Tilraunastöðin á Reykhólum
Fimmtudaginn 26. apríl 1990


     Pálmi Jónsson (um þingsköp) :
    Herra forseti. Ég kveð mér hljóðs um þingsköp, þar sem mér var synjað um orðið í hinni almennu umræðu, m.a. til að bera af mér sakir.
    Hæstv. menntmrh. hefur hér borið á mig í þessum ræðustól að ég hafi brotið lög sem ráðherra ( Menntmrh.: Þín eigin orð, þín eigin orð.) á minni tíð. Hæstv. menntmrh. hefði átt að kynna sér hvaða lög hann er að tala um. ( Menntmrh.: Ég var að lesa þau.) Hæstv. ráðherra hefur ekki lesið lögin að því er virðist, og ræða hæstv. menntmrh. var rugl frá upphafi til enda. Lögin sem um þetta gilda eru nr. 64 21. maí 1965. Þar segir, með leyfi hæstv. forseta: ,,Rannsóknastofnun landbúnaðarins skal fá umráð yfir þeim tilraunastöðvum á sviði landbúnaðar sem ríkið á. Þar skulu framkvæmdar tilraunir í jarðrækt, búfjárrækt, heyverkun og öðru sem stjórn stofnunarinnar ákveður.`` (Gripið fram í.) Þetta eru ákvæði laganna sem gilda um tilraunastöðvarnar og hæstv. ráðherra getur tekið það til greina. Ég þarf ekki að lesa allt lagasafnið fyrir hæstv. ráðherra, en þessum lögum var fylgt og þessi lög gilda og þeim verður ekki breytt með fjárlögum. Það er misskilningur hjá hæstv. landbrh. --- Hæstv. forseti, ég er að bera af mér sakir. ( Forseti: Hv. þm. bað um orðið um þingsköp en ekki til að bera af sér sakir. Sé hv. þm. að bera af sér sakir vil ég biðja hann að gera það en stytta mjög mál sitt.)
    Hæstv. forseti. Ég tel mér nauðsynlegt að bera af mér sakir og ræða hæstv. landbrh. var byggð á misskilningi því að fjárlög taka ekki af önnur lög. Ég lét þess getið í umræðum um fjárlög að vel kynni að vera nauðsynlegt eða þarft að breyta tilhögun tilraunastöðva í landinu, en þá á að gera það með lögum en ekki með því að leggja þær niður með fjárlögum og ekki með því að selja húseignir þessara tilraunastöðva án þess að lögum um þær hafi áður verið breytt. Og þetta verða þeir sem fara með framkvæmdarvaldið í landinu að skilja.