Táknmál heyrnarlausra
Fimmtudaginn 26. apríl 1990


     Birgir Ísl. Gunnarsson:
    Virðulegi forseti. Ég vil aðeins láta það koma í ljós í þessari umræðu, sem hefur nú nokkuð dreifst og farið inn á brautir Heyrnleysingjaskólans að ég hef miklar efasemdir um (Gripið fram í.) ja, þessi fyrirspurn fjallar um táknmálið. ( Menntmrh.: Já.) En almenn málefni Heyrnleysingjaskólans hafa komið nokkuð inn í þessa umræðu.
    Ég vil láta í ljós þá skoðun að ég hef miklar efasemdir um þær fyrirætlanir sem hafa verið uppi um að leggja niður Heyrnleysingjaskólann. Mér er auðvitað kunnugt um þá stefnu sem verið hefur uppi og speglast í lögum um málefni fatlaðra, að blöndunin eigi að vera sem allra mest og aðgreining fatlaðra og ófatlaðra sem allra minnst. Við verðum hins vegar að horfast í augu við vissar staðreyndir í lífinu og m.a. þær sem hæstv. ráðherra gat um, að það gengur væntanlega ekki upp að menntun grunnskólabarna, þ.e. heyrnarlausra grunnskólabarna, fari fram í almennum grunnskólum. Þess vegna fagna ég mjög yfirlýsingu hæstv. ráðherra um þær fyrirætlanir sem verið hafa uppi hingað til um að leggja niður Heyrnleysingjaskólann, að menn hafi a.m.k. staðnæmst og viljað skoða það mál allt upp á nýtt. Ég held að það sé mikil þörf á því að rasa ekki um ráð fram í þeim efnum.