Samkomulag um afgreiðslu kvótafrumvarpsins
Fimmtudaginn 26. apríl 1990


     Stefán Valgeirsson:
    Virðulegi forseti. Ég vil að það komi skýrt fram hér að ekkert samkomulag hefur verið gert við mig um þetta mál, enda geri ég ráð fyrir því að hæstv. ráðherrum finnist að það sé ekki þörf á því, sú sé ástæðan. Ég fékk t.d. þessar tillögur í hendur kl. rúmlega 10 í gærkvöldi, en ég vissi það að þær voru settar á borð þingmanna Sjálfstfl. kl. 4 svo að ég sagði við hæstv. sjútvrh. þegar hann kom með þetta að ég hefði ekkert með það að gera en tók nú við því samt., þ.e. þegar hann kom aðra ferð með það.
    Það er þrennt sem ég vil taka fram í þessu máli. Ég get ekki stutt þetta frv. öðruvísi en upp verði tekið fiskvinnsluleyfi eða byggðakvóti í fyrsta lagi. Í öðru lagi að bannað verði að selja óveiddan fisk í sjó frá þeim byggðarlögum sem hafa hann. Og í þriðja lagi ef á annað borð á að leyfa útflutning á óunnum fiski, sem ég er í sjálfu sér andvígur, þá sé það viss prósenta sem hver og einn megi flytja út og menn hafi þá leyfi til þess, ef þeir ekki sjá sér fært að gera það sjálfir, að selja þann rétt til annarra til þess að menn standi jafnar að vígi í sambandi við slíkan útflutning.