Siglingaleið um Hornafjörð
Fimmtudaginn 26. apríl 1990


     Egill Jónsson:
    Virðulegi forseti. Ég ætla að hefja mál mitt á því að þakka frsm. og meðflm. manni, öðrum af tveim, fyrir að skýra frá samþykkt allshn. Sþ. um afgreiðslu á till. til þál. um rannsókn á siglingaleið um Hornafjörð. Mér er fullkunnugt um það að hv. allshn. hefur lagt mikið starf í afgreiðslu þessarar tillögu, leitað umsagna og upplýsinga, m.a. hjá Hafnamálastofnun ríkisins, og þannig fengið sannfærandi grundvöll fyrir afgreiðslu málsins.
    Tillaga svipaðs efnis hefur áður verið flutt hér á hv. Alþingi. Sömu alþingismenn og þeir sem fluttu þessa tillögu fluttu tillögu með sama texta á 111. löggjafarþingi en áður höfðu, að tilhlutan Sverris Hermannssonar, verið fluttar tillögur að ég hygg fjórum sinnum á næstu árum á undan. Það er því mikilvægt að þau rannsóknarverkefni sem hér er lagt til að verði unnin skuli nú hafa hlotið staðfestingu hér á Alþingi.
    Við undirbúning að gerð þessarar tillögu var leitað upplýsinga og aðstoðar hjá Hafnamálastofnun ríkisins, einkum er varðar upplýsingar í greinargerð og m.a. af þeirri umræðu hefur hlotist mikil umræða um þessi mál. Eins og tillögugreinin ber með sér, þegar henni hefur verið breytt, sbr. tillögur allshn., hefur í raun verið byrjað á að framkvæma rannsóknaráætlun eða a.m.k. að gera rannsóknaráætlun fyrir Hornafjarðarós og nánasta umhverfi hans. Eigi að síður er það mikilvægt að afstaða Alþingis skuli nú liggja hér fyrir.
    Hornafjörður er einstæður sem siglingaleið. Fróðir menn segja mér að hliðstæðar aðstæður séu ekki finnanlegar í veröldinni. Hér eru það sérstæð og margslungin náttúruöfl sem skapa það umhverfi sem þar er um að ræða. Þar á m.a. hlut að máli stærsti jökull í heimi utan heimskautajökla, Vatnajökull, og fróðir menn telja jafnvel að vöxtur hans og viðgangur á ýmsum tímum ráði miklu um aðstæður við Hornafjörð. M.a. af þessari ástæðu hefur nú verið undirbúin ráðstefna í júnímánuði þar sem væntanlega verða kallaðir saman margir hinna
hæfustu manna á sviði náttúruvísinda sem tengjast aðstæðum eins og við Hornafjörð. Allt er þetta mjög af hinu góða.
    Í gær bárust fréttir um að þrjú skip hefðu strandað í Hornafirði og menn hefðu þar verið hætt komnir. Sams konar fréttir hafa raunar borist oftar þaðan að austan á þessum vetri og er þetta að sjálfsögðu mikil aðvörun um að nauðsyn beri að taka hér hraustlega til hendinni, til að kanna aðstæður og til að reyna að finna leiðir sem geta bætt innsiglinguna til Hafnar í Hornafirði, því að eins og menn vita er það byggðarlag ein af þróttmestu byggðum hér á landi og hefur jafnan verið þar traust og gott atvinnulíf og margháttaðar framfarir. Það er að sjálfsögðu sammerkt bæði gagnvart sjávarbyggðinni og eins gagnvart sveitabyggðinni að þar er ekki hægt að hugsa sér mannlíf með öðrum hætti en að siglingaleið verði greið til Hafnar í Hornafirði.
    Í greinargerð fyrir tillögunni eins og hún var lögð

fram af okkur flm. er á það minnst að á sviði bæði flugmála og eins vegamála séu sérstök og stór verkefni mörkuð sérstaklega, tekin upp sem sérstök verkefni, og vonandi kemur að því fyrr en síðar að slíkar ákvarðanir verði hægt að taka gagnvart hafnargerð við Hornafjörð.
    Ég vil hins vegar sérstaklega taka fram að hér er um rannsóknaráætlun að ræða og þörf mun verða á margháttuðum lagfæringum og endurbótum á siglingaleiðinni um Hornafjörð eftir þann erfiða vetur sem nú er að enda. Auðvitað munum við þingmenn Austurl. huga að því þegar að því kemur að fjárlög verða afgreidd fyrir næsta ár. Með sama hætti hlýtur það að verða okkar ásetningur að sérstök fjárveiting verði mörkuð til þessarar rannsóknaráætlunar. Að vísu er nokkurt fjármagn í vörslu Hafnamálastofnunar sem sérstaklega er ætlað til rannsókna, en ólíklegt er að það muni nægja til þess verkefnis sem hér er lagt til að unnið verði og störf eru hafin að.
    Ég endurtek svo aftur, virðulegi forseti, þakklæti til meðflm. manna minna sem hafa að sjálfsögðu lagt þessari tillögu lið við afgreiðslu hér á Alþingi og allshn. allri fyrir afgreiðslu hennar sem áreiðanlega verður staðfest hér af þinginu á eftir.