Launakjör fangavarða og lögregluþjóna
Fimmtudaginn 26. apríl 1990


     Fyrirspyrjandi (Margrét Frímannsdóttir):
    Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. fjmrh. fyrir svör hans þó að ég sé í sjálfu sér ekkert óskaplega ánægð með þau. Því ég hefði viljað fá það hér fram að til væru í það minnsta pappírar fyrir þeim loforðum sem Félag íslenskra fangavarða telur sig hafa síðan verkfallsréttur var af þeim tekinn og lögum breytt. Ég hef séð bréf sem þeir sendu Starfsmannafélagi ríkisstofnana þar sem þeir ítreka þá spurningu sína hvort standa eigi við gefin loforð. Reyndar barst svar frá Starfsmannafélagi ríkisstofnana, sem hlýtur að vera til einhvers staðar í þeirra skjalavörslu, þar um að það yrði ekki gert vegna þess að dómsmrn. hefði ekki fallist á slíka samræmingu nú. Hins vegar hefur hvergi komið fram að þetta loforð sé dregið í efa.
    Lögregluþjónar hafa lagalega tryggingu, þeir hafa ákvæði um viðmiðunarhópa sem fangaverðir hafa ekki. Það er einmitt það sem þeir töluðu um að þeir þyrftu að fá leiðréttingu á. Það er töluverður munur á launum þessara hópa, ekki bara á númerum launaflokka eða hvaða tölur standa þar fyrir framan. Það er heldur ekki það sem skiptir máli. Það sem skiptir máli er hvað þeir fá í laun. Lögregluþjónar eru ekkert ofsælir af sínum launum en fangaverðir eru enn verr staddir og þess vegna finnst mér nauðsynlegt að það séu teknar upp viðræður við þá þar sem fjallað yrði um þetta loforð sem þeir telja sig hafa.
    Ég spyr því enn og aftur: Mun fjmrn. beita sér fyrir því að samræma launakjör þessara stétta?