Málefni LÍN
Fimmtudaginn 26. apríl 1990


     Fyrirspyrjandi (Halldór Blöndal):
    Hæstv. forseti. Það hefur verið úrskurðað áður hér á þinginu að Alþingi hafi ekki neinar leiðir til að bregðast við eða forsetar þingsins þegar ráðherrar gera annað hvort að svara ekki því sem um er spurt eða svara út í hött því sem um er spurt og verður við svo búið að standa að því leyti. En það er í grundvallaratriðum rangt hjá hæstv. menntmrh. að hann hafi staðið við þau fyrirheit sem hann gaf námsmönnum, eins og glöggt kemur fram í því að úthlutunarreglum Lánasjóðsins hefur verið breytt í andstöðu við námsmenn, og það hefur valdið því að á þessu ári eiga að sparast 186 millj. kr. og 245 millj. kr. á því næsta sem auðvitað þýðir það að um skerðingu hefur orðið að ræða.
    Ég vil benda á að tekjutillit hefur verið hækkað í 75% sem þýðir það að þeir námsmenn sem leggja mikla vinnu á sig yfir sumartímann verða fyrir verulegri skerðingu gagnstætt því sem námsmenn ætluðust til og um var samið. Þeir höfðu áður tekið á sig að tekjutillitið yrði 50% í stað 35% áður þannig að enn var aukið á og nú í andstöðu við námsmenn.
    Í öðru lagi hafa meðallán vegna bóka- og efniskaupa verið lækkuð um 36%. Aukið tillit er tekið til tekna maka til lækkunar á námslánum og lán til einstaklinga sem ekki búa í eigin húsnæði eða leiguhúsnæði er lækkað um tæp 10 þús. á mánuði. Það er því auðvitað augljóst að hæstv. menntmrh. hefur ekki staðið við þau fyrirheit sem ríkisstjórnin gaf og hann gaf námsmönnum eins og líka hefur komið fram í mjög öflugum mótmælum námsmanna, sanngjörnum og efnislegum.