Launakjör fangavarða og lögregluþjóna
Fimmtudaginn 26. apríl 1990


     Fjármálaráðherra (Ólafur Ragnar Grímsson):
    Virðulegi forseti. Mér hefur verið tjáð, eins og fram kom hjá hv. fyrirspyrjanda, að Starfsmannafélag ríkisstofnana hafi skrifað fangavörðum bréf þess efnis sem hv. fyrirspyrjandi vék að. Þar er hins vegar einungis um að ræða yfirlýsingu forsvarsmanna Starfsmannafélags ríkisstofnana gagnvart fangavörðum sem félagið fer með samningsumboð fyrir. Engin slík bréf eru hins vegar af hálfu launaskrifstofunnar eða fjmrn. eða í samskiptum launaskrifstofunnar og fjmrn. við Starfsmannafélag ríkisstofnana. Auðvitað geta verið fjölmörg tilvik þar sem forusta stéttarfélags lætur í ljósi ýmsar skoðanir við þá félagsmenn sem félagið fer með samningsumboð fyrir, án þess að það komi fram í samskiptum fjmrn. eða samninganefndar ríkisins við viðkomandi stéttarfélag.
    Það sem ég sagði hér áðan fól í sér að af hálfu samninganefndar ríkisins, fjmrn. eða launaskrifstofu ríkisins er hvergi að finna neinar yfirlýsingar, hvorki einhliða af hálfu ráðuneytisins eða samninganefndarinnar né í samskiptum þeirra við Starfsmannafélag ríkisstofnana, þar sem vikið er að þessu efnisatriði um samræmingu launakjara þessara starfsstétta sem hv. fyrirspyrjandi vék að. Það er á þeim grundvelli sem fjmrn. í sjálfu sér getur ekki tekið málið upp vegna þess að það hefur ekki verið tekið upp með þeim hætti í samskiptum þess stéttarfélags sem fer með samningsumboðið gagnvart fjmrn.
    Auðvitað er það þannig að einstakir hópar innan stéttarfélaga geta haft í frammi óskir um samræmingu við aðra hópa. Meginreglan í samningum samninganefndar ríkisins og í starfi launaskrifstofunnar gagnvart opinberum starfsmönnum er hins vegar að reyna að greiða fyrst og fremst úr þeim áherslum sem lagðar eru fram í kjarasamningaviðræðum þess stéttarfélags sem fer með samningaumboðið gagnvart samninganefnd ríkisins og launaskrifstofunni. Eins og fram hefur komið þá virðist málið líta öðruvísi út í samskiptum félagsins, sem fer með samningsumboðið, við hinn samningsaðilann, ríkið, en það virðist vera í innbyrðis samskiptum Starfsmannafélags ríkisstofnana við Félag fangavarða.
    Hins vegar er sjálfsagt að skoða þetta mál áfram og hafa auga á því. En fjmrn. og samninganefndin verða hins vegar að fylgja vissum samskiptareglum sem mótast hafa við samningsaðilana í gegnum tíðina.
    Hins vegar hefur verið vakin athygli á þessu máli hér af hv. fyrirspyrjanda og launaskrifstofan hefur af því tilefni sérstaklega kannað það mál og er þess vegna kunnugt um það nú þó svo hafi ekki verið áður.