Samskiptamiðstöð heyrnarlausra
Fimmtudaginn 26. apríl 1990


     Fyrirspyrjandi (Þórhildur Þorleifsdóttir):
    Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. menntmrh. greinargóð svör. Þau bera vissulega með sér að einhver hreyfing sé nú komin á málefni heyrnarlausra en mikið hefur skort á að verulega væri tekið á þeim málum og eitthvað hefur líklega valdið, að ekki hefur verið nægileg sátt um hvernig að málum skuli staðið. Mér virðist svör ráðherra bera það með sér að sættir séu fram undan ef ekki þegar í málinu.
    Ég mun ekki fjölyrða um þetta varðandi þetta svar, virðulegi forseti, en býst við að koma hér í stólinn innan skamms með aðra spurningu sem leiðir okkur þá áfram í umræðunni.