Fyrirspyrjandi (Margrét Frímannsdóttir):
    Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. fjmrh. svörin og vil aðeins ítreka það að þetta hefur nú þegar haft í för með sér verulega röskun á allri áætlunargerð hjá sveitarfélögunum. Ég veit til þess að á sama tíma og skeytið barst, þar sem mistökin voru tilkynnt, var þegar um að ræða að teknar væru upphæðir upp í þessa skuld sveitarfélaganna við ríkið af þeim greiðslum sem áttu að berast sveitarfélögunum í mars og apríl.
    Það er vissulega þörf á því að gera þessa samninga við samtök sveitarfélaganna nú þegar til þess að þau viti það nákvæmlega þegar þau taka í maí/júní, eftir sveitarstjórnarkosningar, fjárhagsáætlanir sveitarfélaganna til umræðu aftur, nákvæmlega hvernig að þessu verði staðið. Og eins líka að eftirlit með þessum tölvufyrirtækjum verði hert, því þetta eru vissulega mannleg mistök þar sem tölvurnar eru mataðar en framkvæma ekki mistökin alfarið sjálfar.