Fjármálaráðherra (Ólafur Ragnar Grímsson):
    Virðulegi forseti. Sveitarfélögum var ofgreitt vegna skila á staðgreiðslu ársins 1989 og nemur sú upphæð rúmlega 342 millj. kr. Með sama hætti var vangreitt til annarra sveitarfélaga 142 millj. kr. þannig að ofgreiðslan nettó út úr ríkissjóðnum nam tæpum 200 millj. eða 198 millj. kr.
    Þegar er búið að endurgreiða að fullu þeim sveitarfélögum sem fengu vangreitt. Ríkissjóður hefur þannig gert upp þessar vangreiðslur gagnvart þeim sveitarfélögum.
    Varðandi þau sveitarfélög sem fengu ofgreitt hefur verið ákveðið að semja við Samband ísl. sveitarfélaga um það hvernig staðið verður að endurgreiðslu vegna þessara mistaka sem urðu hjá Skýrsluvélum ríkisins og Reykjavíkurborgar. Þessi mistök, sem alltaf geta gerst í stórum skýrslugerðarfyrirtækjum, áttu sér stað þannig að upplýsingar sem lesast áttu inn í bókhaldsskilakerfið komust ekki inn í kerfið hjá Skýrsluvélum þannig að forsendur við skiptinguna í hinum vélræna útreikningi á innheimtu staðgreiðslufjár voru rangar. Í yfirlýsingu sem forstjóri Skýrsluvéla ríkisins og Reykjavíkurborgar gaf um þetta mál segir orðrétt:
    ,,Skýrsluvélar ríkisins og Reykjavíkurborgar sjá um tölvurekstur staðgreiðslukerfisins. Einn verkefnaþáttur tölvuvinnslunnar er að reikna út hversu stórum hluta innheimtrar staðgreiðslu skuli skilað til einstakra sveitarfélaga í landinu. Á árinu 1989 urðu mistök í vinnslu hjá Skýrsluvélum ríkisins og Reykjavíkurborgar sem leiddu til þess að forsendur á skiptingu staðgreiðslu til sveitarfélaga urðu rangar í hinum vélræna útreikningi. Í októbermánuði 1989 vakti embætti ríkisskattstjóra athygli Skýrsluvéla ríkisins á þessum mistökum eftir að gjaldendur höfðu fengið sent yfirlit um þá staðgreiðslu sem færð var í vinnslukerfi staðgreiðslu. Í framhaldi af því var unnið að leiðréttingu er varðar úrvinnslu álagningarkerfisins en þær leiðréttingar komust ekki til skila í uppgjörskerfi við sveitarfélög fyrr en í marsmánuði á þessu ári.``
    Eins og ég gat um áðan hefur fjmrn. nú þegar greitt sveitarfélögunum það sem þeim bar vegna þessara mistaka. Hins vegar hefur verið ákveðið að gefa lengri tíma til þess að þau sveitarfélög sem fengu ofgreitt geti greitt það til baka. 24. apríl var haldinn fundur með fulltrúum Sambands ísl. sveitarfélaga til að ræða með hvaða hætti hægt verður að auðvelda þessum sveitarfélögum að greiða þessar tæpar 200 millj. kr. til baka. Gert er ráð fyrir því að hægt sé að koma þessu fyrir á þann hátt að um jafnar greiðslur verði að ræða svo að þetta þurfi sem minnst að koma við fjárhag sveitarfélaganna á þessu ári. Það er þess vegna fullur vilji hjá fjmrn. að auðvelda sveitarfélögunum að laga sig að þessu vandamáli. Jafnframt hafa verið gerðar ráðstafanir hjá Skýrsluvélum ríkisins og Reykjavíkurborgar til að mistök af þessu tagi komi ekki aftur upp í tölvukerfinu.

    Það er hins vegar fróðlegt fyrir okkur sem lifum á tímum þar sem við erum vön að taka allt gott og gilt sem út úr tölvunum kemur að átta okkur á því að enn geta mannleg mistök orðið við færslu upplýsinga frá einu kerfi yfir á annað svo að niðurstaðan í heild verður röng. Það er þó rétt að vekja athygli á því að þessi mistök nema aðeins örlitlu broti af þeim heildarupphæðum sem hér um ræðir.