Framhaldsmenntun heyrnarlausra
Fimmtudaginn 26. apríl 1990


     Fyrirspyrjandi (Þórhildur Þorleifsdóttir):
    Virðulegi forseti. Með lögum nr. 70/1978 var eftirfarandi staðfest:
    ,,Við Heyrnleysingjaskólann skal starfa framhaldsdeild er hafi það hlutverk að veita nemendum undirbúning og aðstoð til að afla sér menntunar og þjálfunar í ýmsum starfsgreinum og réttinda til sérnáms í framhaldsskólum eða háskólum.``
    Um nokkurra ára skeið var þessi framhaldsdeild rekin við Heyrnleysingjaskólann. En árið 1986 var rekstri hennar hætt og sá háttur tekinn upp í staðinn að nýta stöðugildi til að senda í staðinn túlka með nemendum í aðra skóla. Þótti þessi aðferð árangursríkari og betri. Nú hefur heimild til rekstrar þessarar framhaldsdeildar verið numin úr gildi og vandséð hvað tekur við.
    Einangrun heyrnarlausra og aðstöðuleysi til að stunda nám hefur ekki hvað síst birst í því að afar fáir þeirra hafa lagt stund á framhaldsnám af nokkru tagi. Rekstur framhaldsdeildar bætti þó nokkuð úr, en ástand í menntunarmálum heyrnarlausra er þó enn nokkuð bágborið, eins og glögglega kemur í ljós í skýrslu nefndar félmrh. um málefni heyrnarlausra og niðurstöðum könnunar á félagslegri stöðu heyrnarlausra. Vil ég aðeins, með leyfi forseta, vitna í þá skýrslu þar sem spurt er um menntun. Nemendur eru spurðir hvort þeir vilji meiri menntun og yfirgnæfandi meiri hluti svarar því játandi. Þeir voru einnig spurðir hvort þeir hafi stundað nám eftir 18 ára aldur. 51% þeirra hafa ekki lokið námi og af þeim sem hafa lokið námi eru 16 sem hafa hlotið iðnmenntun og síðan koma margir sérskólar. Einn hefur lokið stúdentsprófi, einn prófi í listaháskóla, en yfirgnæfandi meiri hluti fer sem sagt í iðnskóla. Ekki að það sé nokkuð rangt við það, en þessi einhæfni sýnir að aðstaða þeirra er ekki nægilega góð.
    Það ástand sem hér er lýst er auðvitað ekki eðlilegt, en í fljótfærni mætti draga þá ályktun að heyrnarlausir ættu erfiðara með að læra en heyrandi. Sú er auðvitað ekki raunin heldur er þetta ein birtingarmynd þess að þeir eru vanbúnir til að nýta sér fjölbreytt námsframboð í landinu. Forsenda þess að úr rætist er að styrkja þeirra eigið mál, táknmálið, með öllum tiltækum aðferðum, gera heyrnarlausum kleift í framhaldi af því að afla sér traustari þekkingar á íslensku máli og síðast en ekki síst að gefa þeim kost á vel menntuðum táknmálstúlkum til að fylgja þeim í skóla og opna þeim þannig leið að námi. Í ljósi þess hvernig nú háttar til vil ég spyrja hæstv. menntmrh.:
    ,,Hvaða ráðstafanir verða gerðar til að gera heyrnarlausum kleift að stunda framhaldsnám eftir að framhaldsdeild Heyrnleysingjaskólans hefur verið lögð niður?``