Fyrirspyrjandi (Danfríður Skarphéðinsdóttir):
    Virðulegur forseti. Mér var að sjálfsögðu kunnugt um þá breytingu sem gerð hafði verið, enda segir í fsp. minni hvort fyrirhugað sé að takmarka frekar en síðast var gert. Ég vil þakka hæstv. fjmrh. fyrir svör hans við þessari fsp. minni. Það er auðvitað hægt að taka undir þau sjónarmið að það er erfitt að setja mun strangari reglur en þau lönd sem við eigum náin samskipti við. En það er nú reyndar svo að fæstir Íslendingar taka með sér matvæli þegar þeir fara til útlanda af augljósum ástæðum.
    Ég vil segja það hér í framhaldi af svari hæstv. fjrmh. að það væri auðvitað ein lausn í þessu máli. Hún er sú að lækka matvælaverð í landinu. Það hefur verið mjög áberandi í veitingarekstri eftir að matarskatturinn var lagður á að erlendir hópar hafa farið að taka með sér matvæli hingað til landsins í ríkari mæli ef til vill en áður var gert, alla vega fundu veitingamenn fyrir því. Það er örugglega eitt af þeim atriðum sem nauðsynlegt er að taka tillit til, ekki einungis vegna okkar erlendu gesta heldur auðvitað líka fyrst og fremst vegna okkar sem hér búum. Þessi upphæð, 4000 kr., er auðvitað dálítið teygjanleg, eftir því hvar matvælin eru keypt. Það fæst kannski ekki mikið fyrir íslenskar 4000 kr. á Norðurlöndunum en eftir því sem sunnar dregur í Evrópu er allt ódýrara. Það er auðvitað líka mjög brýnt að eftirlit í tolli sé gott þannig að ferðafólk viti að það þýðir ekki að reyna að taka með sér hingað til lands miklu meira en leyft er.
    Eitt mikilvægasta atriðið í þessu vil ég ítreka aftur. Það er auðvitað að lækka verð á matvælum.