Táknmál heyrnarlausra
Fimmtudaginn 26. apríl 1990


     Fyrirspyrjandi (Þórhildur Þorleifsdóttir):
    Virðulegi forseti. Það hafa greinilega orðið mikil sinnaskipti í málefnum þessa hóps og er það gleðilegt þó nokkuð sé á reiki í svörum hæstv. ráðherra hvort komi á undan. Hann nefnir að rannsóknir á táknmáli verði að fara fram til þess að hægt sé að viðurkenna það. Ég spyr þá hæstv. ráðherra: Er líklegt að gerðar séu alvarlegar rannsóknir á máli sem ekki er viðurkennt? Þarna hlýtur að vera um það að ræða hvort sé fyrsta skrefið.
    Hæstv. ráðherra nefndi einnig að hann teldi ekki að grunnmenntun heyrnarlausra ætti að fara fram í almennum grunnskóla. Þá hlýt ég að spyrja hæstv. ráðherra: Stendur til að breyta ákvæðinu í því frv. til laga sem við ræddum á Alþingi um daginn, um að fella úr gildi lög um Heyrnleysingjaskólann?
    Hér eru punktar sem menntmrn. lagði fram á fundi vinnuhóps sem fjallaði um málefni Heyrnleysingjaskólans 2. apríl sl. Þar er því lýst sem verkefnum á næstunni að skólinn flytji á næstu 3--5 árum úr húsnæðinu við Vesturhlíð og verði sérdeild í almennum grunnskóla og að lög um Heyrnleysingjaskólann verði numin úr gildi. Fleira ætla ég ekki að tiltaka í þessu en í áfangaskýrslu þessa sama vinnuhóps voru birtar þær niðurstöður að það sem þyrfti að gera væri m.a. að fara af stað með þróunarverkefni um tvítyngda námsskrá. Ég fer mjög hratt yfir sögu vegna tímaleysis. Þar segir í nánari útlistun: ,,Heyrnarlausir eru málminnihlutahópur með táknmál sem móðurmál. Vinnuhópurinn telur nauðsynlegt að auka virðingu fyrir táknmáli heyrnarlausra og þar með sögu þeirra og menningu með því að skólinn líti á táknmál sem fyrsta mál, íslensku sem annað mál og kenni samkvæmt því.``
    Í plaggi sem síðan var lagt fram sem umræðugrundvöllur milli heyrnarlausra og samtaka þeirra og menntmrn. voru tilgreind verkefni. Þar er enn hnykkt á um nauðsyn þess að viðurkenna táknmál sem sérstakt mál því það sé forsenda alls annars og allra annarra framfara. Því verð ég aðeins að leita eftir örlítið
ákveðnari svörum. Telur ráðherra að fram muni fara nauðsynlegar rannsóknir á þróun þessa máls ef það er ekki viðurkennt? Hyggst hann breyta þeim tillögum sem fram voru lagðar í hans nafni fyrir nokkrum vikum síðan? Og hyggst hann breyta þessu atriði sem ég gat um áðan í grunnskólalögum?