Fræðsluvarp
Fimmtudaginn 26. apríl 1990


     Menntamálaráðherra (Svavar Gestsson):
    Virðulegi forseti. Ég vil taka undir þau orð sem hv. 6. þm. Reykv. lét hér falla í lokin. Þetta er auðvitað gríðarlega mikilvægur þáttur í byggðastefnu og það er mjög nauðsynlegt að Alþingi, sem virðist áhugasamt um framkvæmd byggðastefnu oft og tíðum, geri sér grein fyrir því að þetta getur kannski verið úrslitaþáttur í því að halda uppi eðlilegri byggð í landinu, að unnt sé að dreifa þekkingarforða héðan úr þéttbýlinu til dreifbýlisins með eðlilegum, skilvirkum og ljósum hætti.
    Það sem gerst hefur í þessum málum má segja að sé aðallega eftirfarandi:
    1. Við höfum stofnað deild í ráðuneytinu sem hefur með fullorðinsfræðslu að gera.
    2. Verið er að vinna að sérstakri tillögugerð um fjarkennslu, eins og ég rakti hér áðan, þar sem m.a. hefur verið rætt um það í tengslum við fjárlögin fyrir árið 1990 að þetta verði sjálfstæður fjárlagaliður en ekki undir Háskóla Íslands eins og þetta mun vera í fjárlögunum í dag.
    3. Við höfum tekið ákvarðanir um að undirbúa dreifða og sveigjanlega kennaramenntun. Sá undirbúningur hófst í fyrra og sú starfsemi kemst væntanlega í gang haustið 1991.
    4. Fyrirhugað er svokallað dreift og sveigjanlegt nám fyrir fóstrur sem er aðeins hafinn undirbúningur að.
    5. Ég vil nefna frv. sem hv. þm. gat um hér áðan. Ég bendi einnig á frv. hæstv. félmrh. í þeim efnum og segi: Það er óhjákvæmilegt að mínu mati að frv. af þessu tagi verði samferða í gegnum þingið vegna þess að það er háskalegt frá sjónarmiði þjóðarinnar, skólakerfisins og atvinnulífsins að þar verði skilið á milli.
    Að öðru leyti þakka ég hv. 6. þm. Reykv. fyrir að hreyfa þessu mikilvæga máli hér.