Framhaldsmenntun heyrnarlausra
Fimmtudaginn 26. apríl 1990


     Guðmundur G. Þórarinsson:
    Virðulegi forseti. Þær þrjár fyrirspurnir sem hv. 18. þm. Reykv. hefur lagt hér fram í keðju hafa leitt til nokkuð almennrar umræðu um málefni heyrnarlausra hér á þinginu og það er vel. Ég vil að hér komi fram sú skoðun mín að ég tel eðlilegt að heyrnarlausir njóti framhaldsmenntunar í hinu almenna framhaldsskólakerfi. En þá þarf að sjálfsögðu að búa þeim til þess aðstöðu, m.a. með því að nægilegur fjöldi túlka sem hlotið hafi viðhlítandi menntun sé til staðar. Ég hygg að það sé alveg ljóst að heyrnarlausir sem hyggja á framhaldsnám finna hjá sér nokkurt öryggisleysi vegna þess hversu túlkar eru fáir og þeir óttast þessa framkvæmd ef ekki er vel á haldið. Ég heyri það á máli menntmrh. að hann gerir sér grein fyrir þessari hættu og lýsir því hér yfir að framhaldsdeildin verði starfrækt í Heyrnleysingjaskólanum í a.m.k. eitt ár. Það kann vel að vera að það verði að vera lengur ef vel á að vera að þessu máli staðið.
    Tími minn er á þrotum. Ég vil hins vegar ljúka þessum fáu orðum með því að ég held einnig að grunnnám heyrnleysingja verði að fara fram með sérstökum hætti. Það þarf að vera öflugt og gott og geta búið heyrnarlausa undir nám í hinum almennu framhaldsskólum. Ég er þess vegna mjög sáttur við það að mér heyrist menntmrh. hafa fallið frá þeirri skoðun, sem hann reyndar hefur sett fram í því frv. sem nú liggur fyrir þinginu um grunnskóla, þar sem upphaflega var gert ráð fyrir að lög nr. 13/1962, um heyrnleysingjaskóla, væru felld úr gildi.