Fyrirspyrjandi (Eiður Guðnason):
    Virðulegi forseti. Ég hef á þskj. 920 leyft mér að bera fram fyrirspurn til hæstv. utanrrh. varðandi tilraunir Sovétríkjanna með kjarnorkuvopn. Fyrirspurnin er svohljóðandi:
    ,,Hefur ríkisstjórn Íslands mótmælt þeim ráðagerðum Sovétríkjanna að flytja tilraunir með kjarnorkuvopn frá Mið-Asíu til Novaja Zemlja í Norður-Íshafinu?``
    Nú er það svo, samkvæmt þeim upplýsingum sem ég hef aflað mér, að um þetta hafa stjórnvöld í Sovétríkjunum enn ekki tekið ákvörðun. Hins vegar er þetta mjög til umræðu og ég veit að víða á Norðurlöndunum stendur mönnum nokkur stuggur af þessum fyrirætlunum og er uggur í brjósti vegna þess umtals sem orðið hefur um að færa þessar tilraunir til eyjanna í Norður-Íshafinu. Að vísu er það svo að Sovétmenn gerðu engar kjarnorkuvopnatilraunir þar í fyrra en þeir gerðu það hins vegar á árinu 1988 svo að óyggjandi er talið. Það er brýnt fyrir okkur Íslendinga að fylgjast vel með þessum málum og láta heyra í okkur og því er þessi fyrirspurn fram borin.