Fyrirspyrjandi (Margrét Frímannsdóttir):
    Virðulegi forseti. Á þskj. 926 hef ég leyft mér að bera fram fyrirspurn til hæstv. fjmrh. um skil á staðgreiddu útsvarsfé til sveitarfélaganna. Fyrir örfáum vikum síðan fengu forsvarsmenn flestra sveitarfélaga í landinu skeyti þar sem þeim var tilkynnt að vegna mistaka hefðu þeir fengið of háar upphæðir greiddar þegar þeim voru gerð skil á staðgeiddu útsvari á síðasta ári. Mistök þessi virðast hins vegar ekki hafa komið í ljós fyrr en nú á síðustu vikum. Í það minnsta var þeirri vitneskju ekki komið til sveitarfélaganna fyrr en í marsmánuði sl. Þó er hér ekki um nein smámistök að ræða, ekki neinar óverulegar upphæðir því hjá sumum sveitarfélögum nemur þessi ofgreiðsla staðgeiddra útsvara tugum milljóna króna, sem þeim er nú gert að greiða til baka. Hefur það í för með sér verulega röskun á fjárhagsstöðu margra sveitarfélaga.
    Reyndar er ekki bara um að ræða að þetta raski áætlunum sveitarfélaga sem nemur þeirri upphæð sem greiða á til baka heldur líka það að í mörgum sveitarfélögum hafði þegar verið gengið frá fjárhagsáætlun fyrir þetta ár, áætlun sem byggð er m.a. á uppgjöri sl. árs og þá á þeim útsvarsgreiðslum sem borist höfðu.
    Það er auðvitað eðlilegt að sveitarfélögin þurfi að greiða til baka, í það minnsta hluta þessara greiðslna sem þau höfðu fengið án þess að eiga rétt á. En eiga sveitarfélögin ein að gjalda fyrir mistök em þau eiga engan þátt í að áttu sér stað? Reyndar væri forvitnilegt að vita hver ber í raun ábyrgð á þessum mistökum og hvernig verður tekið á því máli af hálfu hæstv. ráðherra. Að þessu sögðu spyr ég hæstv. fjmrh.:
,,1. Hversu háum fjárhæðum nemur ofgreiðsla ríkissjóðs á staðgreiddu útsvari til sveitarfélaga sem kom í ljós nú nýverið?
    2. Hvernig áttu þessi mistök sér stað og hver ber ábyrgð á þeim?
    3. Verður sveitarfélögunum gefinn kostur á að endurgreiða hið ofgreidda staðgreiðslufé með jöfnum greiðslum út árið?``