Launakjör fangavarða og lögregluþjóna
Fimmtudaginn 26. apríl 1990


     Fjármálaráðherra (Ólafur Ragnar Grímsson):
    Virðulegi forseti. Í upphafi vil ég taka fram að stéttarfélag fangavarða er Starfsmannafélag ríkisstofnana og fer það með samningamál um launakjör fangavarða. Stéttarfélag lögreglumanna er hins vegar Landssamband lögeglumanna og fer það með samninga fyrir lögreglumenn.
    Ef litið er til röðunar starfa fangavarða og lögreglumanna í launaflokka þá er lögregluþjónum og fangavörðum grunnraðað í sambærilega launaflokka og hefur svo verið frá því í nóvembermánuði 1988. Það er hins vegar rétt að vekja athygli á því að árið 1987 sömdu flest stéttarfélög innan vébanda BSRB um nýja svokallaða númeringu launaflokka þannig að tölunni 169 var bætt við eldri launaflokk. Landssamband lögreglumanna fór hins vegar ekki þessa leið heldur hélt sig við eldri númeringu. Því er nauðsynlegt þegar menn bera saman þessa launaflokka í dag að þeir hafi í huga að bæta verður tölunni 169 við launaflokk lögreglumanna til þess að fá réttan samanburð síðan árið 1987.
    Í ársbyrjun 1987 tóku gildi ný lög um kjarasamninga opinberra starfsmanna. Í þeim lögum var hverju stéttarfélagi fyrir sig falið fullt og óskorað samningsumboð en áður hafði samningsumboðið verið tvískipt. Það eru fjölmörg dæmi um það að síðan 1987 hafa stéttarfélög lagt mismunandi mat á það hvaða atriði skuli leggja áherslu á í kjarabaráttu og samningaviðræðum. Í þessu sambandi er þess vegna nauðsynlegt að átta sig á því að fangaverðir og lögreglumenn eru ekki í sama stéttarfélagi og ólíkir aðilar fara með samningsumboðið fyrir hönd þessara starfsstétta.
    Það er þess vegna ekki í verkahring fjmrn. að tryggja slíka samræmingu milli félagsmanna í ólíkum stéttarfélögum heldur fyrst og fremst að ræða við viðkomandi stéttarfélög um þau atriði sem þau leggja áherslu á í sínum viðræðum vegna þess að samningsumboðið er sjálfstætt hjá hverju stéttarfélagi fyrir sig.
    Hvað varðar samanburð á lögreglumönnum og fangavörðum er rétt að vekja einnig athygli á því að í kjarasamningum lögreglumanna er ákvæði um að þeim séu sjálfkrafa tryggðar hækkanir ákveðinna viðmiðunarhópa. En slík ákvæði er ekki að finna í kjarasamningum Starfsmannafélags ríkisstofnana. Það hefur verið kannað sérstaklega hjá launaskrifstofu fjmrn. hvort hægt sé að finna einhverjar skriflegar yfirlýsingar eða bókanir af hálfu ráðuneytisins eða launaskrifstofunnar þar sem fram komi fyrirheit um að tryggja samræmingu launakjara þessara tveggja starfsstétta. Slíkar yfirlýsingar eða bókanir er ekki að finna. Í þessu sambandi er einnig rétt að leggja áherslu á það að slíkar bókanir eru heldur ekki í samningum Starfsmannafélags ríkisstofnana sem fer með samningsumboðið fyrir fangaverði.
    Ég vona að þessi svör varpi nokkru ljósi á það hvernig samningum um launakjör þessara tveggja starfsstétta er háttað. Fjmrn. fyrir sitt leyti mun að

sjálfsögðu eiga viðræður við stéttarfélögin um þessi mál, eftir því hvaða áherslur viðkomandi stéttarfélög setja fram í þeim kjarasamningum sem væntanlega munu fara fram þegar yfirstandandi samningatímabili er lokið.
    Ég vil svo að lokum árétta það sem ég sagði í upphafi að líklegast er meginskýringarinnar á þeim mismun, sem vikið er að í fyrri fsp. hv. fyrirspyrjanda, að leita í því að þessar tvær ágætu starfsstéttir hafa kosið að skipa sér í ólík stéttarfélög.