Fyrirspyrjandi (Birgir Ísl. Gunnarsson):
    Virðulegi forseti. Það er alveg ljóst að hæstv. menntmrh. hefur með aðgerðum sínum skert stórlega námslánin. Skerðingin er mun meiri en nemur því sem námsmenn fá í gegnum hækkun á grunninum 1. sept. vegna þess að þessar aðgerðir taka af námsmönnum 240 millj. kr. á þessu ári og 245 millj. kr. á því næsta.
    Við skulum aðeins átta okkur á hvernig þessar einstöku aðgerðir koma út. Með því að lækka verulega lán til bóka, tækja og efniskaupa, en meðallán til háskólastúdents var 23 þús. kr. á síðasta ári, þá verður það ekki hærra á þessu ári en 14.650 kr. Þetta þýðir 36% lækkun. Varðandi lán til einstaklinga í foreldrahúsi þá er lækkun á lánum til einstaklinga nú 29% og á að spara sjóðnum 120 millj. Meðferð á tekjum maka var breytt sem er mjög alvarlegt mál vegna þess að með því er verið að skerða möguleika láglaunafólks til að stunda háskólanám, eða nám sem er lánshæft frá Lánasjóði ísl. námsmanna. Þetta á að spara 60 millj. kr. Tekjutillitið er líka hækkað og það er enn eitt atriði sem er komið með í bakið á námsmönnum. Það var með samkomulagi hækkað úr 35% í 50% og út á það ætlaði hæstv. ráðherra að hækka framfærslugrunninn. Síðan hækkaði hann framfærslugrunninn og tekur til viðbótar af námsmönnum tekjutillitið þannig að það fer nú í 75%. Með því er auðvitað verið að refsa námsmönnum fyrir að vinna og það er komið niður í láglaunahópana í þessum efnum. Þannig að það er verið að skerða möguleika láglaunahópa til náms í þessu tilliti.
    Hæstv. ráðherra getur auðvitað ekkert skýlt sér á bak við það þó ég eða sjálfstæðismenn höfum ekki flutt brtt. við frv. til fjárlaga hér á sl. hausti. Það er ekki það sem málið snýst um. Málið snýst auðvitað um það að hæstv. ráðherra hefur ekki getað staðið við þau stóru loforð sem hann gaf í kosningabaráttunni l987 öðruvísi en að taka miklu meira frá námsmönnum í öðrum efnum en hann hefur treyst sér til að veita þeim með því að hækka framfærslugrunninn.