Utanríkisráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson):
    Virðulegi forseti. Samkvæmt heimildum sem birtar hafa verið, annars vegar í Sovétríkjunum og hins vegar í umræðu í finnska þinginu, þá liggur ekki fyrir endanleg ákvörðun af hálfu Sovétmanna um að flytja tilraunir með kjarnavopn frá Mið-Asíu til Novaja Zemlja. Málið er umdeilt innan Sovétríkjanna og er enn til umfjöllunar á vettvangi Æðstaráðsins.
    Aðdragandi þessa máls er sá að sovéska fréttastofan Tass skýrði frá því 8. mars sl. að varnarmálanefnd og umhverfismálanefnd Æðstaráðsins hefðu daginn áður komið saman til sameiginlegs fundar til þess að ræða stöðvun allra tilrauna með kjarnavopn í Semipalatinsk í Mið-Asíu. Á fundinum mun fulltrúi sovéska varnarmálaráðuneytisins hafa skýrt frá hugmyndum ráðuneytisins um að stöðva allar tilraunir með kjarnorkusprengingar við Semipalatinsk árið 1993 og láta síðan allar slíkar sprengingar fara fram á eynni Novaja Zemlja eftir þann tíma. Bæta má því við að samkvæmt upplýsingum jarðskjálftastofnunar háskólans í Helsinki gerðu Sovétmenn, eins og fram kom, tólf tilraunasprengingar við Semipalatinsk árið 1988 og sjö árið 1989. Tvær tilraunasprengingar voru hins vegar gerðar við Novaja Zemlja árið 1988 en engin árið 1989.
    Hugsanleg áform Sovétmanna hafa valdið þungum áhyggjum annars staðar á Norðurlöndum, einkum í norðurhluta Noregs og Finnlands. Norðmenn hafa komið áhyggjum sínum formlega á framfæri við sovésk stjórnvöld og í umræðum á finnska þinginu um málið 29. mars sl. kom fram hjá finnska utanríkisráðherranum að Finnar mundu beita öllum tiltækum ráðum til að afla sér upplýsinga um og hafa áhrif á umfjöllun Æðstaráðsins um málið. Mér er ekki kunnugt um hvort Svíar eða Danir hafa haft bein afskipti af þessu máli.
    Ríkisstjórn Íslands hefur enn sem komið er ekki komið á framfæri formlegum mótmælum við fyrirætlanir Sovétmanna um tilraunasprengingar á Novaja Zemlja
eftir 1993. Utanrrn. mun fylgjast náið með þeirri meðferð sem málið fær í viðeigandi nefndum Æðstaráðsins og meta hugsanleg viðbrögð íslenskra stjórnvalda í ljósi frekari upplýsinga sem kunna að koma fram. Auk þess tel ég æskilegt að málið veri rætt á norrænum vettvangi. Samráð um sameiginleg viðbrögð Norðurlandanna hafa enn ekki átt sér stað. Væntanlega verður þetta mál tekið upp á næsta utanríkisráðherrafundi Norðurlanda í Noregi.
    Þrátt fyrir að ríkisstjórnin hafi ekki tekið mál þetta upp við Sovétmenn enn sem komið er með formlegum hætti vil ég fullvissa hv. fyrirspyrjanda um að ríkisstjórnin leggur á það ríka áherslu að Sovétmenn bindi endi á allar kjarnavopnasprengingar neðan jarðar á Norðuríshafssvæðinu. Vistkerfi norðurheimskautssvæðisins gæti stafað mjög alvarleg ógn af stórauknum tilraunasprengingum Sovétmanna á svæðinu og skýtur sú staðreynd óneitanlega skökku við yfirlýsingar Gorbatsjovs um nauðsyn aukins

umhverfisverndarsamstarfs á norðurslóðum. Ég fagna því hins vegar að talsmenn yfirvalda í Sovétríkjunum hafa nýlega lýst því yfir að áhyggjur íbúa á norðurslóðum um fyrirmæli Sovétmanna verði teknar til greina, eins og þar stóð.
    Ég vil vekja athygli á að Ísland hefur stutt raunhæfar aðgerðir á alþjóðavettvangi sem miða að því að koma á allsherjarbanni við kjarnavopnatilraunum. Á síðasta allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna greiddi Ísland þannig atkvæði með sérstakri tillögu allsherjarþingsins um það efni líkt og undanfarin ár. Vonir eru nú við það bundnar að takast megi að staðfesta á þessu ári þá tvo samninga Bandaríkjanna og Sovétríkjanna um tilraunasprengingar með kjarnorku sem samið var um á 8. áratugnum.