Siglingaleið um Hornafjörð
Fimmtudaginn 26. apríl 1990


     Jón Kristjánsson:
    Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir áliti allshn. um till. til þál. um rannsókn á siglingaleið um Hornafjörð.
    ,,Nefndin hefur fjallað um tillöguna og fékk um hana umsagnir frá bæjarstjórn Hafnar, Siglingamálastofnun ríkisins og Vita- og hafnamálaskrifstofunni. Þá komu á fund nefndarinnar Hermann Guðjónsson vita- og hafnamálastjóri og Gísli Viggóson, forstöðumaður rannsóknardeildar Vita- og hafnamálaskrifstofunnar.
    Nefndin mælir með samþykkt tillögunnar með breytingu sem flutt er tillaga um á sérstöku þingskjali.``
    Það kom fram í starfi nefndarinnar að Vita- og hafnamálaskrifstofan hefur þegar unnið drög að rannsóknaráætlun og nefndin gerir tillögu um að tillgr. orðist svo:
    ,,Alþingi ályktar að fela samgönguráðherra að hlutast til um við Hafnamálastofnun ríkisins að hraðað verði rannsókn á innsiglingunni við Hornafjarðarós og öðrum aðstæðum í tengslum við skipaleiðir um Hornafjörð.``
    Undir nál. rita Guðni Ágústsson, Jón Kristjánsson, Guðrún Helgadóttir, Eggert Haukdal, Ingi Björn Albertsson, Kristinn Pétursson og Karl Steinar Guðnason.