Fjármálaráðherra (Ólafur Ragnar Grímsson):
    Virðulegi forseti. Með reglugerðinni nr. 390, sem sett var á árinu 1989, var gerð breyting á þeim heimildum sem gilda um innflutning matvæla. Innflutningur matvæla þegar um er að ræða ferðir erlendra ferðamanna til Íslands, sem taka með sér matvæli inn í landið, var mjög takmarkaður í þessari reglugerð frá því sem verið hafði. Við hér á Íslandi búum nú við reglur í þessum efnum sem eru mun strangari en í nágrannalöndum okkar. Það eru þess vegna nokkur takmörk fyrir því hvað við getum sett strangar reglur um innflutning matvæla erlendra ferðamanna, einkum og sér í lagi í ljósi þess að við búum nú þegar við strangari reglur í þeim efnum en aðrar þjóðir.
    Ég veit ég þarf ekki að árétta í þessu samhengi að í samskiptum þjóða í millum, sérstaklega á sviði ferðamála, gildir almennt sú regla, og hún nýtur vaxandi stuðnings, að gagnkvæmi ríki milli landa í þeim efnum, að ekki séu settar strangari reglur gagnvart ferðum útlendinga til Íslands en settar eru gagnvart ferðum Íslendinga til annarra landa. Það er erfitt fyrir okkur að setja útlendingum strangari reglur um innflutning á matvælum til okkar lands en þeir setja okkur Íslendingum um hvaða matvæli, og í hve miklu magni, við getum haft með okkur þegar við ferðumst til þeirra landa.
    Í þeirri reglugerð sem áður gilti var við það miðað að matvæli mátti flytja inn, enda færi þyngd þeirra ekki upp fyrir 10 kg eða verðmætið upp fyrir ákveðna fjárhæð. Nú mega menn flytja inn matvæli allt að 10 kg, en verðmætið má þó ekki fara yfir 4000 kr. Vona ég að ég þurfi ekki að útskýra það fyrir hv. alþm. að það er í raun og veru mjög lág upphæð.
    Á síðasta ári gaf fjmrn. enn fremur út fyrirmæli til tollstjóra þar sem ítrekað var að tollfrjáls innflutningur á matvælum ferðamanna væri einungis heimill, enda væru matvælin í farangri viðkomandi ferðamanns. Þar með var ákveðið að sporna gegn þeirri venju sem hafði tíðkast að ferðamannahópar flyttu til landsins matvæli sín saman í stórum kössum eða öðrum geymslueiningum án þess að greina þau í sundur. Með því að knýja á um það að matvæli hvers og eins ferðamanns væru aðskilin frá matvælum hinna var enn frekar verið að þrengja möguleika erlendra ferðamanna og ferðamannahópa til þess að flytja með sér matvæli inn í landið.
    Ég tel í þriðja lagi einnig rétt að vekja athygli á því að fjárhæðin, 4000 kr., var ekki hækkuð þótt aðrar upphæðir á þessu sviði og í reglugerðinni hefðu verið hækkaðar. Þar með er auðvitað ljóst að sú takmörkun sem felst í upphæðinni hefur farið vaxandi með breytingum á verðlagi og breytingum á gengi íslenskrar krónu gagnvart gjaldmiðlum þeirra landa sem ferðamennirnir koma frá.
    Rétt er að ítreka það að erlendum ferðamönnum er ekki heimilt að flytja inn önnur matvæli til landsins en þau sem heimilt er að flytja til Íslands. Þar má segja að komi enn frekari takmörkun á flutningi

matvæla erlendra ferðamanna til landsins.
    Það er ljóst af þessu sem ég hef þegar rakið að það ríkja allmiklar takmarkanir, og hafa á síðustu mánuðum verið vaxandi, á því hvernig og í hve miklum mæli erlendir ferðamenn geti flutt með sér matvæli til landsins. Ég er þeirrar skoðunar að þær reglur sem nú hafa verið settar séu í reynd það strangar, og, eins og ég sagði í upphafi, mun strangari en í öðrum ríkjum, að það kunni að vera hæpið að breyta í bráð þeirri reglugerð sem sett var 1989.