverjum tíma. Ég kannast ekki við það til að mynda að lögum um legorð presta hafi verið framfylgt hér upp á síðkastið. Kannast menn við það að beitunefnd hafi verið skipuð? Samkvæmt lögum frá 1947 skal skipa þriggja manna nefnd og er verkefni hennar að sjá um, eftir því sem unnt er, að ávallt sé í öllum verstöðvum landsins næg og góð beita við eðlilegu verði.
    Ég spyr: Ætli það sé nú ekki talsvert af lagaákvæðum af þessu tagi sem fallið hafa smátt og smátt úr framkvæmd? Og þegar það bætist svo við sérstaklega, hæstv. forseti, að fjárveitingavaldið sjálft, Alþingi, samþykkir í raun og veru aðra tilhögun vegna þess að í grg. með fjárlagafrv. er alveg skýrt kveðið á um það hvaða ráðstafanir verði að gera til þess að unnt sé að halda úti tiltekinni starfsemi með þeim fjárveitingum sem Alþingi ákveður. Ég spyr þeirrar sömu spurningar og hv. þm. Ragnar Arnalds spurði fyrir nokkrum árum síðan úr þessum ræðustóli: Getur Alþingi brotið lög með því að setja önnur lög? --- Svarið er nei. Alþingi hefur löggjafarvaldið á hverjum tíma, m.a. í gegnum fjárveitingalagavaldið, og breytir skipan mála eftir því sem því býður við horfa með fjárveitingafrv. og fjárlagafrv. hverju sinni.
    Ég bendi mönnum á, að lokum, að lesa grg. með fjárlagafrv. fyrir árið 1990. Þar var það alveg skýrt hvaða ráðstafanir Rannsóknastofnun landbúnaðarins sæi sig knúna til að gera til þess að lifa við þær fjárveitingar sem var ákveðið að veita til stofnunarinnar. Alþingismönnum, stjórnarþingmönnumn og öðrum sem stóðu að afgreiðslu fjárlagafrv. mátti vel vera ljóst hvað í því fælist.
    Svo ég svari að lokum hv. 6. þm. Norðurl. e. þá er það ekki svo að Rannsóknastofnun landbúnaðarins á Keldnaholti sé að bólgna út. Þvert á móti verða flutt stöðugildi þaðan út á þær tilraunastöðvar sem reynt verður að halda úti á næstu árum og þær verða efldar. Enda er það tímanna tákn, og í raun og veru þróun sem ekki verður snúið við, að það er miklum mun vænlegra fyrir rannsóknastarfsemina í landinu að efla frekar færri en burðugri rannsóknastöðvar á nokkrum stöðum í landinu en að dreifa svo mjög kröftunum sem núverandi og fyrrverandi skipulag hefur falið í sér. Það er einfaldlega ekki vænlegt til árangurs að reka einsmannstilraunastöðvar á mörgum stöðum á landinu. Það nýtir illa fjármagn og kostar margháttaða erfiðleika fyrir viðkomandi starfsmenn. Þegar fram í sækir mun auðvitað verða um það stórkostleg óvissa hvort slíkar stöðvar fáist mannaðar með eðlilegum hætti.

    Ég hygg því að menn verði að horfast í augu við það að breyttir tímar kalla á breytt vinnubrögð. Þessum málum verður ekki snúið við þó svo að mönnum kunni að þykja vænt um tilraunastöðina á Reykhólum. Ég gæti vel blandað mér í þann hóp út af fyrir sig ef það ætti eitt að ráða niðurstöðunni. En ég hygg að menn verði að horfa hér raunsætt á málin og menn gera hvorki byggðamálum né landbúnaðinum, né öðrum slíkum hlutum greiða með því að neita að horfast í augu við breyttar aðstæður.