Viðhald á íslenskum flugvélum
Fimmtudaginn 26. apríl 1990


     Landbúnaðarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon):
    Hæstv. forseti. Ég þakka hv. fyrirspyrjanda. Hér er hreyft mjög þörfu og athyglisverðu máli og mér ljúft og skylt að reyna að svara sem kostur er. Í fyrsta lagi er spurt um það hversu miklum hluta viðhalds og viðgerða á íslenska flugvélaflotanum og varahlutum í hann sé sinnt hér innan lands eða fari fram hér á landi.
    Því er til að svara að í dag eru flugvélar yfir 5.700 kg, þ.e. flugvélar í stærsta stærðarflokki í flugrekstri hjá Flugleiðum hf., Arnarflugi hf. og flugfélaginu Atlanta hf., og allar meiri háttar skoðanir flugflota Flugleiða og Atlanta fara fram á Íslandi. Meiri háttar viðgerðir á varahlutum og á stærri hreyflum flugvéla frá Flugleiðum, Arnarflugi og Atlanta fara yfirleitt fram erlendis enn sem komið er. Venjulegar skoðanir hjá flugrekstraraðilum með flugvélar undir 5.700 kg fara að langmestu leyti fram á Íslandi, með nánast sárafáum undantekningum. Sú helsta er væntanlega sú að skrúfuþotur Helga Jónssonar af nýrri gerð munu verða skoðaðar í Danmörku þar sem sambærilegar flugvélar eru í rekstri.
    Í öðru lagi er spurt hvort flugmálayfirvöld hafi einhver áform um að auka þann hlut, þ.e. viðhalds og viðgerða, sem fram fer hér á Íslandi til að tryggja íslenskum flugvirkjum atvinnu.
    Nú er það svo að hlutverk Flugmálastjórnar eða Loftferðaeftirlits í þessu sambandi er m.a. að hafa eftirlit með því að lögum og reglugerðum sé framfylgt varðandi tæknirekstur flugfélaganna. Og flugmálayfirvöld hafa bent á það að bæta þurfi úr húsnæðismálum til þess að skapa góða viðhaldsaðstöðu fyrir flugvélar á landinu. Í skipulagi fyrir m.a. Keflavíkurflugvöll og Reykjavíkurflugvöll hafa flugmálayfirvöld gert ráð fyrir lóðum undir viðhaldsskýli.
    Það er því miður þannig að flugrekstraraðilar hafa ekki enn hafið byggingu flugskýlis á Keflavíkurflugvelli en þar er viðhaldsaðstaða þeirra pláss í flugskýli varnarliðsins, eins og frægt er orðið að endemum.
    Á Reykjavíkurflugvelli hafa hins vegar átt sér stað endurbætur á viðhaldsaðstöðu en bygging viðhaldsskýlis hefur ekki hafist á nýju byggingarsvæði fyrir slíka starfsemi sem ætlað er í suðausturhorni Reykjavíkurflugvallar.
    Ég vil bæta því hér inn í að mér er kunnugt um það, m.a. eftir viðræður við forstjóra Flugleiða og með upplýsingum sem fram komu á aðalfundi þess fyrirtækis, að Flugleiðir hafa á því mikinn áhuga að ráðast í byggingu nýs viðhaldsskýlis á Keflavíkurflugvelli sem yrði reist á svæðinu við nýju flugstöðina. Það hefur verið til athugunar innan stjórnar fyrirtækisins um nokkurt skeið hvernig unnt væri að fjármagna slíka framkvæmd. Það er ljóst að einmitt af þeim sökum sem hv. fyrirspyrjandi nefndi, að flugvélstjórar eru núna að hverfa úr stjórnklefum með því að nýjar flugvélategundir koma til sögunnar

og einnig vegna þess að fjölmargir aðilar hafa aflað sér náms og réttinda á þessu sviði á undanförnum árum, að það stefnir í að veruleg hætta verði á verkefnaskorti hér innan lands og beinlínis atvinnuleysi fyrir menntaða flugvirkja ef ekki reynist unnt á allra næstu árum að ná enn meiru af viðhaldi íslenska flugflotans og helst erlendum verkefnum inn í landið. En til þess ættu að vera allgóðar forsendur ef slík ný og fullnægjandi viðhaldsaðstaða kæmi til sögunnar. Og ég vil lýsa því yfir fyrir mitt leyti að ég væri reiðubúinn að skoða hvað stjórnvöld gætu á sig lagt til þess að auðvelda flugrekstraraðilunum, einkum Flugleiðum, að koma upp slíkri viðhaldsaðstöðu.
    Í þriðja lagi er svo spurt: ,,Eru einhver vandkvæði á því að slíkt viðhald fari að mestu eða öllu leyti fram hér á landi?``
    Því svara ég þannig að það er enginn vafi á því að fyrir hendi er góð tækniþekking í flugvirkjastéttinni og þegar bætt hefur verið úr viðhaldsaðstöðunni, samanber svar mitt við 2. lið fsp., skapast allar forsendur fyrir því að meiri háttar skoðanir og stór hluti viðgerða á varahlutum geti farið fram hér á landi. Ákvörðun um að hefja rekstur slíkrar viðhaldsþjónustu, þar sem athugað verði m.a. rekstrargrundvöllurinn og fjárhagsleg hagkvæmni slíks, verður hins vegar að vera hjá flugrekstraraðilunum þar sem þeir yrðu rekstraraðilarnir í þessu tilviki. En sjálfsagt mál er að stjórnvöld geri allt sem í þeirra valdi stendur og styðji þá viðleitni að færa þessi verkefni sem allra mest inn í landið.