Utandagskrárumræða um kvótafrumvarpið
Fimmtudaginn 26. apríl 1990


     Forseti (Guðrún Helgadóttir):
    Forseti vill upplýsa að það verða engir nefndafundir kl. 3 vegna þess að forseti hefur látið hringja út hvern einasta þingmann til atkvæðagreiðslu hér í þinginu kl. 3. Hv. þm. spurði hver væri skylda þingmanns og hún er þessi skv. 34. gr. þingskapalaga:
    ,,Skylt er þingmönnum að sækja alla þingfundi nema nauðsyn banni. Forföll skal tilkynna forseta svo fljótt sem unnt er og metur hann nauðsynina.``
    Þingmanninum er jafnframt ljóst að forseti þingsins hefur ekki boðað til nefndafunda í þinginu og hefur ekkert með það að gera. Það eru formenn nefnda sem það annast í samráði við hv. þm.
    Það er alveg ljóst að hér verður ekki leyfð utandagskrárumræða rúmum klukkutíma eftir að um hana er beðið. Það verður að líða lengri tími. Jafnframt er hv. þm. vel ljóst að sá sem um slíka umræðu biður verður að vera búinn að tryggja að viðkomandi ráðherra eða sá sem hann vill beina máli sínu til verði jafnframt viðstaddur. Mér er ókunnugt um hvort þingmaðurinn hefur gert það, ég hygg þó ekki, en boð forseta stendur, að hér hefjist fundur kl. 3.15 og þá verði leyfð umræða utan dagskrár, en hún verður ekki leyfð núna.