Fræðsluvarp
Fimmtudaginn 26. apríl 1990


     Fyrirspyrjandi (Guðrún Agnarsdóttir):
    Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svör hans. Hann hefur upplýst nokkuð vel um þróun þessa máls. Mér fannst okkur hvergi greina á um mikilvægi fjarkennslunnar í sjáfu sér þó að ræða megi um það hvort hún fari fram um fræðsluvarp eða á einhvern annan hátt. En í raun og veru var lykilatriði í máli hans það sem hann gat um síðast, en það er auðvitað að fé fáist á fjárlögum til starfsemi eins og þessarar. Það kom ljóst fram í upphafi svara hans að fræðsluvarpið hafði verið lagt niður vegna skorts á fé.
    Ég er einmitt með frv. sem hæstv. ráðherra hefur lagt fram í efri deild um almenna fullorðinsfræðslu þar sem getið er um það í aths. við 12. gr., en hún fjallar um menntunarsjóð svonefndan, að tengja eigi fjarkennslu fullorðinsfræðslunni, e.t.v. með fræðsluvarpi eins og getið er um í frv. til útvarpslaga. Ég minni hæstv. ráðherra einnig á það að það er annar ráðherra, félmrh., sem leggur fram frv. til laga um starfsmenntun í atvinnulífinu. Þar er líka hlutverk fyrir fjarkennslu og reyndar alls staðar þar sem endurmenntun og símenntun er tekin fyrir, en um hana eru vaxandi kröfur og fyrir hana er vaxandi þörf í þjóðfélagi nútímans.
    Ég ætla ekki að fara út í frekari efnislega umræðu um málið núna en legg ríka áherslu á það að nægar fjárveitingar fáist til þessa mikilvæga verkefnis því þetta er auðvitað hluti af því að halda uppi virkri byggðastefnu. Þannig að sú fræðsla og þekking sem þjappast saman hér á suðvesturhorninu standi öðrum til boða annars staðar á landinu í jafnríkum mæli.