Utandagskrárumræða um kvótafrumvarpið
Fimmtudaginn 26. apríl 1990


     Ólafur G. Einarsson:
    Hæstv. forseti. Svona fljótt á litið yfir salinn sýnist mér að það séu aðeins tveir þingflokksformenn hérna og ég er annar þeirra, og ég held að ég megi til með að bera af mér sakir ef ég má orða það svo. Það hefur verið spurt hér af hv. þm. Karvel Pálmasyni hvort fréttir Ríkisútvarpsins, sem ég heyrði nú að vísu ekki, í hádeginu væru réttar, að það hafi verið gerður samningur á milli þingflokksformanna, að mér skilst, og væntanlega forsrh. um að taka svokallað kvótamál út úr hv. Ed. á laugardegi.
    Ég vil aðeins segja það að ég kannast ekki við slíkan samning. Af hálfu okkar sjálfstæðismanna var í viðtölum við hæstv. forsrh. í gærkvöldi gerð einmitt krafa um það að málið hefði sinn tíma í Ed. og það væri ljóst að það yrði ekki tekið til umræðu í Ed. fyrr en á laugardegi. Það er jafnljóst að slíku máli verður ekki lokið á einum degi í gegnum tvær umræður í deildinni. Á þetta var bent í svona þægilegu rabbi, skulum við segja, við hæstv. forsrh. Ég vil aðeins segja þetta að því er mér viðkemur, að ég hef ekki staðið að neinum slíkum samningi.
    Af því að hv. þm. Karvel Pálmason stóð hér upp í ræðustóli og lagði áherslu á það að hann væri ekki stjórnarþingmaður og samviskan byði honum að fylgja þeim málum sem hann teldi rétt að fylgja minni ég hann aðeins á það að samviskan bauð honum hins vegar núna í desembermánuði að styðja þessa ríkisstjórn sem hann vill núna helst sverja af sér. Það skil ég svo sem vel.