Málefni LÍN
Fimmtudaginn 26. apríl 1990


     Birgir Ísl. Gunnarsson:
    Virðulegi forseti. Hæstv. menntmrh. verður auðvitað að sætta sig við að hann er hér á Alþingi krafinn sagna um það hvernig hann stóð við loforð sem hann gaf námsmönnum fyrir síðustu kosningar. Það er alveg ljóst að hann hefur ekki staðið við þau loforð og þær tölur sem hann las hér upp áðan voru falsaðar vegna þess að hæstv. ráðherra tók í þeim tölum ekki tillit til þeirra skerðinga sem hann hefur gert á ýmsum öðrum þáttum sem snerta lán til námsmanna. Hvernig reiknar hann t.d. skerðingu á bókakaupum? Hvernig reiknar hann skerðingu á tekjutilliti maka inn í þessar tölur sínar? Hæstv. ráðherra getur ekki lagt fram falsaðar tölur að þessu leyti. Það kemur glöggt í ljós að þessar aðgerðir hæstv. ráðherra nú gefa í tekjur, frá námsmönnum, 240 millj. á þessu ári og á næsta ári 245 millj. þannig að með því að hækka framfærslugrunninn, eins og hann segist hafa gert og þar með staðið við loforð til námsmanna, tekur hann frá námsmönnum stórkostlegar upphæðir í öðrum liðum þannig að það er hreint fals þegar hæstv. ráðherra kemur hér og segist hafa staðið við loforð námsmanna. Ég skora á hann að fara upp í Háskóla og segja námsmönnunum þar frá því. Þeir eru ekki á sama máli og hæstv. ráðherra.