Fyrirspyrjandi (Danfríður Skarphéðinsdóttir):
    Virðulegur forseti. Í þeirri umræðu sem fram hefur farið um ferðamál að undanförnu hefur aftur og aftur verið minnst á það hversu nauðsynlegt sé að við skipuleggjum þessa atvinnugrein á okkar eigin forsendum miðað við aðstæður hér í landi. Í umræðum á ferðamálaráðstefnu komu fram áhyggjur aðila í ferðaþjónustunni af ýmsum atriðum varðandi ferðamálin, svo sem umhverfismál. Það sem bar ef til vill einna mest á voru vaxandi áhyggjur manna af auknum umsvifum erlendra aðila í ferðaþjónustunni hér á landi á síðustu árum. Á síðasta fundi Sþ. var til umfjöllunar till. til þál. um mótun opinberrar ferðamálastefnu. Tel ég það mjög til bóta að tekið skuli á þeim málum, eins og gert er, með því að leggja fram slíka tillögu. Með því að gera slíkt er þessi atvinnugrein viðurkennd sem sjálfstæð og arðbær atvinnugrein sem getur skipt miklu máli fyrir okkur öll.
    Ég hef hér fyrr í Sþ. í vetur beint fyrirspurn til hæstv. samgrh., einmitt líka í framhaldi af ferðamálaráðstefnunni, um jeppaferðir erlendra aðila um landið. Hingað bárust tíðindi um að jeppaferðir um hálendi Íslands væru skipulagðar á vegum erlendra aðila. Það er vitað mál að slíkir hópar hafa gjarnan allar sínar daglegu nauðsynjar með, auk eldsneytis á bifreiðar. Það kom fram í svari hæstv. samgrh. að hann hafi fullan hug á að taka á þeim málum og var þegar búið að gera ráðstafanir til þess að benda þessum aðilum á íslenskar reglur um innflutning bíla til landsins.
    Þá var hér nýlega samþykkt tillaga, sem ég var 1. flm. að ásamt þm. flestra flokka, um endurskoðun reglugerðar um eftirlit með skipulögðum hópferðum erlendra aðila til Íslands í atvinnuskyni. Voru í tllögunni tilmæli um að athuga málefni íslenskra leiðsögumanna í hópferðum erlendra aðila um landið. Samþykkt tillögunnar sýnir, ásamt því að leggja fram sérstaka tillögu um mótun ferðamálastefnu, að stjórnvöld hafa jákvæð viðhorf til þessara mála.
    Eitt af því sem oft hefur borið á góma í umræðunni er innflutningur á matvælum. Samkvæmt þeirri reglugerð sem nú er í gildi er leyft að flytja inn allt að 10 kg. Það getur auðvitað verið töluvert magn ef hugsað er um t.d. þurrmat af ýmsu tagi sem fólk, sem stundar fjallaferðir, tekur gjarnan með sér.
    Í framhaldi af þessum umræðum og þeim áhyggjum sem menn hafa af þessum málum hef ég beint eftirfarandi fyrirspurn til hæstv. fjmrh. á þskj. 936. Hún hljóðar svo, með leyfi forseta:
    ,,Eru uppi áform um að breyta reglugerð nr. 390/1989 í því skyni að takmarka frekar magn matvæla sem ferðamönnum, sem búsettir eru erlendis, er heimilt að flytja til landsins? Ef svo er, hvenær má vænta þess að ný reglugerð öðlist gildi?``