Fyrirspyrjandi (Eiður Guðnason):
    Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. utanrrh. skýr svör. Hér er á ferðinni mál sem við þurfum vissulega að hafa áhyggjur af og sem við eigum að láta til okkar taka. Mér finnst ástæða til að beina því til hæstv. utanrrh. að ég held að rétt sé á þessu stigi máls að ríkisstjórnin lýsi formlega við sendifulltrúa Sovétríkjanna á Íslandi þeim áhyggjum og þeim ugg sem okkur er í brjósti vegna þessara áforma og hvetji til þess að frá þeim verði horfið, eins og raunar virðist alls ekki útilokað. Ég held að brýnt sé að þessum sjónarmiðum verði með formlegum hætti komið á framfæri hið allra fyrsta.
    Svo þakka ég skýr svör.