Táknmál heyrnarlausra
Fimmtudaginn 26. apríl 1990


     Guðmundur G. Þórarinsson:
    Virðulegi forseti. Hér er hreyft athyglisverðu og afar mikilvægu máli og ég vil sérstaklega þakka fyrirspyrjanda fyrir að færa þetta mál hér inn í sali Alþingis til umræðu og jafnframt menntmrh. fyrir þær upplýsingar sem hann hefur veitt okkur. Ég hygg að það sé afar mikilvægt í þessu máli að huga að og reyna að nýta sér þá reynslu sem Svíar hafa þegar fengið á þessu sviði, en ef þær upplýsingar eru réttar sem ég hef fengið í hendur munu Svíar líklega hafa samþykkt heyrnarlausa sem málminnihlutahóp árið 1981. Þeir hafa þess vegna nokkra reynslu af framkvæmdinni og hvað til þarf að koma, og það hygg ég að sé nokkuð víðtækt, og ég tek reyndar mjög undir með menntmrh. að hér er ekki það sem skiptir máli að gera eitthvað í orði heldur þurfa auðvitað að fylgja á eftir aðgerðir á borði.
    Það er sjálfsagt rétt að það er ekki bara málefni menntmrn. sem hér er um að ræða þó óneitanlega snerti málið það ráðuneyti mjög. Ég mundi vilja eggja þann ráðherra sem hér er að upplýsa okkur um stöðu málsins til að hafa frumkvæði að því innan ríkisstjórnarinnar að taka sérstaklega á þessu máli, kanna reynslu Svía og sjá með hverjum hætti best mætti nýta hana hér á landi.