Samskiptamiðstöð heyrnarlausra
Fimmtudaginn 26. apríl 1990


     Menntamálaráðherra (Svavar Gestsson):
    Virðulegi forseti. Á sl. ári setti ég niður þriggja manna nefnd til að gera tillögur um reglugerð um samskiptamiðstöð heyrnarlausra. Í nefndinni voru fulltrúar frá heilbrrn. og félmrn. auk menntmrn. Þessi hópur skilaði mér drögum að reglugerð um starfsemina seint í október, og ég ákvað að þau yrðu send til umsagnar ýmissa aðila 18. okt. 1989 og setti frest til 20. nóv. 1989 til að fá umsagnir.
    Drögin gerðu ráð fyrir að reglugerðin byggðist á lögum nr. 41/1983, um málefni fatlaðra, og þar með heyrðu málin og samskiptamiðstöðin undir félmrn. og ég tek það fram af minni hálfu að ég hafði ekkert við það að athuga að samskiptamiðstöðin heyrði undir félmrn. Það skipti mig í raun og veru engu máli. Aðalatriðið í mínum huga var það að henni yrði komið á.
    Nefndin skilaði svo endanlega, eftir að hafa farið yfir umsagnirnar, áliti 7. des. 1989 og hún skilaði einnig áætlun um kostnað. Það var talað um að kostnaður við þessa samskiptamiðstöð yrði verulegur. Mig minnir að það hafi verið á bilinu 20--25 millj. kr. sem hún kostaði á ári. Síðan gerist það að um eða rétt eftir áramótin bárust mótmæli frá samtökum heyrnarlausra um það að stofnuninni væri ætlað að heyra undir félmrn. þar sem hér væri ekki um að ræða fötlun eða ekki væri um að ræða hæfnisskerðingu sem rétt væri að flokka undir lögin um málefni fatlaðra. Í framhaldi af þessum mótmælum lét ég halda fundi með embættismönnum bæði félmrn., heilbrrn. og menntmrn. og niðurstaða úr
viðræðum þessara aðila fékkst núna nýlega, sem sé sú að lagalega væri því ekkert til fyrirstöðu að stofnunin heyrði undir menntmrn. þó að reglugerðin byggðist á lögum um málefni fatlaðra sem heyra sem sagt undir félmrn.
    Í fjárlögum ársins 1990 er ekki gert ráð fyrir samskiptamiðstöð heyrnarlausra eins og allir þekkja og þess vegna hefur verið gengið út frá því að það yrði beðið með formlega stofnun samskiptamiðstöðvarinnar þar til fjárlög fyrir árið 1991 hefðu verið afgreidd. Ég hef hins vegar fyrir mitt leyti ákveðið að á þessu ári verði tekin ákveðin skref í áttina og stofnaður vísir að þessari samskiptamiðstöð til undirbúnings formlegri stofnun hennar. Frá þessu skýrði ég á fjölmennum fundi sem haldinn var í gærkvöldi í Borgartúni 6 með fulltrúum frá Félagi heyrnarlausra, frá Foreldrafélagi heyrnarlausra og frá fulltrúum Heyrnleysingjaskólans. Þau verkefni sem verður þegar á þessu ári komið af stað, síðar á árinu, eru aðallega þrjú:
    1. Áframhaldandi rannsókn á táknmálinu sem er gífurlega mikilvægt atriði að fram fari.
    2. Undirbúningur túlkanáms á háskólastigi sem yrði þá hugsanlega við Kennaraháskóla Íslands. Það er að sjálfsögðu ekki frágengið mál.
    3. Þarna yrði fjallað um kennslu táknmáls og sérstaklega fjallað um það hvernig hægt er að búa foreldra undir það að annast verulega heyrnarskert eða heyrnarlaus börn. Enn fremur er gert ráð fyrir því að

þjálfa kennara til þess að annast kennslu verulega heyrnarskertra eða heyrnarlausra barna með táknmálsnámi en í vetur hefur verið nám í Kennaraháskóla Íslands í þessu skyni þar sem þrír kennarar hafa starfað við að kenna táknmál. Þetta er svarið við 1. lið fyrirspurnarinnar.
    Í öðru lagi er spurt: ,,Hver verða helstu verkefni væntanlegrar samskiptamiðstöðvar?`` Og svarið er það að samkvæmt reglugerðardrögunum eru það fjögur aðalverkefni. Í fyrsta lagi fræðsla og rannsóknir, í öðru lagi kennsla táknmáls, í þriðja lagi táknmálstúlkun og í fjórða lagi önnur þjónusta, svo sem að beita sér fyrir því að gerð verði áætlun um það hvernig heyrnarlausum verði best séð fyrir samfélagslegri þjónustu, eins og það er orðað í reglugerðardrögunum.
    Í þriðja lagi er spurt: ,,Hvar stendur til að hún verði til húsa?`` Ekki hefur verið tekin ákvörðun um það hvar samskiptamiðstöðin verður til húsa til frambúðar af því að fjármunir hafa ekki verið veittir til hennar, en það er ætlun okkar að sá vísir að samskiptamiðstöð sem ég var að tala um hér áðan verði til húsa í húsnæði Heyrnleysingjaskólans.
    Við þetta er svo því að bæta að við munum núna á næstu dögum, næstu vikum skrifa niður í samvinnu við viðkomandi aðila verkefnaáætlun í þessu efni þar sem tekin verði ákvörðun um það hvaða skref verða stigin núna á næstu mánuðum og árum í þessu efni. Brýnasta verkefnið er að kanna með hvaða hætti stjórnvöld eiga að koma til móts við þá kröfu heyrnarlausra að táknmálið verði viðurkennt sem móðurmál þeirra en um það mál verður væntanlega fjallað síðar í þessum fyrirspurnatíma.